Smiðjuhópur í fjöruferð

Þessi flotti hópur úr 1. og 2. bekk fóru með smiðjukennaranum sínum, henni Freydísi, í gönguferð niður í fjöru. Á vegi þeirra varð töluvert magn af rusli. Að sjálfsögðu lögðu þau sitt af mörkum til að fegra bæinn okkar og fjöruna með því að tína það upp sem á vegi þeirra varð.

Öskudagsball

ÖMánudaginn 4. mars halda nemendur í 10. bekk öskudagsball í Oddeyrarskóla.

Böllin eru liður í fjáröflun fyrir skólaferðalag.

Allir nemendur eru velkomnir í sínum búningum.

Ball fyrir 1. – 4.  bekk verður 17:00 – 18:30

Ball fyrir 5. – 7. bekk verður 19:00 – 20:30

Það kostar 500 kr. inn á ballið og það verður sjoppa á staðnum.

Nemendur í 10. bekk

Nýr salatbar tekinn í notkun

Í dögunum tókum við í notkun nýjan salatbar í Oddeyrarskóla. Þetta er mikið fagnaðarefni þar sem möguleikar okkar aukast á að bjóða upp á fjölbreyttan og hollan mat fyrir nemendur og starfsfólk. Við erum afar ánægð með þessa nýjung. Á myndinni má sjá þær Ágústu og Mörtu starfsmenn eldhúss og tvo nemendur í 3. bekk.

Fræðslufundur fyrir foreldra

Annað kvöld stendur Heilsueflingarnefnd Oddeyrarskóla fyrir fræðslufundi fyrir foreldra barnanna í skólanum um geðheilbrigði barna.
Eyrún Kristína Gunnarsdóttir sálfræðingur og Guðbjörg Ingimundardóttir félags- og PMTO ráðgjafi verða með erindi á fundinum.

Vinsamlegast lesið auglýsinguna á eftirfarandi hlekk og merkið við hvort þið komið eða ekki.

Stýrihópur um heilsueflandi grunnskóla


Skíðadagur verður 12. febrúar

Skíðaferð nemenda og starfsmanna Oddeyrarskóla verður þriðjudaginn 12. febrúar (en ekki 7. febrúar eins og fram koma á skóladagatali).

Foreldrar og forráðamenn fá nánari upplýsingar um skíðadaginn í næstu viku og verður þá einnig gengið frá skráningu á lánsbúnaði fyrir nemendur í 4. – 10. bekk.

Vegleg bókagjöf frá foreldrafélaginu okkar

Í vikunni fengum við óvænta heimsókn frá fulltrúum í stjórn foreldrafélags skólans þar sem þeir færðu skólanum veglega bókagjöf.

Aðgangur að fjölbreyttu og góðu úrvali bóka er dýrmætur í öllu skólastarfi og eykur líkur á að okkur takist að auka áhuga nemenda okkar á bóklestri.

Við þökkum foreldrafélaginu innilega fyrir góða og nytsama gjöf og vonum að nemenedur okkar nýti bækurnar sem mest og best!

Skólaval – opið hús í Oddeyrarskóla

Samkvæmt skólastefnu og fjölskyldustefnu Akureyrarbæjar stendur foreldrum til boða að velja í hvaða skóla börn þeirra fara. Til að auðvelda val foreldra bjóða grunnskólar bæjarins upp á opið hús nú í febrúar. Til að innrita börnin í grunnskóla þarf að skila inn umsókn á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://akg.esja.com/form/index.php

Í tengslum við skólaval og innritun verður Oddeyrarskóli með opið hús kl. 9-11 miðvikudaginn 13. febrúar.

Vonumst til að sjá sem flesta á opnu húsi!

Góður árshátíðardagur

Á laugardaginn héldum við árshátíð nemenda hér í Oddeyrarskóla. Dagurinn heppnaðist afskaplega vel með frábærum undirbúningi starsfmanna og foreldra.

Sýningar voru þrjár yfir daginn og á milli sýninga stóð foreldrafélagið að vanda fyrir stórglæsilegu kaffihlaðborði. Foreldrar frá öllum nemendum skólans leggja til bakkelsi á hlaðborð. Mæting var góð og þökkum við öllum foreldrum og öðrum gestum fyrir komuna.

Atriði 10. bekkjar er viðamesta atriði árshátíðar að þessu sinni var það Sindri Snær Konráðsson sem leikstýrði þeim við útfæslu á leikgerð kvikmyndarinnar Dirty Dancing. Foreldrafélag skólans styrkir okkur við leikstjórn. Birta Ósk Þórófsdóttir nemandi í 10. bekk annaðist handritsgerð með aðstoð fleiri nemenda bekkjarins auk þess sem hún samdi dansana þjálfaði bekkjarfélaga sína í dönsunum. 

Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn úr atriðum, en nemendur fóru á kostum í leikrænum tilburðum.

Úr atriði 7. bekkjar
Úr þyrnirósaratriði 3. bekkjar