Gleðilegt nýtt ár!

Kæru foreldrar / forráðamenn barna í Oddeyrarskóla!

Um leið og við óskum ykkur öllum gleðilegs árs með þakklæti fyrir samstarfið og samveruna á því gamla minnum við á að skólastarf hefst á ný fimmtudaginn 4. janúar 2018.

Hlökkum til að sjá alla endurnærða eftir langt og gott frí.

Stjórnendur Oddeyrarskóla

Jólafjör í Oddeyrarskóla

Undanfarnir dagar hafa einkennst af ýmsum jólahefðum sem við í Oddeyrarskóla höfum haldið við í fjölmörg ár. Þessar jólahefðir kalla á góða samvinnu nemenda og starfsfólks sem    okkur finnst svo dýrmæt. Þann 1. desember spilum við félagsvist í íþróttasal skólans og svo annaðist 9. bekkurinn kaffihús í boði foreldrafélagsins. Að sjálfsögðu skárum við og steiktum laufabrauð þann sama dag og Hrafnhildur og Marta buðu upp á fínan jólamat. Það er um að gera að njóta aðventunnar, hvort sem er heima eða í skóla. 

Oddeyrarskóli fagnar 60 ára afmæli

Fimmtudaginn 7. desember fagnaði Oddeyrarskóli 60 ára afmæli sínu. Undirbúningur fyrir hátíðahöldin stóðu í alllangan tíma, til dæmis voru smiðjudagar í lok nóvember helgaðir afmælinu.

Afmælisdagurinn sjálfur hófst með hátíð á sal skólans. Þar mættu nemendur, starfsfólk og um 35 boðsgestir. Núverandi skólastjóri, Kristín Jóhannesdóttir og forveri hennar, Helga Hauksdóttir, fluttu ræður. Nemendur sýndu einnig hvað í þeim býr með söng og dansi. Nemendur annars bekkjar sungu gamlan skólasöng Oddeyrarskóla, rappsveitin Blautir sokkar flutti tvö lög, ásamt dansatriði, nemendur á unglingastigi sýndu frumsaminn dans gegn einelti og þrír nemendur unglingastigs röppuðu um skólann. Í lok dagskrár á sal komu þeir Ívar og Ívan Mendez frá Tónlistarskólanum á Akureyri og léku undir fjöldasöng og er óhætt að segja að stemningin var góð. Þeir hafa stýrt söngstundum hjá okkur í vetur er ljóst að sú vinna hefur skilað sér.

Foreldrafélagið gaf skólanum góðar gjafir sem nýtast munu nemendum vel, bæði búnað til daglegrar hreyfingar í skólanum og fatboy púða á bókasafnið. Þá gáfu hinir skólar bæjarins inneign í Eymundsson, sem mun nýtast til bókakaupa í LESTU-hilluna góðu. Við þökkum innilega fyrir góðar gjafir.

Að lokinni dagskrá á sal var boðið upp á afmælisköku. Þá tók við opið hús þar sem fjöldi gesta kom og kynnti sér skólastarfið. Eitt og annað var í boði og má þar nefna að nemendur sýndu afrakstur þemadaga þar sem unnið var með sögu skólans, dans gegn einelti, myndband um skólann og geysiflott líkön sem nemendur gerðu af húsnæði skólans. Þá sýndu nemendur gestum hvernig þeir nýta tæknina til náms og hvaða möguleika hún býður uppá. Gestir fengu til dæmis að búa til eigin tónlist, stýra litlum vélmennum, kóða og taka þátt í just dance. Jafnframt fengu gestir að sjá hvernig nemendur læra á fjölbreyttan hátt, svo sem með byrjendalæsi, samræðum í námi, Zankow stærðfræði, sköpun og svo framvegis.

Fjölmargir gestir heimsóttu skólann og þökkum við öllum innilega fyrir komuna og góðar kveðjur.

Haldið upp á alþjóðlegan baráttudag gegn einelti

Í dag, miðvikudaginn 8. nóvember, héldum við upp á alþjóðlegan baráttudag gegn einelti. Í upphafi dags áttu nemendur og starfsfólk stutta samverustund á sal, þar sem spjallað var um hvernig einkunnarorð skólans styðja baráttu gegn einelti. Nemendur 1. bekkjar fengu húfur að gjöf frà skólanum, en á þeim stendur GEGN EINELTI. Jafnframt fengu 1. bekkingar gúmmíarmbönd með einkunnarorðum skólans og setningunni: Ég legg ekki í einelti. En eldri nemendur skólans fengu slík armbönd á þessum degi fyrir þremur árum.

Allir nemendur fóru svo saman með möntru gegn einelti og að lokum sungum við vinalag Oddeyrarskóla undir dyggum forsöng 6. bekkjar, enda á það mjög vel við á þessum baráttudegi.

Mantran okkar hljóðar svo:

Ég virði ólíka einstaklinga,

ég sýni ábyrgð, virðingu og vináttu

og ég legg ekki í einelti.

Unnið er eftir fræðsluáætlun skólans gegn einelti og fengu nemendur því ýmis konar fræðslu sem hjàlpar okkur í baráttunni.

 

Krakkakosningar á miðstigi

Á þriðjudaginn fóru fram krakkakosningar á miðstigi en krakkakosningar fara nú fram í skólum um allt land. Nemendur horfðu á kynningarmyndbönd á kosningavef Krakkaruv, þar sem frambjóðendur flokkanna sátu fyrir svörum um málefni sem tengjast krökkum.

Kjörklefi var settur upp á miðganginum og var kjörseðlum skilað í viðeigandi kjörkassa þegar krakkarnir höfðu gert upp hug sinn.

Þetta verkefni er í samræmi við ákvæði í Barnasáttmálanum þar sem kemur meðal annars fram að börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið. Með krakkakosningum börnum og ungmennum veitt það tækifæri að láta sínar skoðanir í ljós og velja þann stjórnmálaflokk sem þeim líst best á.

Niðurstöðurnar verða birtar á kosningavöku RÚV á kosningadegi.

Uppfærðar hjólareglur fyrir Oddeyrarskóla

Nú hafa hjólareglur Oddeyrarskóla verið endurskoðaðar og uppfærðar með þeirri breytingu að nemendum er heimilt að nota hjólabretti, línuskauta og hlaupahjól á afmörkuðu svæði á skólalóðinni í frímínútum:

Hjólareglur Oddeyrarskóla

  1. Nemendur mega koma á hjóli í skólann frá sjö ára aldri samkvæmt landslögum.
  2. Nemandi sem kemur á hjóli í skólann gerir það á ábyrgð foreldra / forráðamanna sem skulu meta færni og getu barnsins sem og aðstæður til að hjóla í skólann.
  3. Þegar komið er á hjóli í skólann á að geyma það læst á skólalóðinni í eða við hjólagrindur.
  4. Nota skal viðeigandi öryggisbúnað.
  5. Ekki má nota reiðhjól eða vélknúin ökutæki, s.s. vespur, á skólalóðinni meðan skóla- og frístundarstarfi stendur.
  6. Heimilt er að vera á hlaupahjóli, hjólabretti og línuskautum á malbikaða fótboltavellinum sunnan við skólann í frímínútum. Nauðsynlegt að vera með hjálm.
  7. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólum, hjólabrettum eða öðrum leikföngum sem nemendur koma með í skólann. Þjófnað eða skemmdarverk má tilkynna til lögreglu.

Jafnframt bendum við á einblöðung frá Samgöngustofu þar sem sjá má reglur sem gilda um létt bifhjól.

Aðalfundur foreldrafélagsins

Aðalfundur Foreldrafélags Oddeyrarskóla verður haldin fimmtudaginn 5. október næstkomandi í sal skólans. Fundurinn byrjar kl 20:00 stundvíslega og við hvetjum alla foreldra/forráðamenn til þess að mæta.

Á fundinum tekur ný stjórn tekur til starfa, farið verður yfir starf síðasta vetrar og við spáum aðeins í framhaldið, efnahagsreikningar lagðir fram til samþykkis og ýmislegt fleira.

Endilega mætið sem flest – hlökkum til að sjá ykkur.
Stjórnin

Nemendur Oddeyrarskóla tóku þátt í Norræna skólahlaupinu

Þriðjudaginn 19. september tóku nemendur Oddeyrarskóla þátt í Norræna skólahlaupinu. Skólinn leggur sig fram um að taka þátt í ýmsum hreyfi- og heilsutengdum viðburðum þar sem við erum heilsueflandi grunnskóli og með því hvetjum við nemendur okkar til hreyfingar og útivistar. Veðrið lék við okkur þennan dag og voru nemendur skólans virkilega duglegir að hlaupa.

Að hlaupi loknu bauð skólinn upp á ávexti og grænmeti til að gleðja mannskapinn enn frekar.

Norræna skólahlaupið fór fyrst fram á Íslandi árið 1984, en allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti. Með Norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Hér eru nánari upplýsinar af vef ÍSÍ um Norræna skólahlaupið.