Sannar gjafir fyrir 93 þúsund í kjölfar góðverkaviku

sannar gjafir unicefEins og áður hefur komið fram var haldin góðverkavika í Oddeyrarskóla dagana fyrir páska. Unnið var með nærsamfélaginu, nemendur gerðu góðverk hjá einstaklingum og fyrirtæknum og skoruðu um leið á aðra að gera góðverk með því að láta fé af hendi rakna til Unicef.

Nú hefur verkefnið verið að fullu gert upp og söfnuðust í heildina 93 þúsund krónur sem hafa verið nýttar til kaupa á sönnum gjöfum Unicef.

Við þökkum Útgerðarfélagi Akureyringa, Rafeyri, Nýju kaffibrennslunni og Ljósgjafanum innilega fyrir að taka þátt í þessu verkefni með okkur, sem og þeim einstaklingum á Eyrinni sem lögðu verkefninu lið.

Nemendur heimsóttu N4 – umbun í 100 miða leik

SMT umbun SMT umbun2Fyrir nokkru var 100 miða leikurinn haldinn hér í Oddeyrarskóla, en hann er hluti af SMT starfinu okkar. Leikurinn gengur út á að 100 nemendur skólans fá stjörnur fyrir að fylgja einkunnarorðum skólans, ábyrgð, virðing og vinátta. Þessir nemendur draga númer á bilinu 1-100 og staðsetja sig á 100 töflunni. Að leik loknum er ein röðin í 100 töflunni dregin út og voru það nemendurnir sem höfðu fengið töluna 3 sem voru dregnir út að þessu sinni (3-13-23 o.s.frv.).

Í dag var umbunardagur fyrir þennan hóp og fólst umbunin í að heimsækja N4 sem eru flutt í Linduhúsið á Eyrinni. Þar tók Herdís Helgadóttir dagskrárgerðarmaður á móti okkur og kynnti vinnustaðinn fyrir okkur. Við þökkum Herdísi og N4 kærlega fyrir góðar mótttökur og áhugaverða fræðslu.

Að þeirri heimsókn lokinni skunduðum við á neðstu hæðina þar sem Axelsbakarí er til húsa og gæddum okkur á kruðeríi.

Góðverkavika nemenda Oddeyrarskóla: góðverk í nærumhverfi og safnað fyrir sönnum gjöfum Unicef

sannar gjafir_góðverkavika sannar gjafir_góðverkavika2Vikuna 3. – 7. apríl 2017 var haldin góðverkavika í Oddeyrarskóla í annað sinn. Að þessu sinni höfðum við mikinn hug á að vinna með nærsamfélaginu, gera góðverk hjá einstaklingum og fyrirtæknum og skora um leið á aðra að gera góðverk með því að láta fé af hendi rakna til Unicef.

Nemendur unnu ýmis góðverk, s.s. að syngja og dansa fyrir eldri borgara á Hlíð, gefa íbúum í hverfinu fjölnota innkaupapoka sem nemendur saumuðu auk þess að færa íbúum fallegar orðsendingar og hjörtu með hlýjum kveðjum. Jafnframt komu nemendur í þau fyrirtæki og til þeirra einstaklinga sem tóku áskorun okkar og hjálpuðu til með ýmsum hætti.

Nú þegar hafa safnast 43.000 krónur á reikning nemendafélagsins. Þessum peningum höfum við nú ráðstafað til að kaupa á sjö ofurhetjupökkum  og 20 lítra af næringarmjólk handa börnum sem þurfa á þessu að halda.

Við erum glöð og stolt af því að vinna með nærumhverfinu og geta gefið af okkur og glatt aðra, enda eru einkunnarorðin okkar ÁBYRGÐ, VIRÐING og VINÁTTA.

Lokahátíð litlu upplestrarkeppninnar haldin í 4. bekk

Litla upplestrarkeppnin_2Hjá okkur er orðin hefð fyrir því að 4. bekkur taki þátt í Litlu upplestrarkeppninni. Lokahátíð hennar fór fram í dag og var foreldrum boðið til hátíðarinnar. Þar fluttu nemendur íslenskt efni, þar sem þeir ýmist lásu einir eða í minni eða stærri talkórum. Einnig söngu hópurinn eitt fallegt íslenskt lag, Ég er kominn heim. Að söng og lestri loknum gættu nemendur og gestir sér á veitingum sem bornar voru á borð.

Það er einstaklega gaman að sjá hvað hægt er að gera með nemendum þegar kemur að upplestri og framsögn og ljóst er að æfingin skapar meistarann. Þessir krakkar hafa lagt allt kapp á æfingar síðustu daga og vikur og skilaði það sér svo sannarlega í góðum flutningi.

Starfsmenn ÍSÍ færa Oddeyrarskóla verðlaun fyrir árangur í Lífshlaupinu 2017

Lífshlaupið_verðlaunÍ síðustu viku komu tveir vaskir menn frá ÍSÍ, þeir Ingi Þór Ágústsson og Viðar Sigurjónsson, færandi hendi þegar þeir afhentu starfsfólki Oddeyrarskóla þrjá verðlaunaplatta fyrir árangur í Lífshlaupinu.

Stærsti plattinn var fyrir árangur nemenda Oddeyrarskóla í Lífshlaupinu. Nemendur voru með hæsta hlutfall hreyfidaga fyrir skóla með 90-299 nemendur. Nemendur hreyfðu sig 8,98 daga að jafnaði og var þátttökuhlutfall þeirra 98%. Algjörlega frábær frammistaða hjá nemendum Oddeyrarskóla sem eru að taka þátt í lífshlaupinu í fyrsta sinn!

Tveir minni plattarnir voru fyrir frammistöðu starsfmanna í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins, en starfsmenn hlutu 2. sæti fyrir hlutfall hreyfidaga og 3. sætið fyrir hlutfall hreyfimínútna. Virkilega góð frammistaða hjá starfsfólki skólans og að sjálfsögðu er stefnt að sigri á næsta ári!

Á sama tíma færðu þeir félagar nemendum 1. bekkjar kókómjólk sem þeir sigruðu í útdráttarleik lífshlaupsins.

Nemendur 1. bekkjar fá gefins húfur og armbönd sem minna á að við leggjum ekki í einelti

hufur_gegn einelti gegn einelti_húfurAð undanförnu hafa nemendur í 1. bekk verið að lesa og vinna með efni bókarinnar og myndarinnar Litla lirfan ljóta eftir Friðrik Erlingsson. Af þeirri fallegu sögu má læra margt, t.d. að dæma ekki aðra af útlitinu og að maður eigi ekki að leggja aðra í einelti. Krakkarnir í 1. bekk voru alveg með það á hreinu hver boðskapur sögunnar er.

Því þótti vel við hæfi að nota þetta tækifæri til að gefa börnunum í 1. bekk húfur frá skólanum sem þær Linda Óladóttir og Hafdís Bjarnadóttir, kennarar við skólann, prjónuðu af stakri snilld. Húfurnar eru allar ólíkar, í ólíkum litum og með ólík mynstur til marks um það að við erum öll ólík og hver og einn er einstakur. Á öllum húfunum stendur GEGN EINELTI. Við þökkum Hafdísi og Lindu innilega fyrir frábært framtak!

Um leið fengu nemendur bekkjarins afhent armbönd frá skólanum, eins og eldri nemendur hafa nú þegar fengið. Á armböndunum eru rituð einkunnarorð skólans, ÁBYRGÐ-VIRÐING-VINÁTTA og staðhæfingin „Ég legg ekki í einelti“. Nemendur eru hvattir til að bera armböndin til að minna sig og aðra á að viðhafa alltaf falleg samskipti.

Það er von okkar að þessir frábæru krakkar í 1. bekk og allir aðrir nemendur skólans muni ávallt eftir því að allir eru einstakir og að við virðum ólíka einstaklinga.