Þar sem spáð er töluverðum vindhraða i nótt og á morgun, ásamt því að gul viðvörun er í gildi, vekjum við athygli forráðamanna á verklagsreglum sviðstjóra fræðslusviðs vegna óveðurs eða ófærðar.

Verklagsreglurnar má finna hér.

Úr verklagsreglum:

Ef veður eða færð er með þeim hætti að morgni að lögregla mælir með því að skólahald verði fellt niður, er brugðist við því. Þá fellur niður allt formlegt skólahald í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar, samkvæmt tilmælum lögreglu.

Sviðsstjóri fræðslusviðs er í slíkum tilvikum í sambandi við lögreglu að morgni og kemur tilkynningu í RÚV og Bylgjuna um að kennsla sé felld niður í leik- og grunnskólum á Akureyri. Er þá gert ráð fyrir því að fyrsta tilkynning sé birt kl. 7.00 að morgni.

Ábyrgð foreldra
Almennt þegar vond vetrarveður ganga yfir verða foreldrar ávallt að meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann ef ekki hefur komið tilkynning frá lögreglu um að skólahald skuli falla niður. Í hverjum skóla er alltaf einhver hluti starfsmanna mættur til að taka á móti þeim börnum sem kunna að mæta, ef upplýsingar um lokun að tilmælum lögreglu hafa ekki náð til foreldra að morgni. Sé barn heima vegna veðurs eða ófærðar þarf að tilkynna það í sms/síma eða með tölvupósti.

Ábyrgð skólayfirvalda
Af öryggisástæðum er hver skóli ábyrgur fyrir því að stjórnandi/starfsmaður sé kominn í skólann að morgni fyrir skólabyrjun ef vera skyldi að einhverjir mættu. Þeir eru þá upplýstir um að skólahald falli niður og nemendur/leikskólabörn skuli vera heima. Tryggja skal öryggi ungra grunnskólabarna, að þau séu ekki send ein heim aftur heldur tryggt að ábyrgðaraðili sæki. Af öryggisástæðum verða einhverjir að vera í húsi til kl. 10:00.

 

Alda Karen Hjaltalín með fyrirlestur

Í dag kom Alda Karen Hjaltalín, fyrrverandi nemandi í Oddeyrarskóla til okkar og hélt fyrirlestur fyrir nemendur í 8. -10. bekk.  Hún var með ráð til unglinganna um það hvernig þeir geti haft áhrif á líf sitt og tekist á við hugsanir sínar. Hún benti þeim m.a. á að þeir þyrftu að vera sínir eigin bestu vinir og að þeir séu nóg eins og þeir eru núna á þessari stundu. Í lokin fengu nokkrir nemendur að prófa sýndarveruleikagleraugu.  

Eftir hádegi mætti Alda Karen síðan á starfsmannafund og sagði frá því sem hún er að fást við.  

Við þökkum Öldu Karen kærlega fyrir heimsóknina – alltaf gaman þegar fyrrverandi nemendur sýna okkur ræktarsemi.

    

PMTO foreldranámskeið í janúar

Flest börn sýna erfiða hegðun á einhverjum tímapunkti, en oftast gengur það tímabil yfir. Þegar svo er ekki þurfa foreldrar oft á tíðum aðstoð, einkum þegar samskipti barnsins innan fjölskyldunnar, í skólanum eða annars staðar í umhverfinu eru orðin neikvæð. Í PMTO styðjandi foreldrafærni er lögð áhersla á vinnu með foreldrum þar sem þeir eru mikilvægustu kennarar barna sinna.

PMTO þjónusta er í boði fyrir fjölskyldur og fagfólk á Akureyri. Einstaklingsmeðferð fyrir foreldra er veitt með reglubundnum hætti á skrifstofu meðferðaraðila. Meðferðaraðili kemur á heimili ef um sérstakar aðstæður er að ræða og ef óskað er eftir því sérstaklega.

Til að komast á PMTO foreldranámskeið geta foreldra óskað eftir því að skóli barnsins eða félagsráðgjafar á fjölskyldudeild hafi milligöngu með umsókn eða haft samband við verkefnastjóra PMTO á skóladeild Akureyrar í síma 460 1455.

Upplýsingaplagg um PMTO á Akureyri

Lesum meira

Læsi barna er samvinnuverkefni. Mikilvægt er að öll börn fái tækifæri til að eiga daglega lestrarstund til loka grunnskóla. Foreldrar og aðstandendur verða að vera virkir í læsisuppeldi barna sinna og fylgjast með framvindu og árangri í lestrarfærni. 15 mínútur á dag geta gert gæfumuninn til að viðhalda lestrarfærni. Eigum við ekki öll korter til að hlusta á börnin okkar lesa?

Heimasíða Lesum meira verkefnisins.

 

Námsgögn

Nemendur þurfa ekki að kaupa nein námsgögn til að nota í skólanum. Allir nemendur skólans fá þau námsgögn sem nota þarf s.s. skriffæri, liti, stílabækur og möppur. Það eina sem nemendur þurfa að hafa með sér er skólataska og íþróttafatnaður.

Valgreinar fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk

Nú er komið að því að nemendur velji sér valgreinar fyrir næsta vetur.  Nemendur í 8. bekk verða í tveimur valgreinum og nemendur í 9. og 10. bekk í fjórum valgreinum.  Auk þess geta nemendur valið sér list – og verkgrein. Nemendur fengu kynningu á valgreinunum fyrir helgi og foreldrar hafa fengið tengla inn á valblöðin en núna fer valið fram í fyrsta skipti með rafrænum hætti.  Nemendur þurfa að vera búnir að velja föstudaginn 11. maí. Hér fyrir neðan má nálgast upplýsingabækling um valgreinarnar.

Valgreinabæklingur