UNICEF hlaupið

Kæru nemendur Oddeyrarskóla, hér eru stutt skilaboð frá UNICEF hreyfingunni:

Takk kærlega fyrir samstarfið í ár! í heildina söfnuðu börn í Oddeyrarskóla 181.626 krónum! Það er virkilega vel gert! Þetta mun nýtast UNICEF víðsvegar um heiminn í þeim tilgangi að uppfylla grundvallarmannréttindi barna. 


Með þessari upphæð verður til dæmis hægt að

  • Kaupa 282.000 vatnshreinsitöflur, en með þeim er hægt að hreinsa yfir 1.4 milljón lítra af ódrykkjarhæfu vatni og gera öruggt til þess að drekka eða nota í matargerð og fl. 
  • Kaupa yfir 8.000 skammta af bóluefni gegn mænusótt
  • Kaupa yfir 3.352 skammta af vítamínbættu jarðhnetumauki, nóg til þess að veita a.m.k. tólf lífshættulega vannærðum börnum þrjá mánuði af allri þeirri næringu sem þau þurfa til þess að ná heilbrigðri þyngd. 

Skólaslit Oddeyrarskóla

Oddeyrarskóla verður slitið á morgun, þriðjudaginn 4. júní 2019.

Skólaslit 1. – 7. bekkjar verða á sal kl. 13:00 og eru allir foreldrar velkomnir.

Skólaslit 8. -10. bekkjar og útskrift 10. bekkjar nema verður á sal kl. 17:00.

Að þeirri athöfn lokinni er nemendum 10. bekkjar og fjölskyldum þeirra boðið í kaffi með starfsfólki skólans.

Viðurkenning fræðsluráðs

Á hverju ári veitir fræðsluráð viðurkenningar til nemenda og starfsfólks skóla fyrir framúrskarandi vinnu við nám og félagsstörf eða frumkvöðlastarf á sínu sviði. Að þessu sinni fengu tveir nemendur Oddeyrarskóla viðurkenningar, þær Oliwia Moranska í 9. bekk og Birta Ósk Þórólfsdóttir í 10. bekk. Birta var á skólaferðalagi þegar afhending fór fram en foreldrar hennar tóku við viðurkenningunni. Við óskum þeim báðum hjartanlega til hamingju.

Skólaleikarnir 2019

Úrslitakeppni Skólaleikanna var haldin í Síðuskóla síðasta föstudag. Þar öttu kappi nemendur úr grunnskólum Akureyrar í hinum ýmsu tölvuleikjum. Oliwia Moranska úr Oddeyrarskóla gerði sér lítið fyrir og sigraði í T-Rex runner með yfirburðum. Hún náði 39.199 stigum sem er rúmlega þrefallt fleiri stig en næsti keppandi náði, ótrúlegur árangur.

Einnig náðu þeir Jóhannes Ísfjörð Jónsson og Ólafur Helgi Erlendsson góðum árangri í FIFA19 og enduðu í 2. sæti í keppninni. Óskar Óðinn Sigtryggsson og Steinar Bragi Laxdal Steinarsson náðu 3.-4. sæti NBA2K19 og Róbert Alexander Geirsson og Óli Þór Hauksson urðu í 5. sæti í Rocket League. Glæsilegur árangur hjá okkar krökkum.

Oliwia Moranska T-Rex runner meistari Akureyrar
Jóhannes og Ólafur Helgi, FIFA19 meistarar Oddeyrarskóla
(Away) Óskar og Steinar, NBA2K19 meistarar Oddeyrarskóla
Óli og Róbert, Rocket League meistarar Oddeyrarskóla

UNICEF-hreyfingin

Í gær tóku nemendur Oddeyrarskóla þátt í UNICEF- hreyfingunni. En í mörg undanfarin ár hafa nemendur tekið þátt í áheitahlaupi til stryktar UNICEF. Hlaupið var í logni og blíðu eins og þessar myndir bera með sér. Markmiðið með UNICEF hreyfingunni er að fræða börn um réttindi í Barnasáttmálanum og virkja þau til samstöðu með jafnöldurum sínum um allan heim.

SKÓLALEIKUR

Hvað er „skólaleikur“.

Haustið 2017 stóð Akureyrabær í fyrsta sinn fyrir „skólaleik“. Um er að ræða tveggja vikna aðlögunartímabil leikskólanemenda að grunnskólanum sínum. Þar sem nemendur eru í flestum tilvikum að koma úr fleiri en einum leikskólum bæjarins er lögð megináhersla á að börnin kynnist innbyrðis ásamt því að þau kynnist skólahúsnæðinu, matsalnum, frístundinni, útisvæðinu o.fl.

„Skólaleikur“ er starfræktur í tvær vikur og hefst á þriðjudegi eftir verslunarmannahelgi. Opnunartíminn er frá kl. 7.45 – 16.15 og býðst foreldrum að velja um tvö tímabil frá 12. – 19. ágúst (6 dagar) eða alla 10 dagana þ.e. 6. – 19. ágúst að báðum dögum meðtöldum.

Gert er ráð fyrir að börnin ljúki leikskólagöngu sinni um sumarlokun leikskóla og  stendur til boða að hefja „skólaleik“ í grunnskólanum sínum þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi*. Þeir foreldrar sem þurfa nauðsynlega á leikskóla að halda að loknu sumarleyfi leikskólans og fram að „skólaleik“, eru beðnir að snúa sér til skólastjóra leikskólans með óskir sínar.

Gjaldskrá fyrir „skólaleik“ er hin sama og í leikskóla og eru gjöldin innheimt með sambærilegum hætti og leikskólagjöld.

Sótt er um „skólaleik“ í íbúagátt Akureyrarbæjar á síðunni https://www.akureyri.is/

Vinsamlega athugið að eftir sem áður þurfa þeir foreldrar sem óska eftir frístund fyrir börn sín yfir vetrartímann, að sækja um það sérstaklega á umsóknareyðublaði fyrir grunnskóla.

*Verslunarmannahelgi er fyrsta helgi ágústmánaðar. Mánudagurinn eftir verslunarmannahelgi er almennur frídagur.

Valgreinar 2019-2020

Nú ættu allir foreldrar barna í 7. – 9. bekkjar að hafa fengið tölvupóst þar sem óskað er eftir að nemendur velji sér valgreinar fyrir næsta vetur. Nánari upplýsingar um það sem er í boði má finna hér.

Hjólareglur Oddeyrarskóla

Nú er vor í lofti og upplagt að rifja upp hjólareglur skólans:

  1. Nemendur mega koma á hjóli í skólann frá sjö ára aldri samkvæmt landslögum.
  2. Nemandi sem kemur á hjóli í skólann gerir það á ábyrgð foreldra / forráðamanna sem skulu meta færni og getu barnsins sem og aðstæður til að hjóla í skólann.
  3. Þegar komið er á hjóli í skólann á að geyma það læst á skólalóðinni í eða við hjólagrindur.
  4. Nota skal viðeigandi öryggisbúnað.
  5. Ekki má nota reiðhjól eða vélknúin ökutæki, s.s. vespur, á skólalóðinni meðan skóla- og frístundarstarfi stendur.
  6. Heimilt er að vera á hlaupahjóli, hjólabretti og línuskautum á malbikaða fótboltavellinum sunnan við skólann í frímínútum. Nauðsynlegt að vera með hjálm.
  7. Skólinn ber enga ábyrgð á hjólum, hjólabrettum eða öðrum leikföngum sem nemendur koma með í skólann. Þjófnað eða skemmdarverk má tilkynna til lögreglu.

Jafnframt bendum við á einblöðung frá Samgöngustofu þar sem sjá má reglur sem gilda um létt bifhjól.