Frábær námstækifæri með Erasmus+

Nú á vormánuðum hafa 10 kennarar úr Oddeyrarskóla farið í námsferðir / skólaheimsóknir sem fjármagnaðar hafa verið með tveggja ára Erasmus styrk sem sótt var um á vordögum 2017.

Sjö kennarar af yngsta stigi skólans fóru til Noregs og heimsóttu skóla í nágrenni við Osló þar sem þeir kynntu sér hugmyndafræði í stærðfræðikennslu sem við erum að þróa í skólanum undir leiðsögn Þóru Rósu Geirsdóttur ráðgjafa hjá MSHA. Í daglegu tali köllum við þessa stærðfræði Zankov – stærðfræðina, en upphaflega kemur hugmyndafræðin frá Rússlandi og byggir á hugmyndafræði Zankov. Þessi hugmyndafræði í kennslu hefur verið að ryðja sér til rúms í skólum víðs vegar um Noreg (undir heitinu utviklende matematikk) og eru þrír skólar að vinna að þróun kennsluhátta í þessa veru á Íslandi og er árangur rannsakaður samhliða því. Við erum nú að ljúka öðru ári í innleiðingunni, en kennslan byggir mikið á samræðum og vinnu með skilning nemenda á stærðfræðihugtökum.

Þrír af þeim kennurum sem starfa í heilsueflingarnefnd skólans brugðu sér til Glasgow í Skotlandi heimsóttu Dr. John Paul Fitzpatrick kennsluráðgjafa, sem styður m.a. við skóla sem eru að innleiða hugmyndafræði hugarfars vaxtar eða Growth mindset. Kennararnir heimsóttu tvo skóla sem John Paul hefur verið að styðja við og var margt gagnlegt skoðað og rætt í þeirri ferð. Heilsueflingarnefnd skólans hefur verið að kynna sér þessa hugmyndafræði í vetur í tengslum við geðræktarþátt heilsueflandi grunnskóla og er ætlunin að unnið sé með hugarfar vaxtar að einhverju marki í öllum bekkjum skólans til að auka vilja og þrautseigju nemenda til náms og trú þeirra á eigin getu. Foreldrar hafa flestir fengið kynningu á hugmyndafræðinni, enda er orðræða foreldra og starfsfólks skóla mikilvæg þegar kemur að því að vinna með hugarfar nemenda gagnvart getu og vilja til náms. Við að fara í skólaheimsóknir lærist að auki margt annað sem kennarar geta nýtt sér og búa að í starfinu sínu.

Við erum afar þakklát Rannís og Erasmus+ fyrir að fá tækifæri sem þessi til starfsþróunar, því við vitum að þetta eflir okkur sem fagmenn og gerir skólastarfið okkar enn betra.  

Síðast uppfært 14.05 2019