Fyrirlestur fyrir foreldra um kynlíf og klám

Forvarna- og félagsmálafulltrúar á Akureyri bjóða foreldrum á fyrirlestur um kynlíf og klám:

Hvernig á ég að ræða við unglinginn minn um kynlíf?
Þriðjudaginn 30. janúar kl. 20 í Síðuskóla bjóða forvarna- og félagsmálafulltrúar á Akureyri foreldrum á fyrirlestur um kynlíf og klám með Siggu Dögg www.siggadogg.is

Sigga Dögg er kynfræðingur og hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarin misseri þar sem hún fjallar á opinskáan hátt um allt sem að við kemur kynlífi.

 

Akureyrarbær leggur mikla áherslu á að vera í fararbroddi í forvarnarfræðslu og taka á þeim málum sem þurfa þykir hverju sinni.
Í því upplýsingasamfélagi sem við lifum í gegna ólíkir miðlar sífellt stærra uppeldishlutverki í lífi barna og unglinga. Kynfræðsla er ekki lengur einungis bundin við þá fræðslu sem skóli og foreldrar veita, heldur hefur hún í auknum mæli færst yfir til fjölmiðla. Markaðssetning á kynlífi sem er ætlað að höfða til barna og unglinga hefur aukist mjög á síðustu árum, til dæmis á netinu, í tónlistarmyndböndum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.
Börn og unglingar fá mörg misvísandi skilaboð um kynlíf úr fjölmiðlum sem leitt geta til ranghugmynda um það hvað telst vera eðlilegt kynlíf. Þessi þróun undirstrikar mikilvægi uppeldishlutverks foreldra og að þeir leggi grunn að gildismati barna sinna á þessu sviði. Börn og foreldrar þurfa að ræða saman um kynlíf, eins og hvern annan málaflokk. Skoðanir og gildi foreldra gagnvart kynlífi eru börnum og unglingum nauðsynlegt mótvægi við þeim misvísandi og villandi upplýsingum sem þau hafa greiðan aðgang að.

Kynlíf er eðlilegur hluti af lífinu. Kynfræðsla fyrir börn og unglinga gerir þeim betur kleift að takast á við eigin tilfinningar og taka ákvarðanir sem stuðla að eigin kynheilbrigði. Með góðri fræðslu eru unglingar betur undir það búnir að takast á við þann félagslega þrýsting sem er í umhverfinu og þeir eru líklegri til að geta myndað gott og heilbrigt ástarsamband í framtíðinni. Þekking á kynlífi getur hjálpað þeim að vernda sig gegn kynferðislegri misnotkun og fyrir því að misnota aðra.

Eðlilegt að fjölskyldan ræði um kynlíf.
Fjölskyldan er ein sterkasta fyrirmynd barna og unglinga. Frá unga aldri hafa foreldrar samskipti við börn sín og miðla þekkingu til þeirra með beinum og óbeinum hætti. Umræða um kynlíf og allt sem því viðkemur er mikilvæg á öllum heimilum.

Opin og góð umræða um kynlíf á heimilinu skilar sér m.a. í því að:
– börn byrja seinna en ella að stunda kynlíf og eru ábyrgari þegar þau byrja
– minni líkur eru á að þau sjái eftir því að hafa stundað kynlíf
– minni líkur eru á ótímabærum þungunum og ofbeldi
– minni líkur eru á kynsjúkdómum

Kynfræðsla og opinská umræða um kynlíf skilar sér því í aukinni þekkingu og meðvitaðri ákvörðunartöku ungs fólks um kynlíf.

Síðast uppfært 29.01 2018