Nemendur 1. bekkjar fá gefins húfur og armbönd sem minna á að við leggjum ekki í einelti

hufur_gegn einelti gegn einelti_húfurAð undanförnu hafa nemendur í 1. bekk verið að lesa og vinna með efni bókarinnar og myndarinnar Litla lirfan ljóta eftir Friðrik Erlingsson. Af þeirri fallegu sögu má læra margt, t.d. að dæma ekki aðra af útlitinu og að maður eigi ekki að leggja aðra í einelti. Krakkarnir í 1. bekk voru alveg með það á hreinu hver boðskapur sögunnar er.

Því þótti vel við hæfi að nota þetta tækifæri til að gefa börnunum í 1. bekk húfur frá skólanum sem þær Linda Óladóttir og Hafdís Bjarnadóttir, kennarar við skólann, prjónuðu af stakri snilld. Húfurnar eru allar ólíkar, í ólíkum litum og með ólík mynstur til marks um það að við erum öll ólík og hver og einn er einstakur. Á öllum húfunum stendur GEGN EINELTI. Við þökkum Hafdísi og Lindu innilega fyrir frábært framtak!

Um leið fengu nemendur bekkjarins afhent armbönd frá skólanum, eins og eldri nemendur hafa nú þegar fengið. Á armböndunum eru rituð einkunnarorð skólans, ÁBYRGÐ-VIRÐING-VINÁTTA og staðhæfingin „Ég legg ekki í einelti“. Nemendur eru hvattir til að bera armböndin til að minna sig og aðra á að viðhafa alltaf falleg samskipti.

Það er von okkar að þessir frábæru krakkar í 1. bekk og allir aðrir nemendur skólans muni ávallt eftir því að allir eru einstakir og að við virðum ólíka einstaklinga.

Síðast uppfært 20.03 2017