Viðurkenningar skólanefndar í Hofi 1. júní 2016

FullSizeRenderSíðdegis í dag fór fram samkoma í Hofi þar sem veittar voru viðurkenningar skólanefndar. Árlega eru veittar viðurkenningar til nemenda sem hafa á einhvern hátt skarað fram úr í skólum bæjarins og einnig eru veittar viðurkenningar fyrir verkefni eða starfshætti í leik- og grunnskólum Akureyrar. Við í Oddeyrarskóla áttum þrjá fulltrúa í dag sem við erum afar stolt af.

Fyrstan ber að nefna Steinar Braga Laxdal nemanda í 7. bekk. Hann hlaut viðurkenningu fyrir gríðarlegar framfarir í námi. Steinar er jákvæður og eljusamur, hann er hjálpsamur, réttsýnn og á auðvelt með að finna lausnir.

Kennararnir Ragnheiður Ásta Einarsdóttir og J. Freydís Þorvaldsdóttir hlutu einnig viðurkenningu skólanefndar fyrir framúrskarandi starfshætti í anda skóla án aðgreiningar.

Þetta er það sem um þær var sagt:

Freydís og Ragnheiður Ásta hafa um nokkurra ára skeið kennt saman í teymi, ýmist tvær eða með aðkomu fleiri kennara. Þær hafa samkennt árgöngum á yngsta stigi með góðum árangri. Þær hafa verið verið í stöðugri þróun í námi og kennslu. Þær hafa verið leiðandi í byrjendalæsi og hafa þróað mér sér starfshætti þar sem þær leitast við að tryggja betri árangur hvers og eins.

Undanfarin tvö ár hafa þær stöllur þróað nýja kennsluhætti í stærðfræði í samstarfi við sérfræðing hjá miðstöð skólaþróunar. Þessi kennsluaðferð miðar að því að auka hugtakaskilning nemenda í stærðfræði, m.a. með því að auka samræður um stærðfræðileg efni.

Freydís og Ragnheiður Ásta hafa af alúð útbúið námsgögn til að fylgja námi nemenda betur eftir og tryggja að hver og einn fái þá þjálfun sem hann þarf. Af einstakri alúð sinna þessir kennarar öllum nemendum hverjar sem þarfir þeirra eru. Þær eru óþreytandi í leit sinni að leiðum til að mæta þörfum nemenda, sama hverjar þær eru. Færni þeirra í námsaðlögun er óumdeild, hvort sem um ræðir skipulag fyrir nemendur með sérþarfir, nálgun þeirra í kennslu eða væntingar þeirra til árangurs fyrir alla nemendur.

Við óskum þeim Steinari, Freydísi og Ragnheiði Ástu innilega til hamingju með viðurkenningarnar.

Síðast uppfært 01.06 2016