Óveður

veðurÞegar veður eru válynd er reglan sú að  foreldrar meta hvort þeir treysta börnunum til að fara í eða úr skóla. Starfsfólk er til taks í skólanum en skóla er ekki aflýst nema í allra verstu veðrum, og er það þá gert með auglýsingu í útvarpi fyrir alla grunnskóla Akureyrarbæjar.
Ef foreldrar meta það svo að þeir treysti sér ekki til að senda barnið i skólann vegna veðurs eru þeir beðnir um að tilkynna það í síma 460-9550 eða með tölvupósti á netfangið oddeyrarskoli@akureyri.is og barnið verður þá skráð í leyfi.

Tengja nóvembermánaðar

connectingNú er Tengjan okkar, fréttabréf nóvembermánaðar, komin á heimasíðuna. Tengjunni er fyrst og fremst ætlað að miðla upplýsingum úr skólastarfinu til foreldra og annarra aðila skólasamfélagsins, en hún gegnir einnig því hlutverki að varðveita sögu skólans. Við hvetjum alla foreldra/forráðamenn að kynna sér efni hennar. Eldri Tengjur má finna undir flipanum Tengja hér fyrir ofan.

Ýmis góð ráð varðandi heimalestur

lesturMjög mikilvægt er að gefa lestrarnámi barna athygli og tíma heima fyrir. Það hvetur barnið til dáða og stuðlar að auknum framförum. Hér eru ýmis góð ráð varðandi heimalestur:

 • Ávallt að gefa sér góðan tíma
 • Mikilvægt er að skapa jákvætt og gott andrúmsloft
 • Lestrarstund er gæðastund með barninu þínu
 • Byrja á að leyfa barninu að skoða bókina, jafnvel alla bókina í rólegheitum
 • Gott er að byrja með 10-15 mínútum en lengja það svo smám saman
 • Gott er að barnið lesi fyrst í hljóði og lesi síðan upphátt fyrir foreldri eða eldri systkini
  • Sumum börnum finnst gott að fá að æfa sig fyrst að lesa upphátt í einrúmi og lesa síðan fyrir aðra
 • Barnið velur sér eina blaðsíðu til þess að lesa aftur þannig að það „heyri“ árangurinn, þá er jafnvel hægt að taka tímann með skeiðklukku til að árangur/framfarir verði sýnilegri. Lesturinn verður hraðari og áreynsluminni þegar lesið er í annað sinn
  • Oft koma þó sömu orð fyrir aftur og aftur í textanum og því óþarfi að lesa sömu blaðsíðu mörgum sinnum, það getur valdið leiða og dregið úr spenningi við að halda áfram
 • Barnið les aftur erfið eða löng orð
 • Barn og fullorðinn lesa til skiptis, til dæmis frá punkti til punktar (punktalestur)
 • Barn og fullorðinn lesa saman (fara hægt yfir orð og texta, fingur undir því sem lesið er)
 • Mikilvægt er að útskýra erfið orð (þá eykst skilningur og áhugi á að lesa áfram)
 • Fullorðinn les hægt fyrir barnið og það fylgist með textanum

Þorgrímur Þráinsson heimsótti nemendur í 8. – 10. bekk

Hjálp_Þorgrímur ÞráinssonÍ dag, mánudaginn 24. nóvember kom Þorgrímur Þráinsson í heimsókn í Oddeyrarskóla. Hann las fyrir nemendur í 8. – 10. bekk úr nýju bókinni sinni, Hjálp. Bókin virðist virkilega spennandi og vakti hún áhuga nemenda sem spurðu Þorgrím spjörunum úr að loknum lestri. Þorgrímur sagði þeim meðal annars frá því hvernig hann undirbjó bókarskrifin, t.d. með því að kynna sér vel sögusviðið og skapa persónurnar.

Starfskynningar hjá nemendum í 9. bekk

StarfskynningarÍ lok nóvember stendur til að nemendur í 9. bekk Oddeyrarskóla fari í starfskynningar í fyrirtæki hér á Akureyri eða í nágrenni.

Starfskynningar eru liður í náms- og starfsfræðslu skólans og byggja m.a. á  aðalnámsskrá grunnskóla (2011) en þar er m.a. kveðið á um tengsl skóla og nærsamfélags.

Þá er óskað eftir því að strákar kynni sér vinnustað/starfsgrein þar sem konur eru almennt í meirihluta og að stelpur kynni sér vinnustað/starfsgrein þar sem karlar eru almennt í meirihluta. Nemendur mega einnig vera báða dagana á ,,óhefðbundnum“ vinnustað ef vilji er fyrir hendi og samþykki fæst á vinnustaðnum.

Þessi kynjabundni þáttur er liður í jafnréttisáætlun Oddeyrarskóla sem m.a. byggir á 23. gr. jafnréttislaga þar sem segir:  Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu piltar og stúlkur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands eru konur t.d. í miklum meirihluta starfa í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og fræðslustarfsemi. Karlar eru hins vegar í miklum meirihluta starfa í mannvirkjagerð og iðnaði svo dæmi séu tekin. Að starfskynningu lokinni fræða nemendur foreldra sína, samnemendur og kennara um það sem þeir hafa kynnt sér á vinnustað. Umsjón með framkvæmd starfskynninga hafa Þuríður námsráðgjafi og Hrafnhildur umsjónarkennari.

 

 

Spennandi sjóræningjaþema í 1. og 2. bekk

IMG_3360Síðustu tvær vikurnar hafa börnin í 1. og 2. bekk upplifað mikil ævintýri. Einn daginn barst þeim flöskuskeyti með bréfi frá sjóræningjahrói sem sagðist vera villtur og rataði ekki heim. Síðan þá hafa börnin skrifast á við sjóræningjann og kennt honum ýmislegt. Til dæmis hafa þau þurft að leiðbeina honum með muninn á stöfunum b, p og d, kenna honum áttirnar og fjöllin í kringum okkur auk þess að leiðbeina honum með almenna mannasiði og kurteisi. Hver og einn nemandi hefur skrifað honum bréf með ýmsum spurningum og leiðbeiningum. Einn daginn þegar nemendur mættu í skólann voru blaut fótspor um alla stofu ásamt litlum demöntum. Þetta þótti börnunum afskaplega spennandi. Tvö bréf fundust svo í stofunni. Í öðru þeirra voru vísur en í hinu, sem var sendibréf, mátti finna vísbendingu um nafn sjóræningjans. Þar voru allir stafirnir í rugli og nú ætla börnin að takast á við það verkefni um helgina að leysa stafaruglið og komast að því hvað sjóræningjahróið IMG_3273heitir. Ef til vill koma foreldrar til hjálpar 🙂

Sjóræningjaævintýrið er hluti af vinnu í byrjendalæsi og hafa kennarar í gegnum það samþætt vinnuna við nám í fleiri greinum, s.s. stærðfræði, lífsleikni, myndlist, landafræði og ritun.

Myndir eru komnar á myndasíðu skólans, athugið að þær eru í tveimur möppum.

Nemenda- og foreldraviðtöl á morgun (ekki skóladagur)

OddeyrarskóliVið minnum á að á morgun, miðvikudaginn 5. nóvember, eru nemenda- og foreldraviðtöl í Oddeyrarskóla. Þann dag koma nemendur eingöngu í viðtal til umsjónarkennara með foreldrum/forráðamönnum. Því fer engin hefðbundin kennsla fram þennan dag. Þeir sem eru búnir að koma í viðtal eða koma seinna í það í samráði við umsjónarkennara eru alveg í fríi þennan dag.

Brynja Sif Skúladóttir heimsótti nemendur á miðstigi

Brynja Sif SkúladóttirRithöfundurinn Brynja Sif Skúladóttir heimsótti á dögunum nemendur á miðstigi Oddeyrarskóla. Í heimsókninni ræddi hún um sköpun ævintýra og las fyrir nemendur úr nýjustu bók sinni Nikký og baráttan um bergmálstréð.

Fyrir heimsóknina hafði Brynja Sif útbúið verkefni sem miðar að því að efla ímyndunarafl nemenda. Verkiefnið kallast „Ævintýrið í mér –  veistu hvað þú getur?” Krakkarnir á miðstigi unnu verkefnið og virtust þeir hafa bæði mikið gagn og gaman af heimsókn Brynju Sifjar.

Sjónvarspsstöðin N4 fylgdi Brynju Sif í heimsóknina og ef smellt er á eftirfarandi slóð má sjá myndbrot úr heimsókninni og viðtal við Brynju Sif: http://www.n4.is/is/thaettir/file/ny-barnabok-fra-brynju-sif