Alþjóðlegur dagur læsis, gildi þess að lesa fyrir börn

books_to_teach_reading_to_kidsÍ dag, 8. september, er haldið upp á alþjóðlegan dag læsis. Af því tilefni gerum við ýmislegt í skólanum sem tengist bókmenntum og lestri. Við áttum hér sameiginlega lestrarstund kl. 9:00-9:15 í morgun. Starfsmenn munu kynna uppáhalds bækurnar sínar, við skrifum öll saman sögur og svo verður getraun á skólasafninu þar sem nemendur giska á úr hvaða bók ákveðin mynd eða tilvitnun er.

Í læsi felst margt, m.a. að öðlast orðaforða og skilja málið. Eitt af því sem foreldrar og kennarar geta gert til að styrkja læsi barna er að lesa fyrir þau, jafnvel þótt þau séu sjálf farin að lesa. Hér á eftir kemur smá lesning með upplýsingum af lestrarvefnum, en hann geymir margar góðar ábendingar varðandi lestur.

Rannsóknir hafa sýnt að lestur fyrir börn hefur áhrif á lestraráhuga þeirra, eflir læsi og leggur grunn að því að börnin njóti þess að lesa sjálf síðar meir.

Lestrarmenning á heimilum hefur mikil áhrif á viðhorf barna til lesturs. Lestrarmenning endurspeglar þau viðhorf sem ríkja á heimilinu til læsis, hversu mikið börn sjá aðra á heimilinu lesa og skrifa og hversu gott aðgengi að lesefni er á heimilinu.

Mikilvægt er að eiga samræður um efni bóka. Þær gefa börnum tækifæri til þess að spyrja og fá svör, segja álit sitt, álykta og gefa hugarfluginu lausan tauminn. Þetta leiðir til dýpri hugsunar barnsins og til aukins skilnings á ýmsum þáttum læsis. Margar rannsóknir hafa leitt í ljós að lestur og samræður um efnið sé aðferð sem eflir orðaforða barna hvað mest.

Orðaforði  skiptir miklu máli fyrir læsi. Gera má ráð fyrir því að barn sem hefur mikinn orðaforða hafi meiri færni til djúpstæðrar hugsunar og eigi auðveldara með tjáskipti en börn með lítinn orðaforða. Börn með mikinn orðaforða eiga þannig auðveldara með að bæta við orðaforða sinn í gefandi lestrar- og samræðustundum. Þess vegna þarf að leggja áherslu á að efla orðaforða barna með lestri og samræðum frá fyrstu tíð.

Hlutverk foreldra í lestrarstund getur verið að stýra samræðum og styðja barnið til að halda samtalinu gangandi; skýra innihald textans, spyrja spurninga um efnið og tengja það við reynslu og aðstæður barnsins. Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir máli að lesa oft fyrir börn. Það eykur orðaforða og eflir bernskulæsi. Gæði lestrarstunda skipta einnig miklu máli. Lestrarstund á að vera skemmtileg stund þar sem bæði foreldri og barn njóta þess að lesa og spjalla saman um efnið.

Heimild: lesvefurinn (http://lesvefurinn.hi.is/node/212 )

 

Heimsókn menntamálaráðherra til Akureyrar

illugi_prentLaugardaginn 6. september kl. 11:00 verður opinn fundur með Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra á Bláu könnunni sem ber heitið „Hvernig getum við bætt menntun barnanna okkar?“

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra heldur um þessar mundir opna fundi um Hvítbók um umbætur í menntamálum um allt land. Hann leggur áherslu á þau meginmarkmið að bæta árangur í lestri, bæta námsframvindu í framhaldsskólum og efla verk- og tækninám. „Framtíðarsýn okkar er að ungt fólk á Íslandi hafi sömu möguleika til þess að lifa og starfa í síbreytilegum heimi og jafnaldrar þess í löndum sem við viljum bera okkur saman við. Til að svo megi verða þarf að veita nemendum á Íslandi tækifæri til menntunar í menntakerfi sem stenst samanburð við það sem best gerist erlendis“. Fundirnir eru öllum opnir og eru kennarar, foreldrar og aðrir sem láta sig menntamál varða velkomnir.

Lestrargleði – stuðningur foreldra við lestrarnám er dýrmætur

lestur með foreldrumNú erum við að hefja lestrargleði í Oddeyrarskóla og felst hún í ýmiss konar vinnu sem vekur áhuga á lestri og þjálfar hann. Hér koma nokkrir punktar varðandi lestur fengnir af vef Námsgagnastofnunar:

 • Lestur hefur jákvæð áhrif á málþroska
 • Lestur eykur orðaforða
 • Lestur bætir hlustun, athygli og einbeitingu.
 • Lestur eykur reynslu og þekkingu.
 • Lestur og góður málþroski styður nám í öllum námsgreinum.

Stuðningur foreldra við heimalestur felst m.a. í því að

 • sýna lestrarnámi barnsins áhuga
 • lesa með barninu á hverjum degi
 • setja reglur um lestrarstundina sem auðvelt er að fylgja, lesa t.d. alltaf á sama tíma og á sama stað
 • vera örlátur á hrós og hvatningu og varast óþolinmæði
 • ræða um myndir í lestrarbók barnsins og tengja efnið reynslu þess
 • ræða um innihald textans sem barnið á að lesa, jafnvel þótt hann sé einfaldur
 • skýra orð og finna ný orð eins og samheiti, andheiti, rímorð o.s.frv.
 • lesa textann eða hluta hans fyrir barnið ef það er þreytt, ekki að sleppa lestrarstundinni
 • vera í góðu samstarfi við kennara barnsins.

Byrjendalæsi í Oddeyrarskóla

ByrjendalæsiÍ Oddeyrarskóla vinnum við samkvæmt hugmyndafræði um Byrjendalæsi í 1. – 4. bekk. Ef foreldrar vilja kynna sér hugmyndafræðina er myndbandið um Byrjendalæsi komið á youtube, bæði á íslensku og ensku. Við hvetjum foreldra til að skoða það. Vefslóðin á íslenska myndbandið er á https://www.youtube.com/watch?v=145lNe5nH-k og enska myndbandið er á slóðinni https://www.youtube.com/watch?v=A329I9O_6GE

Nú er unnið að viðamikilli rannsókn á læsisverkefninu Byrjendalæsi sem unnið er eftir víða um land í samstarfi við miðstöð skólaþróunar. Um rannsóknina má lesa á slóðinni  http://staff.unak.is/not/runar/Rannsoknir/BL_rannsokn.htm

Verið er að vinna úr gögnum, niðurstöður eru farnar að birtast og eru ráðgjafar á Miðstöð skólaþróunar við HA þegar farnir að nýta sér þær til umbóta í verkefnum Byrjendalæsis.

Hjólabretti

hjólabrettiÍ haust hefur verið nokkuð um að nemendur á unglingstigi mæti á hjólabrettum í skólann.  Engin aðstaða er til að geyma slík tól í forstofunni og heldur ekki í kennslustofum.  Því hefur verið tekin sú ákvörðun að þeir nemendur sem koma með hjólabretti í skólann biðji skólaliða að geyma þau fyrir sig. Nemendur mega vera á brettunum á afmörkuðu svæði á skólalóðinni í frímínútum og mælumst við til að viðeigandi hlífðarbúnaður sé notaðar. Athugið að skólinn tekur ekki ábyrgð á hjólabrettum barna.

Nemendur 7. bekkjar hæstánægðir með Reykjaferð

Dagana 25.-29. ágúst var 7. bekkur í Oddeyrarskóla í skólabúðum að Reykjum í Hrútafirði ásamt nemendum frá Patreksfirði, Bolungarvík, Ísafirði, Flateyri og Súðavík.

Hópnum var skipt í þrennt og voru hóparnir saman í dagskrá megnið af deginum. Margt skemmtilegt var í boði fyrir krakkana. Þeir fóru m.a. á byggðasafnið, í náttúruskoðun, lærðu eitt og annað um fjármál og  fóru í íþróttir og sund auk þess að fara í heimsókn á sveitabæ og fræðast um Grettissögu. Haldin voru alls konar mót og átti Oddeyrarskóli þrjú efstu sætin í borðtenniskeppninni en það var Róbert Máni Hafberg sem hampaði sigrinum, í öðru sæti var Lárus Ingi Antonsson og Heiðar Gauti Jóhannsson í því þriðja. Einnig áttum við sigurvegara í hárgreiðslukeppninni, en það var Hinrik Örn Halldórsson sem var valinn með flottustu hárgreiðslu vikunnar. Á kvöldin voru kvöldvökur þar sem börnin stýrðu sjálf skemmtiatriðum og tókst það mjög vel hjá þeim. Einnig voru kennarar með söngatriði og komu raddlausir heim 🙂

Ferðin gekk vel í alla staði og fengu nemendur Oddeyrarskóla mikið hrós fyrir dugnað, kurteisi og góða umgengni. Þetta var dýrmæt reynsla fyrir okkur öll. Börnin lærðu margt og kynntust hvert öðru betur og allir eignuðust nýja vini. Þessir dagar munu án efa lifa lengi í minningunni.

 

Byrjendalæsi í 1. og 2. bekk: Kóngulóarþema

KóngulóKónguló21. og 2. bekkur hafa verið að vinna með stafinn K og kóngulóarþema undanarna daga. Börnin eru búin að fara í gönguferð og veiða kóngulær sem þau skoðuðu á stækkunarskjá. Svo hafa þau krítað, málað, leirað og skrifað K og/eða orðið kónguló, fundið orð með K-i í, ofið og búið til kóngulóarbók. Þau fóru líka út og máluðu svartan grunn sem þau breyttu síðan í risakónguló sem var hengd upp á vegg og á hana er verið aðsafna K-orðum. Allir hafa verið áhugasamir og tekið virkan þátt í verkefnunum 🙂

Myndir eru á myndasíðu skólans.