Gleðilegt sumar!

Okkar árlega sumargjöf hefur verið afhent nemendum og fór hún líklegast heim með þeim í dag.

Það er hefð hjá okkur að senda nemendum sumargjöf við sumarkomuna ár hvert. Sumargjöfin er í formi fallegra orða í garð hvers og eins, rituð af samnemendum eða kennurum. Minnum um leið á að það er skipulagsdagur kennara á föstudaginn svo nemendum mæta næst í skólann mánudaginn 23. apríl.

Sumarkveðja úr skólanum!

Blái dagurinn á morgun – hvetjum alla til að klæðast bláu

Á morgun, föstudaginn 6. apríl, er hinn svokallaði blái dagur. Við hvetjum nemendur og stafsfólk til að klæðast bláu þennan dag og vekja þannig athygli á góðum málstað.

Markmið með bláum apríl er að auka vitund og þekkingu almennings á einhverfu.

Nokkrir áhugaverðir punktar um einhverfu:

 • Einhverfa er meðfædd og því fötlun en ekki sjúkdómur
 • Einhverfa er röskun í taugaþroska og einkennin koma venjulega í ljós fyrir þriggja ára aldur
 • Einkennin birtast helst í skertri getu til að tjá sig, félagslegu samspili og áráttukenndri hegðun
 • 1 af hverju 68 barni fæðist með röskun á einhverfurófi (1,5%) skv. nýjum erlendum rannsóknum
 • Drengir eru 4-5 sinnum líklegri til að fá einhverfugreiningu en stúlkur
 • Það skiptir sköpum að börn með einhverfu fái greiningu og viðeigandi aðstoð sem allra fyrst
 • Engin tengsl eru milli bólusetninga og einhverfu (hefur verið margafsannað af vísindasamfélaginu)
 • Birtingarmyndir einhverfu eru margar og birtast aldrei alveg eins hjá hverjum og einum
 • Einhverfir hafa ótalmargt fram að færa og hafa sína styrkleika – eins og allir aðrir

Nánari upplýsingar og fræðsluefni má nálgast á http://www.blarapril.is/

Oddeyrarskóli hampaði 2. sætinu í Skólahreysti!

Í dag fór fram Akureyrarkeppni í Skólahreysti og gerði lið Oddeyrarskóla sér litið fyrir og hampaði 2. sætinu. Frábær árangur það!

Í liði Oddeyrarskóla voru þau Ólafur Helgi Erlendsson sem keppti í upphýfingum og dýfum, Berglind Líf Jóhannesdóttir sem keppti í armbeygjum og hreystigreip og tvíburasystkinin Heiðar Gauti Jóhannsson og Lilja Katrín Jóhannsdóttir kepptu í hraðabrautinni. Varamenn liðsins voru Hugrún Anna Unnarsdóttir og Amjad Joumaa Naser.

Bjarki Gíslason íþróttakennari sinnti undirbúningi af alúð, kenndi skólahreystival, hélt undankeppni í skólanum og þjálfaði krakkana fyrir keppnina.

Við óskum liðinu og Bjarka innilega til hamingju með frábæran árangur!

Sigurvegarar Akureyrarkeppninnar voru að þessu sinni lið Brekkuskóla og óskum við þeim að sjálfsögðu innilega til hamingju og óskum þeim góðs gengis í lokakeppninni í vor.

 

Kaffispjall stjórnenda og foreldra nemenda í 10. bekk á föstudag

Hefð er fyrir því í Oddeyrarskóla að bjóða foreldrum 1., 4., 7. og 10. bekkjar í kaffispjall með stjórnendum skólans.

Kaffispjallið er óformlegt spjall á kaffistofu starfsmanna og er hugsað til að efla tengsl og og auka samskipti milli heimila og skóla. Þarna gefst kjörið tækifæri til að ræða ýmislegt í skólastarfinu og / eða félagslífi barnanna.

Nú bjóðum við foreldra 10. bekkjar í kaffispjall með Kristínu skólastjóra og Fjólu deildarstjóra föstudaginn 6. apríl kl. 8:10 – 9:00.

Bingódagur í dag

Í dag er síðasti kennsludagur fyrir páska og samkvæmd hefðinni spilum við Bingó. Vinningar eru að sjálfsögðu í formi páskaeggja. 

Á morgun er svo skipulagsdagur og nemenda- og foreldraviðtöl á föstudag.

Við sjáumst svo endurnærð og glöð þriðjudaginn 3. apríl.

Gleðilega páska!

Nemendur Oddeyrarskóla sigruðu Lífshlaupið – uppskeruhátíð!

Verðlaunahafar í nestisverkefni á unglingstigi

Lárus og Lilja Katrín, fulltrúar úr nemendaráði tóku á móti verðlaunum

KÁ-AKÁ sló í gegn

Listamenn Oddeyrarskóla ræðast við

Í febrúar tóku nemendur Oddeyrarskóla þátt í grunnskólakeppni Lífshlaupsins. Starfsfólk tók einnig þátt og keppti í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins í flokki vinnstaða með 30-69 starfsmenn.

Nemendur Oddeyrarskóla gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Lífshlaupið í flokki skóla með 90-299 nemendur annað árið í röð. Þetta er frábær árangur og óskum við þeim innilega til hamingju!

Mikil stemning skapaðist í skólanum meðan Lífshlaupið stóð yfir, bæði meðal nemenda og starfsfólks.

Heilsueflningarnefnd skólan hélt utan um verkefnið, hvatti nemendur og starfsfólk til dáða og stóð fyrir nokkrum hreyfitengdum viðburðum. Hist var á sameginlegri dansstund á sal og farið í  sameiginlega gönguferð. Nemendur sýndu líka frumkvæði að því að hittast og hreyfa sig, þeir hittust í sundi og skautadiskói auk þess sem tveir nemendur buðu bekkjum sínum í hreyfipartý!

Þegar góður árangur næst er nauðsynlegt að fagna honum. Heilsueflingarnefnd stóð fyrir uppskeruhátíð á sal skólans í gær, föstudaginn 2. mars. Þar fengu nemendur afhentan verðlaunaskjöld frá ÍSÍ og starfsmenn fengu sín verðlaun fyrir að lenda í 3. sæti í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins. Auk þess sigruðu starfsmenn vinnustaðakeppni Akureyrarbæjar, eða þann hluta sem snýr að hreyfidögum. Fræðslusvið var með flestar hreyfimínútur og fékk verðlaun fyrir það.

Nemendur af unglingastigi fengu viðurkenningu fyrir heilsutengd verkefni sem þau hafa verið að vinna í þematímum. Blásið hafði verið til samkeppni um bestu heilsuverkefnin til að kynna fyrir yngri nemendum heilsusamlegt mataræði og nesti. Þeir fimm hópar sem sigruðu munu þeir heimsækja 1. – 7. bekk skólans til að kynna fyrir þeim heilsusamlegt mataræði.

Loks fengum við rapparann KÁ-AKÁ í heimsókn úr varð hin mesta skemmtun, en hann var einmitt eitt sinn nemandi Oddeyrarskóla. Að fjörinu loknu gæddu nemendur sér á íspinna. Starfsfólk fagnaði árangrinum á kaffistofunni með heilsubita og tertu.

Opið hús í Oddeyrarskóla

Föstudaginn 23. febrúar kl. 9-11 verður opið hús hér í Oddeyrarskóla fyrir þá foreldra sem eiga börn sem fara í 1. bekk á komandi skólaári. Opna húsið er fyrir alla, hvort sem barnið býr í hverfinu eða ekki.

Foreldrar fá kynningu á áherslum skólans og skipulagi auk þess að fá skoðunarferð um skólahúsnæðið.

Verið hjaranlega velkomin!

Öskudagsball fyrir 1. – 7. bekk

Nemendur 10. bekkjar ætla að halda öskudagsball fyrir krakkana í 1. – 7. bekk kl. 15:30 – 17:30 á morgun, miðvikudaginn 14. febrúar 2018.
Það kostar 500 kr. inn á ballið og svo geta þau keypt sér drykki, Svala fyrir 100 kr. og gos fyrir 250 kr.

Frítt á skíði og í sund í vetrarfríinu

Á morgun hefst vetrarfrí nemenda og því er enginn skóli miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Akureyrarbær býður grunn- og framhaldsskólanemum frítt í sund og á skíði í vetrarfríi grunnskóla á Akureyri.

 • Fimmtudaginn 15. febrúar geta grunn- og framhaldsskólanemar farið í skíðalyfturnar í Hlíðarfjalli án endurgjalds.
  Opið verður frá kl. 10-19. Athugið að krakkarnir þurfa að eiga rafrænt kort eða kaupa slíkt á 1.000 kr. í afgreiðslu Hlíðarfjalls.
 • Föstudaginn 16. febrúar geta grunn- og framhaldsskólanemar farið frítt í Sundlaugina á Akureyri (opið frá kl. 6.45-21.00),
  Glerárlaug (opið frá kl. 6.30-21.00) og sundlaugina í Hrísey (opið frá kl. 15-18).
  Frítt verður fyrir sama hóp í sundlaugina í Grímsey laugardaginn 17. febrúar (opið frá kl. 14-16).

Grunnskólanemendur gefa upp kennitölu og nafn skóla í afgreiðslu og framhaldsskólanemar VMA og MA framvísa nemendaskírteinum.

Lífshlaupið er byrjað!

Nú er fyrsta vika Lífshlaupsins hafin og við erum algjörlega tilbúin í slaginn, bæði nemendur og starfsfólk. Krakkarnir keppast við að hreyfa sig og safna hreyfimínútum í skólanum og utan skóla. Sumir ganga meira að segja svo langt að hjóla á spinninghjóli á bókasafninu og leysa verkefni á iPadnum á meðan!

Við hvetjum fjölskyldur til að nota þetta skemmtilega hreyfi- og lífsstílsátak til að safna hreyfimínútum saman, þetta er frábært tilefni til að fara saman í gönguferðir eða á skíði.

Áfram Oddeyrarskóli!