Saga skólans

Saga skólans

Meðan  eini barnaskólinn á Akureyri var í innbænum var löng leið þangað fyrir börnin af Oddeyri, þegar hún fór að byggjast.  Leiðin inneftir var ekki alltaf greiðfær, eftir tæpum stíg  meðfram sjónum milli bæjarhlutanna.

Foreldrar á Oddeyri fóru því fram á það að fá sérstakan skóla þar en var lengi tekið fálega.  Þó var látið undan síga og barnaskóli var á Eyrinni frá 1879-1900 á ýmsum stöðum, t.d. í Norðurgötu 7 (húsið er nú  Fróðasund 10A) og í húsi sem nú stendur við Lundargötu 2. Þegar nýr barnaskóli var reistur á brekkubrúninni fóru börnin af Oddeyri þangað.  Eftir 1950 var svo farið að huga að byggingu nýs skóla á Eyrinni. Fyrst var reist austurálma með fjórum kennslustofum og tók skólinn  til starfa í nýju byggingunni þann 7. desember 1957.  Vesturbyggingin á þremur hæðum var reist nokkrum árum síðar.  Löngu síðar var íþróttahús byggt við skólann og ný stjórnunarálma, bókasafn og þrjár kennslustofur bættust við haustið 2001.

Fyrsti skólastjóri var Eiríkur Sigurðsson og gegndi hann því starfi í 10 ár eða til ársins 1967 en þá tók Indriði Úlfsson við skólastjórn. Haustið 1995 tók Úlfar Björnsson  við skólastjórn til ársins 2001. Þá tók Helga Hauksdóttir við skólastjórn og gegndi stöðunni til 2012 en þá tók Kristín Jóhannesdóttir við.