Farsæld barna

Börn og foreldrar sem á þurfa að halda eiga að hafa aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Samþætt þjónustu í þágu farsældar barns er skipulögð og samfelld og hefur það markmið að skapa heildarsýn og ramma um þau þjónustukerfi sem skipta mestu máli fyrir farsæld barna. Hér eru upplýsingar um farsæld barna á Akureyri .

Oddeyrarskóli starfar samkvæmt hugmyndafræði um skóla fyrir alla og leggur mikið upp úr að sinna því sem best. Samkvæmt reglustoðþjónusta1gerð nr. 585/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskólum er skóli fyrir alla grunnskóli í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Skóli fyrir alla byggir á viðurkenningu og þátttöku allra nemenda. Námskráin er merkingarbær fyrir alla nemendur og námsumhverfið einkennist af margbreytileika. Allir nemendur njóta virðingar og ná besta mögulega árangri. Skólastarf án aðgreiningar er ferli í sífelldri þróun, allt skólastarfið er heildstætt og samþætt og stuðningur er veittur eftir þörfum hvers og eins.

Til að allir fái þá þjónustu sem þeim ber er skipulögð stoðþjónusta innan og utan skólans og geta foreldrar kynnt sér þá þjónstu hér á síðunni. Oft eru þjónustuteymi utan um nemendur þegar á þarf að halda. Í slíku þjónstuteymi sitja í foreldrar, umsjónarkennarar, deildarstjóri og fulltrúi frá fjölskyldudeild (oftast sérkennsluráðgjafi). Í sumum tilvikum koma fleiri einstaklingar að, s.s. skólasálfræðingur, starfsmaður barnaverndar eða starfsmaður BUG teymis á SAK. Samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu barna eiga öll börn rétt á tengilið innan skólans en það getur verið skólastjórnandi, námsráðgjafi eða verkefnastjóri sem tekur að sér það hlutverk.