Einelti og ofbeldi

Hvað er einelti?

Einelti er langvarandi ofbeldi, líkamlegt og/eða andlegt sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að ákveðnum einstaklingi eða einstaklingum. Atferlið er endurtekið og þolandinn er ekki fær um að verja sig. Í einelti er valdaójafnvægi þar sem gerandinn misbeitir valdi gegn þolandanum.

Sýnilegt einelti

Dæmi um sýnilegt einelti er barsmíðar, spörk og útilokun. Þolandi getur verið þvingaður til að gera eitthvað gegn vilja sínum eða eigur hans síendurtekið teknar traustataki, faldar eða skemmdar.

Dulið einelti

Útskúfun og útilokun sem ekki er sýnileg er dæmi um dulið einelti. Það er oft talið alvarlegasta eineltið og getur haft mikil áhrif á sjálfsmynd og líðan þolanda til lengri tíma.

Rafrænt einelti

Rafrænt einelti getur verið í formi SMS skilaboða í síma eða meiðandi og neikvæð umræða í netheimum, t.d. á Facebook. Tilviljanakennd stríðni, átök og ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis.

Við berum öll ábyrgð

Allir sem koma að uppeldi og vinnu með börnum og unglingum bera ábyrgð á því að þau finni til öryggis, hvort sem er á heimili, í skóla eða við félagsstörf. Allir þessir aðilar þurfa að vinna saman. Best er þegar þeir eru samstíga í því að skapa jákvæðan aga og setja skýr mörk um hegðun.

Hér má nálgast fræðsluáætlun skólans gegn einelti.