Sýn og stefna

Einkunnarorð skólans eru ábyrgð – virðing – vinátta

Í Oddeyrarskóla vinnum við saman að því að skapa skólasamfélag sem nær árangri. Það einkennist af jákvæðum skólabrag, áhugasömum og metnaðarfullum einstaklingum.

Jákvæður skólabragur byggist á virðingu fyrir öllum einstaklingum og umhverfi þar sem margbreytileika skólasamfélagsins er fagnað. Hver og einn er meðvitaður um gildi sitt í samfélaginu og axlar ábyrgð á hlutverki sínu.

Við sköpum áhuga meðal einstaklinga með því að gera námið forvitnilegt og fjölbreytt og náms- og starfsumhverfi vinsamlegt og hvetjandi. Hver og einn sýnir ábyrgð í því að leita leiða til að skapa þessar aðstæður. 

Við byggjum upp metnað með því að skapa aðstæður þar sem einstaklingum er gefinn kostur á að nýta styrkleika sína og hæfileika til að ná árangri. Mat á starfinu skal sett fram með leiðbeinandi og uppbyggjandi hætti. Þannig skapast vilji til að þróa og efla starfið.

Oddeyrarskóli er grunnskóli fyrir nemendur í 1. – 10. bekk. Við viljum skapa skilyrði til náms með leik, sköpun og hefðbundnu bóknámi. Við vinnum samkvæmt hugmyndafræði byrjendalæsis í yngstu bekkjunum, en markmið þess er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni og er gengið út frá því að börn fái lesefni sem kveiki áhuga þeirra, ýti undir ímyndunarafl og hvetji þau til gagnrýninnar hugsunar.

Oddeyrarskóli leggur mikið upp úr góðu samstarfi við foreldra og viljum við fyrst og fremst leggja áherslu á gagnkvæmt traust og jákvæð samskipti við fjölskyldur nemenda okkar. Við trúum því að samábyrgð og samvinna heimila og skóla sé hornsteinn að þroska, námi og velferð barna og ungmenna og við bjóðum foreldra og börn velkomin til samstarfs við okkur í Oddeyrarskóla.

Skóli fyrir alla

Með lögum um grunnskóla nr. 63/1974 var lögfest sú meginstefna í menntamálum á Íslandi að grunnskólinn eigi að haga störfum sínum í samræmi við getu og þarfir allra nemenda, óháð námsgetu og að öll börn eigi rétt á að sækja sinn heimaskóla. Eins og fram kemur í sýn skólans hér að ofan byggir Oddeyrarskóli starf sitt á virðingu fyrir margbreytileikanum. Kennsluaðferðir, starfsaðferðir allar og áætlanir endurspegla þessa sýn og vilja til að mæta þörfum allra nemenda. 

Síðast uppfært 18.10 2022