Nám og kennsla

Markmið náms

Í 2. grein grunnskólalaga segir að hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttök þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldi þróun. Þar segir einnig að grunnskóli skuli stuðla að víðsýni hjá nemendum og skólastarfið skuli leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.  Einnig er það hlutverk grunnskólans að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Í Oddeyrarskóla er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér vinnubrögð og samskipti sem gerir þá færari um að takast á við þau verkefni sem bíða þeirra í ókominni framtíð. Sjónum er sérstaklega beint að samræðum í ýmsum myndum og þjálfun í samvinnu og sjálfstæðum vinnubrögðum í gegnum fjölbreytt þemaverkefni.

Í Oddeyrarskóla er leitast við að koma á lærdómssamfélagi sem byggir á sameiginlegri ígrundun og samvinnu starfsfólks og hefur það að markmiði að efla námsárangur nemenda.

Nám nemenda í grunnskóla grundvallast á samspili margra þátta. Til að nemandi nái góðum árangri í námi þarf hann að vera í hvetjandi námsumhverfi, upplifa væntingar, læra vönduð vinnubrögð og njóta góðrar kennslu þar sem horft er til þarfa hans og markmiða.

Nám og kennsla í Oddeyrarskóla

Í Oddeyrarskóla er leitast við að koma á lærdómssamfélagi sem byggir á sameiginlegri ígrundun og samvinnu starfsfólks og hefur það að markmiði að efla námsárangur nemenda.

Nám nemenda í grunnskóla grundvallast á samspili margra þátta. Til að nemandi nái góðum árangri í námi þarf hann að vera í hvetjandi námsumhverfi, upplifa væntingar, læra vönduð vinnubrögð og njóta góðrar kennslu þar sem horft er til þarfa hans og markmiða.

Markmið með teymisvinnu í Oddeyrarskóla er að auka gæði kennslu og koma til móts við ólíkar þarfir nemenda, m.a. með sameiginlegri ígrundun starfsfólks og þar sem kennarar læra hver af öðrum.

Í Oddeyrarskóla byggjum við upp lærdómssamfélag þar sem við nýtum samvinnu og faglega samræðu til að mæta þörfum nemenda og stuðla að auknum námsárangri. Lögð er áhersla á að kennarar miðli því sem vel gengur og sæki sér þekkingu innan skólans og utan. Kennarar rýna í niðurstöður innra og ytra mats og þær nýttar við skipulagningu náms og kennslu. Starfsmenn vinna náið saman og styðja hver við annan í starfi og bera sameiginlega ábyrgð á að mæta þörfum nemenda.

Fjölbreytilegt námsumhverfi og kennsluaðferðir, sem eru hvetjandi og styðjandi fyrir nemendur eru meginforsendur þess að nemendur nái þeim hæfniviðmiðum sem stefnt er að. Góður skólabragur eflir samskiptahæfni nemenda og þroska þeirra til virðingar og umburðarlyndis, jafnréttis og umgengni við aðra, umhverfi og náttúru. Námsumhverfi nemenda mótast af skólabrag, umhverfi, námsgögnum og öðrum aðbúnaði.

Í Oddeyrarskóla leggjum við áherslu á að námsumhverfi veki áhuga og stuðli að virkni í námi og kennslu. Við stuðlum að jákvæðum skólabrag með ýmsum leiðum. Áhersla er á að kennarar beiti viðurkenndum aðferðum sem stuðla að góðum samskiptum, uppbyggjandi og jákvæðu sambandi milli nemenda. Í skólanum er námsumhverfi sveigjanlegt og aðstæður skapaðar fyrir nemendur að ná markmiðum eftir mismunandi leiðum.

Í Oddeyrarskóla er lögð áhersla á fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir svo nemendur hafi kost á námsaðferðum og námi við hæfi. Kennarar gera kennsluáætlanir og skipuleggja nám við hæfi hvers og eins og nýta til þess fjölbreyttar leiðir. Áhersla er á að efla sjálfstæði og væntingar til árangurs eru miklar. Aðferðir samvinnunáms eru notaðar, aðferðir sem byggja á samræðum eru í forgrunni.

Í Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 er áhersla lögð á að nemendur séu virkir og sjálfstæðir í námi sínu, þeir skapi og miðli en séu ekki eingöngu viðtakendur. Vaxandi áhyggjur eru af ósjálfstæði nemenda og lítilli þrautseigju og vangaveltur hafa verið um hvort skýringuna sé að einhverju leyti að finna í kennsluaðferðunum.

Tungumálið er okkar tæki til að læra. Við lærum öll gegnum lestur, hlustun og samræður við hvert annað. Í skólanum var tekin sú ákvörðun að vinna að því að efla hæfni allra í skólanum til að eiga samræður sem hjálpa okkur að læra og verða betri námsmenn.  Markmiðið með því að nota gagnrýnar spurningar og æfa sig í að rökstyðja mál sitt er að efla hugsun nemenda og gera þá færari um að bera ábyrgð á námi sínu. Samræður nýtast í öllum námsgreinum til að auka skilning og efla hugsun. Haustið 2015 var farið af stað með þróunarverkefnið Tölum saman - lærum saman, sem hlaut styrk úr Sprotasjóði til eins árs.  

Markmið verkefnisins er m.a:

  • Að kennarar nái valdi á fjölbreyttum leiðum í samræðum við nemendur.
  • Að þjálfa hæfni nemenda, með sérstakri áherslu á lykilhæfniþætti aðalnámskrár sem snúa annars vegar að tjáningu og miðlun og hins vegar að skapandi og gagnrýnni hugsun.
  • Að samræður verði lykill að því að auka hugtakaskilning í hvaða námsgrein og námsefni sem er.
  • Að nemendur nái valdi á að nýta sér samræður í námi sínu.
  • Að auka virkni og ábyrgð nemenda í námi.

Með aukinni samræðu eykst virkni nemenda, þeir þjálfast í að rýna til gagns, rökstyðja mál sitt og bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Samræðan er góð leið til að skerpa skilning og auka samstarf nemenda. Læsisteymi Oddeyrarskóla hefur það hlutverk að styðja kennara og halda verkefninu lifandi.  Haustið 2017 hélt Claire Reed námskeið í Oddeyrarskóla þar sem hún kenndi kennurum aðferð sem kallast Talking Partners sem miðar að því að efla tjáningu og orðaforða nemenda á markvissan hátt.

Námsáherslur 21. aldarinnar byggja að miklu leyti á markvissa nýtingu miðla og upplýsinga og leggjum við áherslu á að nemendur Oddeyrarskóla öðlist hæfni til að nýta sér fjölbreyttar og nýstárlegar leiðir í námi sínu á hverju aldursstigi fyrir sig. Upplýsingatækni í skólastarfinu stuðlar að fjölbreytni í námi og vinnubrögðum í öllum námsgreinum. Í Oddeyrarskóla er áhersla lögð á samþættingu námsgreina, að læra góð og gagnleg vinnubrögð og að skapa nemendum tækifæri á að miðla á skapandi hátt.

Allir nemendur hafa aðgang að umhverfi sem kallast Google Suite for Education, en í því umhverfi geta nemendur unnið ýmis konar verkefni á rafrænan hátt og deilt vinnu sinni með kennurum sem veita þeim endurgjöf. Umhverfið býður upp á mikla gagnvirkni og gott utanumhald.

Allir nemendur Oddeyrarskóla læra undirstöður forritunar í gegnum ýmis forrit sem henta í skólastarfi. Skólinn hlaut veglegan styrk frá Forriturum framtíðarinnar, sem gerði okkur kleift að mennta kennara í forritun og bæta verulega við tölvukost skólans.

Náms- og starfsráðgjöf er lögbundinn hluti af sérfræðiþjónustu skóla. Námsráðgjöf er ætlað að vera fyrirbyggjandi þjónusta við alla nemendur skólans og stuðla að því að nemendur geti skapað sér viðunandi vinnuskilyrði í skóla og heima og markað sér braut til framtíðar. Þetta felur m.a. í sér að náms- og starfsráðgjafi þarf að hafa frumkvæði að því að nálgast nemendur sem eru í þörf fyrir aðstoð en bera sig ekki eftir björginni.

Náms- og starfsráðgjöf felst í því að liðsinna nemendum við að finna hæfileikum sínum, áhugasviðum og kröftum farveg. Markviss náms- og starfsfræðsla þarf að standa nemendum til boða frá 1. – 10. bekk grunnskóla. Jafnrétti ber að hafa að leiðarljósi í náms- og starfsfræðslu með því að kynna piltum og stúlkum fjölbreytt námsframboð að loknum grunnskóla og störf af ýmsu tagi. Vinna þarf gegn stöðluðum ímyndum kynjanna um möguleika í náms- og starfsvali allt frá upphafi.