Saga Oddeyrarskóla

Fyrir tæpum 140 árum var stofnaður skóli á Oddeyri. Hann var ekki í sérstöku húsnæði heldur var kennt í ýmsum húsum á Oddeyri. Gamli Oddeyrarskóli hætti þegar Barnaskóli Akureyrar var byggður árið 1930. Núverandi Oddeyrarskóli var stofnaður árið 1957. Elsti hluti skólahússins var austurálman á einni hæð og kennaraálma sem nú hýsir Frístund. Þá voru nemendur í skólanum rúmlega 230 talsins. Vegna fjölda nemenda þurfti að þrísetja skólann fyrstu árin, þannig að börnin voru í skólanum á mismunandi tíma dags. Hafist var handa við að byggja við skólann árið 1961 og var það bygging á þremur hæðum sem tekin var í notkun á árunum 1962-1965. Nemendur voru flestir á árunum um 1970 en þá voru þeir tæplega 500. Árið 1994 var byggt íþróttahús við skólann og í kringum aldamótin 2000 var byggð  kennaraálma og nýjar kennslustofur norðan við elsta hluta skólans. Síðustu ár hafa nemendur skólans verið um 200 talsins.