SMT skólafærni

ReglutaflaSMT Leiðarljós Ársáætlun

AgaferliVinnureglur við hegðunarbrotViðmið um hegðunarfrávik og afleiðingar

Markmið SMT skólafærni er að skapa jákvæðan skólabrag og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks skóla. Aðferðin leggur áherslu á leiðir til að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, umbuna fyrir æskilega hegðun og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Nemendur sem hafa góða félagsfærni sýna síður óæskilega hegðun, eiga auðveldara með að eignast vini og leysa farsællega úr vandamálum og ágreiningsefnum.

Nemendur Oddeyrarskóla fá hrós fyrir æskilega hegðun og að fylgja skólareglum. Í sumum tilvikum geta nemendur fengið svokallaða Þrumu, eða hrósmiða sem þeir setja í safn bekkjarins og þegar bekkurinn hefur náð sexfaldri bekkjarstærð af þrumum fær hann umbun sem hefur verið fyrirfram ákveðin. Umbun getur verið í formi spilatíma, leiktíma, náttfatadags, frjáls nestis eða annars í þeim dúr.

Einkunnarorð Oddeyrarskóla eru ábyrgð, virðing og vinátta.

Ábyrgð: Við tökum ábyrgð gagnvart sjálfum okkur og öðrum, t.d. á námi og framkomu. Við leggjum okkur fram og gerum alltaf okkar besta.

Virðing: Við sýnum hvert öðru virðingu, bæði í orði og verkum. Við erum kurteis og komum vel fram við alla, bæði í orði og verki. Virðum okkur sjálf, alla aðra og umhvefið okkar.

Vinátta: Við sýnum hvort öðru vináttu og leggjum áherslu á að öllum líði vel í skólanum. Nemendur og starfsfólk vinna saman í jákvæðu umhverfi þar sem áhersla er lögð á vinsemd og allir leggjast á eitt um að vinna gegn stríðni, vanlíðan og einelti.

Einkunnarorð skólans eiga að vera öllum kunn og vera okkur leiðarljós að því markmiði að öllum líði vel í skólanum og þeir séu metnir að verðleikum. Að hver og einn geti sinnt starfi sínu og námi eins og hann best getur og fengið leiðbeiningar og aðstoð eins og hann þarf. Að innan skólasamfélagsins sé andi samhjálpar og vináttu, þannig að allir hjálpist að við að leiðbeina og minna á góðar umgengnisvenjur og láti sig varða ef einhver er beittur órétti eða við sjáum stríðni eða einelti gagnvart nemendum eða starfsfólki.  Einkunnarorð skólans eru rædd og rifjuð upp á hverju skólaári.

Við leggjum áherslu á að nemendur læri skólareglurnar og fá þjálfun í að fylgja þeim. Skólareglur eru settar upp í reglutöflu sem flokkuð er svæðum. Þar eru líka almennar reglur sem gilda hvar sem nemendur eru , bæði innan dyra eða utan og þar sem nemendur og starfsfólk eru á vegum skólans. Yfirreglur SMT skólafærni eru eftirtaldar: Við förum eftir fyrirmælum, við erum stundvís, við erum kurteis og tillitsöm og komum vel fram við alla, við virðum eigur annarra og göngum vel um, við skiljum sælgæti, gos og orkudrykki eftir heima. 

Hvatning 

Hvatning er tæki sem kennarar geta notað til að kenna nýja hegðun og viðhalda henni með jákvæðum hætti. Sjálfstraust barna helst mjög í hendur við þá hvatningu sem þau fá fyrir það sem þau geta eða gera rétt.

  • Hvatning er eitthvað sem barn vill fá og fylgir á eftir æskilegri hegðun.
  • Hvatning getur verið félagsleg, s.s. hrós og bros.
  • Hvatning getur verið áþreifanleg eins og límmiðar og stjörnur sem kennarar nota oft.
  • Hvatning getur verið að fá að gera eitthvað, spila, fara í leiki eða annað sem kostur er á.

Þegar hegðun nemenda er ekki í samræmi við viðmið okkar og væntingar fylgja starfsmenn ákveðnu ferli. Nemendur fá aðvörun og val um að sýna rétta hegðun. Gangi það ekki eftir er hegðunarbrot skráð í dagbók. Þegar ákveðnum fjölda skráningar er náð fer af stað ferli í samvinnu við foreldra með það að markmiði að auka skólafærni nemandans.

Lausnarteymi skólans vinnur að málefnum einstaklinga eða hópa. Kennarar geta óskað eftir stuðningi teymisins við lausn einstaklingsmála eða málefna hópa. Unnið er að því að sem flestir kennarar skólans fari í PMTO grunnmenntun en hún er ætluð fagfólki sem kemur að vinnu með börnum sem sýna hegðunarerfiðleika og sinnir ráðgjöf fyrir uppalendur. Markmið grunnmenntunar er þríþætt: að efla þekkingu þessara fagstétta á aðferðum PMTO til að takast á við hegðunarerfiðleika; að efla skilning á hegðunarerfiðleikum og á mælingum hegðunar; að auka færni í ráðgjöf vegna hegðunarerfiðleika og vitund um hvenær og hvert vísa eigi málum sem þarfnast frekari meðferðar (til dæmis í PMTO einstaklings- eða hópmeðferð).

Innleiðing á SMT skólafærni hófst í skólanum árið 2006 en hugmyndafræðin gengur út á jákvæðan stuðning við hegðun nemenda. SMT skólafærni er útfærsla á bandarísku aðferðinni “positive behavior Support” (PBS) sem víða er notuð í grunnskólum í Reykjavík. SMT skólafærni er hliðstæð PMT foreldrafærni (parent management training).

Síðast uppfært 13.03 2024