Hagnýtar upplýsingar

Foreldrum er boðið upp á að kaupa heitan, næringarríkan hádegisverð í skólanum fyrir börn sín. Þeir foreldrar sem þess óska geta skráð börn sín í mat á Matartorgi, matartorg.is eða haft samband við ritara skólans. Nemendum gefst einnig kostur á að kaupa ávexti og mjólk í áskrift til að neyta í nestistímum. Foreldar þurfa að skrá nemendur í þá þjónustu hjá ritara eða á Matartorgi. Ef foreldrar kjósa frekar að senda börnin með nesti að heiman er mikilvægt að nestið sé hollt og gott, fjölbreytt og sykurinnihald í lágmarki.

Að lokinni kennslu gefst nemendum 1. – 4. bekkjar kostur á að vera í Frístund frá skólalokum til kl. 16:15.

Þar geta börnin leikið, verið úti, lesið, hvílt sig og margt fleira. Frístund er opin alla daga sem skólinn starfar og auk þess í fríum á starfstíma skólans og flestum starfsdögum. Foreldrar greiða fyrir vistun nemenda í frístund samkvæmt gjaldskrá. Viðmiðunarreglur fyrir frístund, gjaldskrá og fleiri upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans. Umsjónarmaður frístundar er Sigrún Hlíf Gunnarsdóttir.

Skólahúsið er opnað kl. 7:50 að morgni og kennsla hefst kl. 8:10.

Umsjónarkennarar og ritari geta veitt leyfi í einn til tvo daga. Leyfi í þrjá daga eða lengur skal sækja um til skólastjóra sem veitir leyfið í samráði við umsjónarkennara. Athygli skal vakin á því að skv. 15. gr. grunnskólalaga frá 2008 er öll röskun á námi sem hlýst af leyfum frá skóla á ábyrgð foreldra eða forráðamanna. Þar segir um tímabundna undanþágu barns frá skólagöngu: „Forráðamaður skal sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi á meðan á undanþágu stendur.“ Óski foreldri eftir leyfi fyrir barn sitt frá skóla lengur en í tvo daga þarf að fylla út rafræna leyfisbeiðni á heimasíðu skólans sem sendist sjálfkrafa til skólastjóra. Skólastjóri svarar leyfisbeiðni í tölvupósti og ritari skráir leyfið í Mentor.

Forföll nemenda þarf að tilkynna strax að morgni með því að hringja í skólann. Einnig má skrá veikindi barna á fjölskylduvef Mentor.  Hringt er heim til nemenda ef forföll eru ekki tilkynnt.

Nemendur í 1. – 7. bekk fara út í kennsluhléum. Nemendur í 8.-10. bekk hafa val um hvort þeir dvelji úti eða inni í frítíma sínum. Nemendur þurfa að koma klæddir eftir veðri á hverjum degi. Útivistin er hugsuð sem frjáls tími fyrir nemendur, þar sem þeim gefst tækifæri til að leika sér saman og fá holla hreyfingu.

Ástundunarreglur

Í Oddeyrarskóla eru fjarvistir og óstundvísi skráðar í Mentor og þar safnast upp stig sem segja til um ástundun nemandans. Umsjónarkennari upplýsir nemanda /foreldra vikulega með því að senda ástundun til foreldra í gegnum mentor.is. Ef nemandi/foreldri gera ekki strax athugasemdir við ástundunarfærsluna skoðast hún samþykkt.

 

 • Fyrir að koma of seint í kennslustund fær nemandi 1 stig.
 • Fyrir fjarvist úr kennslustund fær nemandi 2 stig.
 • Fyrir brottrekstur úr kennslustund fær nemandi 3 stig.

 

Ef nemandi er kominn með 10 stig ræðir umsjónarkennari við nemandann og sendir upplýsingar um skólasókn til foreldra/ forráðamanna. 

Ef nemandi er kominn með 20 stig ræðir kennarinn aftur við nemandann, leitar orsaka fyrir vandanum og leitar lausna með honum. Haft er samband við foreldra. 

Ef nemandi er kominn með 30 stig eru foreldrar boðaðir á fund með umsjónarkennara og stjórnanda þar sem er leitað að leiðum til úrbóta.

Ef nemandi fer yfir 40 stig er málinu vísað til nemendaverndarráðs skóla sem m.a. getur óskað eftir aðstoð fræðslu- og  velferðarsviðs. Fagfólk þessara sviða vinnur áfram með málið í samstarfi við skóla. Málastjóri skipaður úr röðum félags- eða skólaþjónustu. 

Fari nemandi yfir 60 stig tekur barnavernd við málinu.

 

Nemandi í Oddeyrarskóla getur, með samþykki foreldra, sótt um að fá fjarvistarstig afskrifuð gegn því að mæta óaðfinnanlega.

 

Um veikindi eða fjarvistir sem ekki eiga sér augljósar skýringar (læknisvottorð eða aðrar upplýsingar sem fyrir liggja)  

 • Umsjónarkennari / skólahjúkrunarfræðingur kallar eftir læknisvottorði fari veikindi fram yfir 10 daga samfellt.  
 • Umsjónarkennari vísar máli nemenda til nemendaverndarráðs fari veikindin yfir 15 daga á önn. Þar er metið til hvaða aðgerða skuli grípa og niðurstaðan skráð. Ef nemandi hefur sögu um veikindi í hverri viku skal fundað með forráðamönnum, umsjónarkennara og stjórnanda og farið yfir stöðuna og næstu skref ákveðin.  
 • Haldi ítrekuð veikindi áfram og viðunandi skýringar fást ekki skal nemendaverndarráð taka ákvörðun um hvort málinu verði vísað áfram til HSN og/eða tilkynnt til barnaverndar. 

 

Leyfi nemanda í lengri tíma s.s. vegna æfinga eða ferðalaga

Umsókn um lengri leyfi nemanda þarf að vera skriflegt og samþykkt af skólastjóra. Taka þarf fram ábyrgð foreldra á námi barnsins og að þeir tryggi að nemandinn haldi námsáætlun skóla.

Stefnumið varðandi umhverfismál:

 • Allur úrgangur sem til fellur í skólanum er flokkaður eins og kostur er. Úrgangi er skilað til endurvinnslu og jarðgerðar eins og framast er unnt, sem allra minnst skal fara til urðunar.
 • Við göngum vel um bæði úti og inni.

Þegar neyðarhringing heyrist verða ALLIR að bregðast við eins og um bruna sé að ræða.

Í öllum kennslustofum Oddeyrarskóla hanga leiðbeiningar með teikningum af útgönguleiðum, nafnalistar og rauð og græn spjöld.

Börn hafa tilhneigingu til að fela sig í bruna og því þarf að leita gaumgæfilega að þeim á öllum hugsanlegum stöðum, s.s. í skotum og undir hlutum. Ekki má tefja björgunarstarf vegna björgunar á hlutum eða með því að klæða nemendur í, t.d. skófatnað.

Ábyrgð:

  • Húsvörður sér um að sýna nýjum starfsmönnum slökkvitæki, brunaboða og útgönguleiðir.
  • Húsvörður gætir þess að allar útgönguleiðir séu alltaf færar.
  • Húsvörður ber ábyrgð á að slökkvitæki séu yfirfarin á hverju ári.
  • Allir starfsmenn bera ábyrgð á að kynna sér rýmingaráætlun skólans og taka virkan þátt á æfingum.
  • Allir starfsmenn bera jafna ábyrgð á að rýma húsnæðið.
  • Allir starfsmenn bera ábyrgð á að yfirgefa húsnæðið sjálfir þegar rýma þarf. Starfsmenn hugi að sínu næsta samstarfsfólki og láti vita ef það saknar þess.
  • Kennari sem kennir hópi ber ábyrgð á honum þar til hættuástandi er aflýst.

 

 • Skólastjóri sér um að haldin sé rýmingaræfing á hverju skólaári, þá sé rýmingaráætlun yfirfarin og kynnt.

 

 

Aðgerðir

 1. Viðvörunarkerfið fer í gang:
 • Húsvörður og skólastjóri/staðgengill skoða stjórnstöð kerfisins, slökkva á bjöllunni og kanna hvaðan boðin koma, fara þangað og athuga hvort um raunverulegan eld sé að ræða. Allir fara í viðbragðsstöðu.
  • Kennarar undirbúa bekki fyrir útgöngu. Nemendur raða sér í röð.
  • Skólaliðar fara á sín svæði (ef þeir eru ekki þar fyrir)
 • Ef um falsboð er að ræða er það tilkynnt til Öryggismiðstöðvarinnar í síma 530 2400.
 • Ef um hættuástand er að ræða fara hljóðgjafar aftur í gang.
  • Skólastjóri/ritari hefur samband við neyðarlínu í síma 112, tilkynnt er um hættu og beðið um rútur fyrir nemendur.
 1. Viðvörunarkerfið fer aftur í gang :
 • Skólinn rýmdur samkvæmt áætlun. Öll svæði rýmd. Útgönguleið könnuð, byrjað á að athuga hvort hurðin sé heit eða hvort reykur sé. Kennari tekur nafnakall. Nemendur ganga hljóðlega út í einfaldri röð, kennari fer síðastur með mætingalistann og lokar dyrunum, læsir ekki.
 • Þeir kennarar sem yfirgefa efsta- og miðgang síðastir rýma snyrtingarnar á þeim hæðum áður en þeir fara niður. Þeir loka dyrum, læsa ekki.
 • Skólaliðar rýma snyrtingar á neðstu hæð og loka dyrum þar inn, læsa ekki. Ef nemendur eru á snyrtingu fylgir skólaliði þeim út um næstu útidyr og til sinnar bekkjardeildar.
  • Skólaliðar á austurgangi rýma snyrtingar að heimilisfræðistofu
  • Skólaliðar á vesturgangi rýma snyrtingar við Frístund, matsal og svæðið undir stiga.
  • Skólaliðar við íþróttahús rýma búningsklefa og snyrtingar á íþróttagangi.
 • Skólaliðar verða staðsettir fyrir framan útganga eftir rýmingu og varna því að farið sé inn í skólann. Beðið eftir tilkynningu frá skólastjórnendum um næstu skref.
 • Nemendur fara á sinn stað á gervigrasvelli.
  • 1. bekkur syðst (næst skólanum) og 10. bekkur nyrst (næst Grenivöllum). Aðrir bekkir raða sér þar á milli í réttri röð.
 • Þar taka kennarar manntal aftur og lyfta upp viðeigandi spjaldi, grænu spjaldi ef allir eru mættir og rauðu spjaldi ef nemanda vantar í hópinn.
 • Ritari tekur með sér nafnalista bekkja og tekur mynd af fjarvistatöflu. Hann fer strax til kennara sem lyfta rauðu spjaldi og ber saman veikindalista og nemendur sem vantar. Ef ritari er ekki við er þetta hlutverk deildarstjóra.
 • Starfsfólk sem statt er annars staðar í skólahúsinu fer stystu leið út og aðstoðar við að koma nemendum í raðir og að halda hurðum opnum ef þarf. Allir aðrir aðstoða við að halda nemendum á sínum stað.
 • Húsvörður, ritarar og skólastjórnendur eru staðsettur við norður- og suðuranddyri skólans.
 • Þegar björgunaraðilar koma á staðinn gefa stjórnendur/húsvörður varðstjóra upplýsingar um stöðu mála.
 • Ef um eld er að ræða og tryggt þykir að hver hópur sé fullskipaður má hann ganga í rútu í skjól.
 • Stjórnendur/björgunarfólk aflýsa hættuástandi úti með því að veifa höndum eftir að ákvörðun hefur verið tekin um það.

Ef eldur kemur upp þegar nemendur eru í frímínútum:

 • Þeir sem eru á útivakt safna nemendum saman á gervigrasvöllinn, raðað eftir bekkjum.
 • Skólaliðar og aðrir kennarar en umsjónarkennarar fara í allar stofur og snyrtingar og ganga úr skugga um að enginn nemandi sé inni.
 • Séu nemendur inni fylgja starfsmenn þeim út um næstu útgöngudyr og loka stofunum, læsa ekki.
 • Aðrir sem eru í skólahúsnæðinu fara stystu leið út og aðstoða þegar út er komið. Umsjónarkennarar finna sinn hóp og eru með þeim á gervigrasvelli.

Verklagsreglur

Tilkynning lögreglu

Ef veður eða færð er með þeim hætti að morgni að lögregla mælir með því að skólahald verði fellt niður, er brugðist við því. Þá fellur niður allt formlegt skólahald í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar, samkvæmt tilmælum lögreglu.

Sviðsstjóri fræðslusviðs er í slíkum tilvikum í sambandi við lögreglu að morgni og kemur tilkynningu í RÚV og Bylgjuna um að kennsla sé felld niður í leik- og grunnskólum á Akureyri. Er þá gert ráð fyrir því að fyrsta tilkynning sé birt kl. 7.00 að morgni.

 

SMS sending

Sviðsstjóri fræðslusviðs sendir þá sms til leik- og grunnskólastjórnenda með tilkynningu um að skólahald falli niður. Skólastjórnendur sendi þá þegar á sína starfsmenn upplýsingar um stöðu mála.

 

Ábyrgð foreldra

Almennt þegar vond vetrarveður ganga yfir verða foreldrar ávallt að meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann ef ekki hefur komið tilkynning frá lögreglu um að skólahald skuli falla niður. Í hverjum skóla er alltaf einhver hluti starfsmanna mættur til að taka á móti þeim börnum sem kunna að mæta, ef upplýsingar um lokun að tilmælum lögreglu hafa ekki náð til foreldra að morgni. Sé barn heima vegna veðurs eða ófærðar þarf að tilkynna það í sms/síma eða með tölvupósti.

 

Ábyrgð skólayfirvalda

Af öryggisástæðum er hver skóli ábyrgur fyrir því að stjórnandi/starfsmaður sé kominn í skólann að morgni fyrir skólabyrjun ef vera skyldi að einhverjir mættu. Þeir eru þá upplýstir um að skólahald falli niður og nemendur/leikskólabörn skuli vera heima. Tryggja skal öryggi ungra grunnskólabarna, að þau séu ekki send ein heim aftur heldur tryggt að ábyrgðaraðili sæki. Af öryggisástæðum verða einhverjir að vera í húsi til kl. 10:00.

 • Ef loftmengun mælist mikil á Akureyri munu skólastjórnendur fara að tilmælum almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra eða Landlæknisembættisins ef þeir aðilar gefa út viðvaranir.
 • Komi til þess að skólanum verði lokað munu upplýsingar um það birtast á heimasíðu skólans.
 • Að öllu jöfnu mun kennsla fara fram eftir stundatöflu þótt Almannavarnir gefi út viðvörun um hátt magn gosefna á svæðinu. Setji Almannavarnir á útgöngubann gildir það að sjálfsögðu um skólastarf. Séu nemendur óvissir um kennslu í skólanum hafa þeir samband við skrifstofu skólans í síma 460-9550.
 • Séu gildi gosmengunar það mikil að mengunin hafi áhrif á einstaklinga sem eru viðkvæmir fyrir áhrifum hennar s.s. vegna asma eða annarra öndunarfærasjúkdóma, meta þeir sjálfir hvort þeir koma í skólann. Nemendur og foreldrar tilkynna fjarveru nemenda til ritara. Starfsmenn tilkynna forföll til ritara eða stjórnenda.
 • Ef send er viðvörun frá Almannavörnum um hátt magn brennisteinsdíoxíðs (SO2) og það mælist meira en 2000 μg/m3 verður slökkt á loftræsingu í skólanum. Þegar slökkt er á loftræstingu í skólanum kólnar innanhúss (ef kalt er í veðri) á u.þ.b. 3-4 tímum. Kennslu verður þá haldið áfram og ástand metið eftir því sem líður á daginn. Kennsla getur orðið með breyttu sniði ef slökkt er á loftræstingu en ekki er gert ráð fyrir að kennsla falli niður nema tilkynning um það komi frá skólameistara. Tilkynningar verða settar á heimasíðu skólans og nemendur og starfsfólk verður látið vita. Kennarar sjá um að loka öllum gluggum í vinnurýmum sínum og kennslustofum ef þeir eru við kennslu. Húsvörður sér um að hækka hitastig á ofnum.

Á heimasíðum ýmissa aðila má fá frekari upplýsingar um gosmengun, áhrif hennar á einstaklinga og viðbrögð við henni.

Landlæknisembættið, vegna upplýsinga um heilsuhættur og leiðbeiningar um hvernig má halda sig frá loftmengandi efnum.

Viðbragðsáætlun má sækja með því að smella á myndina:

Uppfærð 31.01.20