Stoðþjónusta

Oddeyrarskóli starfar samkvæmt hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og leggur mikið upp úr að sinna því sem best. Samkvæmt reglustoðþjónusta1gerð nr. 585/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskólum er skóli án aðgreiningar grunnskóli í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Skóli án aðgreiningar byggir á viðurkenningu og þátttöku allra nemenda. Námskráin er merkingarbær fyrir alla nemendur og námsumhverfið einkennist af margbreytileika. Allir nemendur njóta virðingar og ná besta mögulega árangri. Skólastarf án aðgreiningar er ferli í sífelldri þróun, allt skólastarfið er heildstætt og samþætt og stuðningur er veittur eftir þörfum hvers og eins.

Til að allir fái þá þjónustu sem þeim ber er skipulögð stoðþjónusta innan og utan skólans og geta foreldrar kynnt sér þá þjónstu hér á síðunni. Oft eru þjónustuteymi utan um nemendur þegar á þarf að halda. Í slíku þjónstuteymi sitja í foreldrar, umsjónarkennarar, deildarstjóri og fulltrúi frá fjölskyldudeild (oftast sérkennsluráðgjafi). Í sumum tilvikum koma fleiri einstaklingar að, s.s. skólasálfræðingur, starfsmaður barnaverndar eða starfsmaður BUG teymis á SAK.

 

Í skólanum eru ýmis tæki nýtt til að skima fyrir þáttum í þroska og námi nemenda sem geta haft áhrif á gengi þeirra og líðan í skóla. Mikilvægt er fyrir nemendur að gripið sé sem fyrst inn í þar sem þarf til að skólagangan verði farsæl. Þetta á jafnt við um líðan, heilsu og gengi í námi.

Reglulegar skimanir á lestrarfærni nemenda fara fram í skólanum. Nýlega gaf Menntamálastofnun út  Lesfimipróf fyrir 1. - 10. bekk og viðmið um árangur í þeim. Skólinn nýtir þessi próf til skimunar og eftirfylgni með lestrarþróun hjá nemendum. Að auki er lagt fyrir lesskilningsprófið Orðarún sem er fyrir nemendur 3. - 8. bekkjar.

Logos lesskimunarpróf er lagt fyrir þá nemendur sem eiga í erfiðleikum með lestur og er þetta greiningartæki sem leggur mat á hvort barn er með dyslexiu (lesblindu). Þetta próf er lagt fyrir börn í fyrsta lagi í 3. bekk.

Skimanir í stærðfræði eru lagðar fyrir í 1.  - 3. bekk.

Ef þörf er á að leggja fyrir mat á almennum þroska getur skólinn í samráði við foreldra sótt um slíkt mat í gegnum Fræðslusvið Akureyrarbæjar.

Heilsugæslan sinnir einnig þjónustu við skólabörn í gegnum skólahjúkrunarfræðing sem skimar fyrir ýmsum þáttum tengdum líkamlegri og andlegri heilsu skólabarna. Heimilislæknir er alltaf fyrsti kostur ef áhyggjur eru af heilsu barna og geta þeir vísað málum í réttan farveg ef þörf er á sérhæfðri þjónustu lækna.

Við skólann er starfandi lausnateymi sem hluti af SMT skólafærni.  Í lausnateyminu sitja kennarar (einn af hverju stigi), námsráðgjafi og deildarstjórarnir Rannveig Sigurðardóttir og Fjóla Kristín Helgadóttir.  SMT lausnarteymið vinnur að málefnum einstaklinga eða hópa og geta kennarar geta óskað eftir stuðningi teymisins við lausn slíkra mála.

Velferðarnefnd er vinnur að velferð nemenda við skólann kallast nú velferðarnefnd og gegnir hún hlutverki nemendaverndarráðs og forvarnarteymis gegn einelti.

Nefndin starfar við skólann samkvæmt grunnskólalögum og reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum. Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu, vera skólastjóra til aðstoðar við gerð og framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Þurfi nemandi á sérstakri aðstoð að halda vegna fötlunar, sjúkdóms, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, geta starfsmenn skólans eða foreldrar óskað eftir umfjöllun nemendaverndarráðs. Í ráðinu sitja skólastjóri, deildarstjórar, námsráðgjafi og skólahjúkrunarfræðingur. Auk þess funda reglulega með ráðinu félagsráðgjafi (fulltrúi barnaverndar), sálfræðingur og sérkennsluráðgjafi frá Akureyrarbæ. Nemendaverndarráð fundar alla fimmtudaga kl. 8:30.

Velferðarnefnd vinnur því markvisst að forvörnum gegn einelti auk þess að taka á eineltismálum þegar þau koma upp.

Hlutverk nemendaverndarráðs í eineltismálum:

 • Endurskoða forvarnaráætlun gegn einelti árlega og gera breytingar ef þess gerist þörf.
 • Upplýsa foreldra/forsjáraðila um stefnu skólans í eineltismálum og hvetja þá til að leggja skólanum lið.
 • Aðgerðaráætlun gegn einelti og ofbeldi í Oddeyrarskóla sett á heimasíðu skólans.
 • Foreldrar upplýstir á heimasíðu skólans um hverjir sitja í eineltisnefnd viðkomandi skólaár.
 • Stefnan kynnt á haustfundum og forsjáraðilum gerð grein fyrir mikilvægi þeirra í fyrirbyggjandi aðgerðum og við lausn á eineltismálum.
 • Foreldrum bent á að jákvæð umræða um stefnu skólans í eineltismálum sé mikilvæg þar sem skoðanir þeirra og viðhorf móti skoðanir og viðhorf barna þeirra. Foreldrar beðnir um að ræða við börn sín um einelti og afleiðingar þess.
 • Á fyrsta fundi velferðarnefndar að hausti kynnir fulltrúi úr eineltisnefndinni áætlun vetrarins.
 • Í upphafi skólaárs kynna skólastjórnendur/eineltisnefnd starfsfólki áætlunina. Fjallað er um aðferðir, gagnasöfnun og samskiptaleiðir.

Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta er veitt af skólateymi fræðslusviðs Akureyrarbæjar. Í skólateyminu eru sálfræðingar og sérkennarar. Þeir taka við óskum um aðstoð frá skólanum og eru foreldrar hvattir til að ræða við umsjónarkennara, námsráðgjafa eða stjórnendur ef þeir hafa áhuga á að leita aðstoðar eða ráðgjafar hjá skólateymi fræðslusviðs. Einnig geta foreldrar leitað beint til skólateymis. Fundir nemendaverndarráðs koma málefnum nemenda til skólateymis fræðslusviðs. Tengiliður skólaþjónustu er Fanný Rut Meldal (fanny@akureyri.is). Tengiliður barnaverndar við skólann er Þórdís Gísladóttir (disag@akureyri.is).

Heilsugæslu í grunnskólum Akureyrar er sinnt af hjúkrunarfræðingum frá Heilsugæslustöðinni á Akureyri. Hjúkrunarfræðingur skólans er Ingibjörg S. Ingimundardóttir (isi@akmennt.is). Hún er í 30% starfi við skólann. Viðverutími hennar er þriðjudaga og fimmtudaga frá klukkan 08:30-14:00 og annan hvern mánudag 08:30-14:00. Foreldrar geta ávallt leitað ráðgjafar hjá skólaheilsugæslunni varðandi andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði barnsins.

 • Markmið skólaheilsugæslu er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við alla sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Starfsemi skólaheilsugæslunnar er samkvæmt lögum, reglugerðum og tilmælum sem um hana gilda. Í henni felast skoðanir, bólusetningar og heilbrigðisfræðsla, ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans.
 • Skólaheilsugæsla sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar sem er samstarfsverkefni skólaheilsugæslunnar og Lýðheilsustöðvar. Eftir fræðslu fá foreldrar sent fréttabréf í tölvupósti. Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.
 • Skólaheilsugæslan hefur umsjón með lyfjagjöfum skólabarna í samráði við foreldra. Einungis eru gefin lyf sem ávísuð eru af lækni. Hafa ber í huga að barn getur ekki í neinu tilviki sjálft borið ábyrgð á lyfjatökunni, ábyrgðin er foreldranna. Börn skulu ekki hafa lyf undir höndum í skólanum nema í undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlíngjafir sem barnið sér sjálft alfarið um. Mikilvægt er að foreldrar láti skólahjúkrunarfræðing vita ef barnið er á lyfjum, jafnvel þó að barnið taki ekki lyf á skólatíma.
 • Mikilvægt er að skólaheilsugæslan viti af börnum sem eru með langvinnan og/eða alvarlegan sjúkdóm, s.s. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma.
 • Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forrráðamenn fara með barninu.
 • Skoðanir og bólusetningar eru framkvæmdar af skólaheilsugæslu sem hér segir:
  • 1. bekkur; Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling.
  • 4. bekkur; Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling.
  • 7. bekkur; Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling.
  • 9. bekkur; Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling.

Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til.

 

BÓLUSETNINGAR:

  • 7. bekkur; Bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt. Stúlkur bólusettar gegn HPV (leghálskrabbamein).
  • 9. bekkur; Bólusett gegn mænusótt, barnaveiki, stífkrampa og kíghósta.
 • Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæsluna. Bólusetningar barna eru alltaf á ábyrgð foreldra.

 

Þuríður Lilja Rósenbergsdótir er náms- og starfsráðgjafi við skólann í 80% starfi. Hún er að jafnaði í skólanum mánudaga - fimmtudaga kl. 8-16. Helstu verkefni námsráðgjafa eru að veita nemendum og foreldrum ráðgjöf varðandi námið og skipulag þess. Skrifstofa námsráðgjafa er í starfsmannaálmu og geta nemendur og foreldrar óskað eftir viðtali í samráði við umsjónarkennara og ritara einnig er hægt að bóka tíma í gegnum síma 460-9550 eða senda tölvupóst á thl@akmennt.is.

Helstu verkefni náms- og starfsráðgjafa eru:

 • Að standa vörð um velferð nemenda og starfa í þágu þeirra.
 • Að vera trúnaðarmaður og málsvari nemenda.
 • Leita lausna í málum nemenda.
 • Gæta þess að nemendur búi við jafnrétti og að jafnréttis sé gætt gagnvart þeim innan skólans.
 • Móttaka nýrra nemenda.
 • Leiðsögn um nám og skipulag.
 • Bæta vinnubrögð og námstækni.
 • Aðstoða nemendur við að átta sig á hvar áhugasvið þeirra liggja.
 • Stuðningur og ráðgjöf vegna erfiðleika í námi eða utan þess.
 • Hjálpa nemendum að leita sér aðstoðar jafnt  innan sem utan skóla.
 • Sinna fyrirbyggjandi starfi með fræðslu í minni og stærri hópum.

Námsráðgjafi er bundinn þagnarskyldu um einkamál nemenda, að undanskyldum ákvæðum í lögum um barnavernd nr. 80/2002.