Umbætur í skólastarfi

Kennarar þróa starfshætti sína markvisst og í vetur er áfram lögð áhersla á innleiðingu lærdómssamfélags í Oddeyrarskóla. Skólinn er með Erasmus styrk til starfsþróunar kennara auk styrkja frá Endurmenntunarsjóði grunnskóla til að vinna að því að efla skólann sem heilsueflandi grunnskóla, vinna áfram að innleiðingu DAM verkefnis og gefa kennurum kost á að heimsækja skóla erlendis sem náð hafa langt á ýmsum sviðum sem við leggjum áherslu á í Oddeyrarskóla.

Í skólanum er sífellt leitað leiða til að gera með skýran tilgang og markmið og leitast við að mæta þörfum allra nemenda. Þessi þróun snýr að stórum hluta að lestrar- og læsisnámi nemenda. Akureyrarbær er nú kominn með metnaðarfulla læsisstefnu sem sjá má á vefsíðunni http://lykillinn.akmennt.is

Megináherslur Oddeyrarskóla á skólaárinu 2018-2019 eru að efla áfram færni kennara og nemenda til að nota samræður til náms. Áfram verður unnið að því að efla notkun upplýsingatækni í námi nemenda, að vinna markvisst að bættri líðan og samskiptafærni nemenda með hjálp DAM verkefnisins og ART þjálfunar. DAM verkefni skólans hefur verið styrkt af KEA, Sprotasjóði og Lýðheilsusjóði og verður fjármunum varið til að mennta kennara til að nota aðferðina, kaupa gögn sem mikilvæg eru í vinnu með nemendum og greiða að hluta fyrir þann faglega stuðning sem við fáum utan frá. DAM snýst í megindráttum um að vinna með streituþol, samskiptahæfni, núvitund og tilfinningastjórn. Þessi hugmyndafræði hefur lengi verið notuð sem meðferðarúrræði hjá börnum með þunglyndi eða sjálfskaðandi hegðun, en hefur á síðustu misserum verið aðlöguð og nýtt í forvarnarskyni í bandarískum skólum. Nýlega var gefið út námsefni á ensku sem tengist efninu og gott er að styðjast við. Unnið er að því að þýða handbókina á íslensku og er Oddeyrarskóli tilraunaskóli við að innleiða efnið.

Á undangengnum árum hefur verið mikil gróska innan Oddeyrarskóla um nám og kennslu í upplýsingatækni. Þróun skólans í notkun Google for Education hefur skipað stóran og fastan sess í daglegri vinnu nemenda og kennara og það býður umhverfið sífellt upp á nýjungar. Nemendur eru í auknum mæli að læra heimasíðugerð og hafa kennarar verið að læra forritun til að geta gefið nemendum tækifæri til að læra hana. Á síðasta ári hlaut skólinn aftur styrk frá Forriturum framtíðarinnar sem gaf  kennurum tækifæri til að sækja framhaldsnámskeið í forritun. Kennarar munu halda ótrauðir áfram.

Síðast uppfært 05.07 2018