Samstarf

Skólinn er í nánu samstarfi við ýmsa aðila með það að markmiði að auka fjölbreytni í námi.

Samvinna milli heimila og skóla

Mikilvægt er að hver skóli hafi stefnu um markvissa samvinnu heimila og skóla. Oddeyrarskóli leggur ríka áherslu á farsælt samstarf heimila og skóla, byggt á samvinnu og gagnkvæmri virðingu.  Til þess að nemendur njóti sín sem best er mikilvægt að skólinn og heimilin séu samstíga og vinni saman að velferð nemenda. 

Á árunum 2002 – 2006 var unnið þróunarverkefnið í Oddeyrarskóla um bætt samstarf heimila og skóla.  Einn liður í þróunarverkefninu var að koma á fót heimsóknum á heimili nemenda. Markmið verkefnisins var að skapa umgjörð um jákvæð samskipti heimila og skóla til þess að efla námslega og félagslega færni nemenda. Ákveðið að skipuleggja náið samstarf umsjónarkennara við foreldra nemenda í 1. bekk og 8. bekk.  Þessar heimsóknir hafa náð að festast í sessi og býðst foreldrum  nemenda í 1. og 8. bekk að fá umsjónarkennara barna sinna í heimsókn til að ræða um skólastarfið og líðan nemenda. Heimsóknin til nemenda í 1. bekk er örstutt vorið áður en nemendur byrja í skólanum. Umsjónarkennarar nemenda í 8. bekk heimsækja sína nemendur í upphafi skólaárs. Í heimsókninni er rætt það helsta sem fjölskyldunni liggur á hjarta varðandi komandi vetur. Ef foreldrar vilja ekki fá kennara heim má að sjálfsögðu hafa samtalið í skólanum. 

Áhersla er á gagnkvæma upplýsingagjöf milli heimilis og skóla um nám, kennslu og líðan. Á heimasíðu birtast almennar fréttir en fjölskylduvefurinn Mentor er nýttur til upplýsingagjafar um stöðu nemenda. Náms – og kennsluáætlanir eru aðgengilegar og niðurstöður prófa og kannana kynntar. Umsjónarkennarar senda föstudagspóst í hverri viku með upplýsingum um skólastarfið. 

Áherslur í samstarfi eru ræddar á fundum með foreldrum, kennarar meta hverskonar samstarf skilar árangri og leita nýrra leiða til að efla það. Sérstök áhersla er á aukið samstarf þegar barn þarf sérstakan stuðning.

Lögð er áhersla á að foreldrar upplifi jákvætt viðmót og að starfsfólk sýni skilning og áhuga á að vinna með foreldrum. 

Í Oddeyrarskóla starfar virkt foreldrafélag sem hvetur alla til þátttöku í leik og starfi og styður við skólastarfið á ýmsan hátt. 

Samstarf milli skóla og skólastiga

Mikilvægt er að á milli leik,- grunn,- og framhaldsskóla séu virk tengsl og miðlun upplýsinga sé góð. Til að tryggja samfellu og stuðla að velferð nemenda er nauðsynlegt að samræmi og samhengi sé í menntun. Í skólabænum Akureyri eru öll skólastig starfandi og mikilvægt að nýta þau tækifæri sem það hefur upp á að bjóða. Samstarf vinabekkja innan skóla og milli skóla stuðlar að jákvæðum skólabrag og meira öryggi og vellíðan nemenda. Samstarf milli skólastiga stuðlar einnig að víðsýni og auknum skilningi kennara á námi nemenda og starfi kennara á öllum skólastigum.

Í Oddeyrarskóla er leitast við að skapa samfellu í námi, koma til móts við þarfir nemenda og auka þannig vellíðan og öryggi þeirra þegar þeir flytjast milli skóla og skólastiga. Sérstök áhersla er lögð á að fylgja nemendum með sérþarfir vel eftir milli skólastiga. Kennarar leik- og grunnskóla hittast að hausti og gera áætlun um samstarf vetrarins þar sem fram koma allar heimsóknir milli skólanna og þau viðfangsefni sem tekin eru fyrir á hvorum stað. Nemendum í efstu bekkjum fá kynningar frá og/eða fara í heimsóknir til framhaldsskólanna í næsta nágrenni.  Auk þess sem námsráðgjafi Oddeyrarskóla er í góðu samstarfi við námsráðgjafa framhaldsskólanna. Nemendur á unglingastigi eiga þess kost að velja valgreinar í framhaldskólum bæjarins.

Um nokkurra ára skeið hefur verið virkt samstarf vinabekkja innan Oddeyrarskóla.  Nemendur 1. bekkjar eru vinabekkur nemenda 8. bekkjar og hvert barn fær eldri nemanda sem sinn vin. Eldri nemendur aðstoða yngstu börnin í frímínútum fyrstu viku skólaársins og þegar unnin eru verkefni þvert á skólann er þess gætt að nemendur í 1. bekk séu í hóp með vini sínum í 8. bekk.  Samstarf vinabekkja er einnig af ýmsum öðrum toga. Vinabekkjarpörin halda upp í 10. bekk þannig að nemandi í 3. bekk á vin í 10. bekk.

Samstarf við nærsamfélagið 

Mikilvægt er að hver skóli vinni náið með nærsamfélagi sínu. Oddeyrin á sér langa og áhugaverða sögu og veitir gott tækifæri til að tengja við nám. Atvinnulíf er fjölbreytt á Oddeyri og því nærtækt að kynna nemendum ólík fyrirtæki, framleiðsluferli og fjölbreytt störf og tengja við nám þeirra. 

Viðfangsefni sem tengja námið við daglegt líf og starfsvettvang efla læsi nemenda á umhverfi sitt. 

Í Oddeyrarskóla er lögð áhersla á að nemendur og starfsfólk vinni náið með nærsamfélaginu í því skyni að auka námsáhuga, dýpka nám og öðlast víðsýni. Námið er sett í raunverulegt samgengi með vettvangsheimsóknum sem eru undirbúnar og nýttar í samhengi við námsmarkmið. 

Nemendur afla sér upplýsinga áður en farið er í vettvangsferðir, skipuleggja þær í samvinnu við kennara, safna upplýsingum á vettvangi og vinna úr þeim. Margar stofnanir bæjarins bjóða upp á vettvangsferðir, ekki síst söfnin og eru þessi tækifæri nýtt til að dýpka nám nemenda, sérstaklega þegar unnið er með ákveðin þemu.  

Síðast uppfært 18.10 2022