Grunnþættir menntunar

Í aðalnámskrá grunnskóla eru skilgreindir sex grunnþættir menntunar; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir sem tengjast allir innbyrðis og eru jafnframt háðir hver öðrum eiga samkvæmt aðalnámskrá að endurspeglast í daglegu skólastarfi og vera sýnilegir í skólanámskrá hvers skóla. Í Oddeyrarskóla er leitast við að gera þessum þáttum góð skil í öllu skólastarfi. Sem dæmi má nefna að nemendur skólans hafa tekið þátt í málþingum sem lúta að innra starfi skólans og bæði forseta- og alþingskosningum barna. Læsi fléttast auðveldlega inn í hvaða kennslugrein sem er. Í læsi felst að nemendur verðir færir um að afla sér þekkingar gegnum lestur bóka og hljóðbóka og annarra miðla. Hugtakið læsi nær til þátta sem fjalla um skilning og merkingarsköpun nemenda og vinnum við stöðugt að því á margvíslegan hátt. Nemendur lesa og kynna sér ákveðið efni, jafnvel er eitthvað þema til umfjöllunar, rýna í efnið með það að leiðarljósi að geta á endanum rætt efnið við aðra og sagt frá því munnlega, skriflega, myndrænt eða á hvern þann hátt sem hentar.

Haustið 2016 hóf Oddeyrarskóli þátttöku í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli með það að markmiði að vinna markvisst að heilsueflingu. Í verkefninu er lögð áhersla á að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan allra sem í skólanum starfa. Nánar er fjallað um framkvæmd á heilsueflingu í Oddeyrarskóla og heilsustefnu á heimasíðu skólans. Hér má sjá góðar hugmyndir að nesti nemenda.

Oddeyrarskóli tekur þátt í verkefni sem Jafnréttisstofa heldur utan um og nefnist  “Rjúfum hefðirnar förum nýjar leiðir”. Jafnréttisstofa sinnir eftirfylgni, fræðslu og ráðgjöf við þátttakendur. Verkefnið er samstarfsverkefni skóla, vinnustaða, fagfélaga og annarra sem láta sig jafnréttismál varða. Skólar sem taka þátt eru; Háskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Oddeyrarskóli og Lundasel og  svo félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Nemendur í 9. bekk og í 5. og 6. bekk munu taka þátt í verkefninu.  Markmið verkefnisins er að breyta hefbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla sbr. 4. gr. jafnréttislaga.  

Megináherslur verkefnisins eru m.a. að 

  • Stuðla að jafnrétti kynjanna í menntun, starfsþjálfun og ráðgjöf
  • Ögra hefðbundnum staðalmyndum um hlutverk karla og kvenna á vinnumarkaði
  • Vinna gegn /brjóta upp hegðun sem vinnur gegn jafnrétti kynjanna

Í Oddeyrarskóla er lögð áhersla á hið talaða mál og samræður í öllum myndum. Við viljum að nemendur okkar verði smám saman færir um að tjá hugsun sína skýrt, greina það sem sagt er og hugsa um það á gagnrýninn hátt. Einnig að þeir eigi auðvelt með að tjá sig opinberlega af öryggi. Þetta er liður í því að mennta nemendur til lýðræðislegrar þátttöku og sjálfbærni. Sjálfbærnimenntun miðar meðal annars að því að skapa samábyrgt samfélag. Í gegnum uppeldisstefnu skólans og umræður um skólareglur, samskiptareglur og umgengni við allt í okkar umhverfi er markvisst unnið að þessari menntun.

Lýðræðislegir starfshættir skólans birtast í aðkomu nemenda og starfsmanna að því að móta skólastarfið með einhverjum hætti. Skólaþing skal halda ár hvert þar sem tekin eru fyrir málefni sem brýnt þykir að ræða á breiðum grundvelli. Allir geta komið með tillögur að umræðuefni. Við skólann starfa einnig ýmsar nefndir og ráð sem geta haft áhrif á skólastarfið. Í gegnum þemavinnu fá nemendur oft val um vinnulag, umfjöllunarefni og taka þátt í mótun daglegra starfshátta með þessari þátttöku.

Til að auka vinnu við sköpun, nýsköpun og upplýsingatækni hefur skólinn kennt smiðjur í 1. – 7. bekk. Boðið upp á smiðjur í  textílmennt, heimilisfræði, tónlist, myndlist og smíðum. Unglingar hafa meira val og geta valið um margvísleg verkefni þar sem sköpun er lykilatriði. Á unglingastigi er einnig unnið mikið í þemum þar sem greinar eru samþættar og nemendur hafa val um úrvinnslu verkefna og skipuleggja sjálfir leiðir að markmiðum. Upplýsingatækni er fléttuð inn í allt starf skólans. Nemendur hafa gott aðgengi að ýmiskonar tækjabúnaði og fá þjálfun í notkun þess. 

Síðast uppfært 18.10 2022