Dagur læsis
Í tilefni af alþjóðlegum degi læsis, þann 8. september, hefur Félag læsisfræðinga á Íslandi tekið saman upplýsingar með ráðleggingum um mikilvægi heimalestrar og hvernig nýta má gagnvirkan lestur til að efla lesskilning. Við hvetjum foreldra til að kynna sér ráðleggingarnar, þær eru einfaldar og aðgengilegar.
Föruneyti barna
Tengjumst í leik (e. Invest in play) er námskeið fyrir foreldra og forráðamenn barna þar sem áhersla er lögð á jákvæð samskipti og samveru foreldra og barna í gegnum leik. Með því myndast góð tengsl milli foreldra og barna og samband þeirra styrkist. Efni og innihald námskeiðsins er byggt á gagnreyndum aðferðum og rannsóknum á alþjóðlegum vettvangi.
Rannsóknir hafa sýnt að börn sem eiga foreldra sem setið hafa námskeiðið öðlast aukið sjálfstraust, tilfinningalæsi og félags- og námsfærni. Foreldrafræðslan Tengjumst í leik hefur því margþættan ávinning fyrir börn, foreldra og samfélagið í heild.
Oddeyrarskóli heldur námskeið fyrir foreldra barna í 1. bekk þeim að kostnaðarlausu. Námskeiðið er unnið í samvinnu við þróunarverkefnið Föruneyti barna – samstarfs um stuðning við uppeldi og nám á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Barna- og menningarmála ráðuneytisins. Nánar má lesa um verkefnið hér.
Markmið námskeiðsins er að valdefla foreldra í uppeldishlutverki sínu. Námskeiðið er 12 vikur, og mun hefjast í 3. viku september, kennt er vikulega tvær klst. í senn. Foreldrar fá handbók og æfingabók á íslensku eða ensku, sem unnin er samhliða handleiðslu. Kennarar á námskeiðinu eru þær Linda Rós verkefnastjóri velferðar og Margrét deildarstjóri yngri deildar en þær sóttu leiðbeinendanámskeið hjá Invest in play nú á haustdögum og hafa víðtæka reynslu af foreldrasamstarfi.
Skólabyrjun 2024
Skólasetning verður í Oddeyrarskóla 22. ágúst. Við þrískiptum setningu en nemendur mæta í íþróttasalinn og fara síðan í heimastofur í fylgd kennara. Foreldrar eru velkomnir með á skólasetningu.
2. – 4. bekkur klukkan 9:00
5. – 7. bekkur klukkan 9:30
8. – 10. bekkur klukkan 10:00
Nemendur og foreldrar í 1. bekk mæta ekki á skólasetningu en fara í viðtal hjá umsjónarkennara.