Farsæld barna
Kæru foreldrar / forráðamenn leik- og grunnskólanemenda á Akureyri
Eins og mörgum er kunnugt, þá stendur yfir innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, sem í daglegu tali eru kölluð farsældarlögin. Nú er kominn nýr og aðgengilegur vefur sem kallast Farsæld barna og þar má finna nánari upplýsingar um hvað löggjöfin felur í sér og hvert hlutverk tengiliða er. Einnig má sjá aðgengilegt myndband sem lýsir í stuttu máli því sem lögin innibera.
Samkvæmt lögunum eiga börn og foreldrar að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.
Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í skóla. Á heimasíðu skólans, https://oddeyrarskoli.is/tengilidir/ , má sjá hverjir hafa hlutverk sem tengiliðir í Oddeyrarsóla. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni. Foreldrar og börn geta leitað sjálf beint til tengiliðar eða sent beiðni í gegnum Þjónustugátt Akureyrarbæjar.
Með góðri farsældarkveðju,
Helga Vilhjálmsdóttir, innleiðingarstjóri farsældarlaga á fræðslu- og lýðheilsusviði
Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs
Anna Bergrós Arnarsdóttir, skólastjóri Oddeyrarskóla

Bækur að gjöf frá foreldrafélagi
Bókasafni skólans barst á dögunum vegleg bókagjöf frá foreldrafélaginu. Fulltrúi foreldrafélagsins fór ásamt skólasafnskennara á bókamarkaðinn sem nú stendur yfir hér fyrir norðan, og fundu talsvert af bókum sem vantaði á safnið sem og vinsælum bókum sem gott er að eiga í fleiri en einu eintaki.
Skólinn þakkar foreldrafélaginu kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.

Göngum í skólann
Oddeyrarskóli er heilsueflandi grunnskóli og við tökum þátt í þeim átaksverkefnum á landsvísu sem henta í skólastarfi. Göngum í skólann er eitt af þeim verkefnum og hefst á morgun. Við hvetjum alla, starfsmenn og nemendur til að ganga eða hjóla í skólann í stað þess að koma á einkabíl. Kennarar halda utan um skráningar en það er keppni um að fá sem flesta til að vera með. Af þessu tilefni munu allir nemendur og starfsmenn fá að gjöf endurskinsmerki sem við hvetjum foreldra til að hengja strax á yfirhafnir barnanna.
