Skólaslit 6. júní

Skólaslit Oddeyrarskóla verða 6. júní næstkomandi. Nemendur í 1. – 7. bekk mæta í íþróttasal skólans klukkan 9:00 en fylgja síðan umsjónarkennara í stofur og eiga kveðjustund þar.

Skólaslit 8. – 10. bekkjar og útskrift nemenda í 10. bekk verða klukkan 14:30. Nemendum í 10. bekk og aðstandendum þeirra er boðið í kaffi að athöfn lokinni.

Foreldrar og forráðamenn eru velkomnir á skólaslit.

Helga Hauksdóttir fyrrum skólastjóri fær viðurkenningu

Föstudaginn 26. maí hélt Betadeild, Delta, Kappa, Gamma upp á 45 ára afmæli sitt. Á þeim tímamótum var tilefni til að heiðra konu fyrir vel unnin störf að mennta- og/eða menningarmálum. Að þessu sinni varð Helga Hauksdóttir fyrir valinu en hún hefur lagt mikið að mörkum í mennta- og fræðslustörfum og unnið afar óeigingjarnt starf sem kennari, skólastjóri og kennsluráðgjafi erlendra nemenda.

Þegar Helga var skólastjóri í Oddeyrarskóla var þar móttökudeild fyrir nýbúa en árið 2012 var deildin lögð niður og nemendurnir fóru í sína heimaskóla. Helga tók þá við nýju starfi hjá Akureyrarbæ, starfi kennsluráðgjafa erlendra nemenda. Það starf mótaði hún og þróaði áfram af mikilli elju og ástríðu. Hún fór m.a. á milli grunnskóla bæjarins til að kenna nemendum og vinna með kennurunum auk þess að vera í góðu sambandi við fjölskyldur nemenda. Þörfin fyrir ráðgjöf til kennara, námsefni, stuðning við nemendur og kennara, upplýsingar til fjölskyldna um ýmis mál og fleira var mikil. Meðfram þessari vinnu bjó Helga til heimasíðuna erlendir.akmennt.is þar sem hún kom miklu efni þar inn sem hún taldi að gæti nýst öllum aðilum. Frá árinu 2012 hefur erlendum nemendum fjölgað svo um munar í grunnskólum Akureyrar og er brautryðjendastarf Helgu í þessum málaflokki afar mikilvægt og hefur án efa komið öllum til góða. Á myndinni er Aðalheiður Bragadóttir formaður Betadeildar á Akureyri

Við í Oddeyrarskóla óskum Helgu hjartanlega til hamingju með þessa viðurkenningu.

Námskeið fyrir foreldra og forráðamenn

Mánudaginn 15. maí kl. 20.15 verður haldinn fundur í Háskólanum á Akureyri um mikilvægi samvinnu foreldra fyrir velferð barna. Um er að ræða fræðslufund fyrir foreldra og forsjáraðila barna á vegum landssamtakanna Heimilis og skóla fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Leitað verður svara við spurningum á borð við: Hvernig get ég sem foreldri lagt mitt að mörkum til að auka vellíðan barnsins míns og skiptir samvinna foreldra máli þegar kemur að farsæld barnanna okkar?

Foreldrar og forsjáraðilar barna í bænum eru hvattir til að mæta á fundinn sem haldinn verður í hátíðarsal Háskólans á Akureyri mánudaginn 15. maí frá kl. 20.15 til 21.30. Fundurinn verður einnig aðgengilegur í streymi fyrir þá sem ekki komast en til að fá link þarf að skrá sig með netfangi.

Mikilvægt er að skrá sig á fundinn.