Heilsuvika

Í tilefni heilsuvika hafa nemendur á unglingastigi verið að vinna verkefni tengdum heilsu í þematímum. Nemendur unnu í hópum og útbjuggu fræðslu fyrir yngri nemendur skólans og höfðu bæði yngri og eldri nemendur gagn og gaman af.

Í tilefni af heilsuvikunni var boðið upp á auka íþróttatíma fyrir öll stig í íþróttasalnum undir stjórn Baldurs íþróttakennara. Að lokum var svo keppni í anda skólahreystiskeppninnar en minni í sniðum. Þar kepptu fulltrúar allra árganga á unglingastigi og starfsmenn í boðhlaupi en allir nemendur skólans komu og horfðu á og hvöttu sín lið. Að lokum var svo tilkynnt um úrslit í störnuleiknum en vinningshafar fara með fulltrúum úr SMT teymi og gera sér glaðan dag hluta úr skóladegi í vikunni á eftir. 

Lestarkeppnin Upphátt

Í vikunni var undankeppni Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri. Þar lásu nemendur úr 7. bekk upphátt mismunandi texta. Allir keppendur stóðu sig mjög vel, en að lokum þurfti að velja tvo nemendur til að keppa fyrir hönd skólans í lokakeppninni sem haldin verður 7. mars næstkomandi í Hofi. Kirsta og Emma lásu best að mati dómnefndar. Við óskum þeim innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með þeim í lokakeppninni í næstu viku. 

Starfamessa 29. febrúar

Fimmtudaginn 29. febrúar frá kl. 9:00 – 10:00 verður nemendum í 9. og 10. bekk Oddeyrarskóla boðið að koma á starfamessu í HA til þess að kynna sér fjölbreytt störf og fyrirtæki á svæðinu.