Útivistardagur 16. september

Miðvikudaginn 16. september er útivistardagur í Oddeyrarskóla, en þessi dagur er dagur íslenskrar náttúru. Veðurhorfur eru góðar þennan dag. Farið verður með rútum frá skólanum að bílaplaninu við Súlur. Nemendur yngsta stigs fara í gönguferð og berjamó í brekkum að Fálkafelli. Nemendur miðstigs og unglingastigs hafa val um mismunandi gönguleiðir, þ.e. að Glerárstíflu, Fálkafell-Gamli-Hamrar, eða Súlur. Nemendur koma heim með rútum sem fara á mismunandi tíma, frá 11:30-13:30. Hádegismatur er í boði við heimkomu. Lok skóladags eru skv. stundaskrá en þeir sem fara alla leið á Súlur gætu komið seinna heim en stundaskrá segir til um. Mikilvægt er að vera klæddur eftir veðri, á góðum skóm og með hollt og gott nesti.

Skólabyrjun 2020

Skólasetning Oddeyrarskóla verður á sal skólans mánudaginn 24. ágúst. Nemendur mæta:

kl. 9:00, 2. – 4. bekkur

kl. 9:30, 5. – 6. bekkur

kl. 10:00, 8. – 10. bekkur

Skólastjóri setur skólann en nemendur fylgja svo umsjónarkennara í sínar heimastofur. Dagskráin þennan dag tekur 30-45 mínútur. Að þessu sinni óskum við eftir að nemendur mæti án foreldra en við viljum takamarka umgengni annara en starfsmanna og nemenda um skólahúsnæðið eins og kostur er. Nemendur 7. bekkjar fara að Reykjum kl. 8:30 um morguninn. Foreldrar nemenda sem hefja nám í 1. bekk verða boðaðir í viðtal 24. eða 25. ágúst.

Unicef hreyfingin

Nemendur skólans söfnuðu 299.752 krónum í Unicefhreyfingunni sem fram fór á vordögum. Nemendur söfunuðu áheitum og komu með peninga í skólann í lokuðu umslagi en aðstandendur gátu einnig lagt beint inn á reikning samtakanna. Áheitasöfnunin verður nýtt þar sem neyðin er mest og í langtímauppbyggingu í samfélögum þar sem grunnstoðir þarf að bæta s.s. til kaupa á matvælum, hreinlætisvörum og bóluefni.

Viðurkenning fræðsluráðs

Samkvæmt skólastefnu Akureyrarbæjar skal árlega, veita þeim einstaklingum eða stofnunum sem skarað hafa fram úr í skólastarfi viðurkenningar. Markmiðið er að vekja sérstaka athygli á því sem vel er gert og hvetja þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna og jafnvel gera enn betur. Viðurkenning er einnig staðfesting á að viðkomandi skóli/kennari/nemandi er fyrirmynd annarra á því sviði sem viðurkenning nær til. Að þessu sinni fékk Þura Björgvinsdóttir nemandi viðurkenningu og Einar Magnús Einarsson tölvuumsjónarmaður skólans.

100 miða leikur

Mánudaginn 11. maí höldum við áfram með 100 miða leikinn. Við tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið en þegar samkomubann með skertu skólastarfi skall á vorum við hálfnuð í leiknum.

Starfsmaður  fær afhentar tvær  “stjörnur” og gefur nemendum sem fara eftir reglum. Nemendur fara síðan með stjörnuna sína til ritara sem skráir niður og sendir póst heim skv. vinnureglum. Áætlað er að tilkynnt verði um vinningsröð miðvikudaginn 20. maí og farið verði í umbun með þeim heppnu.


Börn á reiðhjólum

Þar sem sólin er farin að hækka á lofti og snjórinn nánast farinn eru margir búnir að taka fram reiðhjólin sín sem er hið besta mál. Við brýnum fyrir fólki að fara að öllu með gát og huga að öryggi barnanna. Hér má sjá hjólareglur Oddeyrarskóla.

Öll börn þurfa að hafa hjálm og hann verður að passa barninu og sitja rétt á höfðinu. Athugið að þykkar húfur geta breytt því hvernig hjálmurinn hlífir.

Það þarf að huga að settum umferðarreglum en í Umferðarlögum: 44. gr. má sjá eftirfarandi: “Börn og reiðhjól. Barn yngra en níu ára má ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri. Hjólreiðamaður sem náð hefur 15 ára aldri má reiða börn yngri en sjö ára, enda séu þeim ætluð sérstök sæti og þannig um búið að ekki stafi hætta af hjólteinunum”.

Börn yngri en 9 ára mega því ekki fara ein síns liðs um gatnakerfið ef þau þurfa að vera á akbrautum. Hjóli börn yngri en 9 ára á milli staða, verða þau að komast leiðar sinnar eftir gangstígum, gangstéttum og gangbrautum. Akbrautir eru bannsvæði, nema undir eftirliti þeirra eldri. Leiðbeinum þeim yngstu og sýnum ábyrgð.

Þá brýnum við fyrir þeim sem eru á vélknúnum hjólum að fara að öllu með gát en hér má sjá reglur um létt bifhjól 1.

Frekari takmörkun skólastarfs í grunnskólum Akureyrar

Í ljósi nýjustu tilmæla Almannavarna þarf að endurskoða skipulag skólastarfs frá og með þriðjudeginum 24. mars. Sóttvarnir eru forgangsmál hjá öllum í samfélaginu og eiga þær við allsstaðar og alltaf. Hólfun skóla verður enn markvissari en verið hefur og tekið verður fyrir allan ónauðsynlegan samgang á milli þeirra hvort sem um nemendur eða starfsfólk er að ræða.

Nú er okkur gert að fækka í hópum eldri nemenda og skólar munu því vinna samkvæmt því sem hér segir:

  • 1.-4. bekkur verður áfram fram til hádegis í skólanum skv. sama skipulagi og verið hefur.
  • 5.-7. bekk verður skipt í tvo hópa og mæta nemendur annan hvern dag samkvæmt nánara skipulagi sem ykkur berst frá hverjum skóla.
  • 8.-10. bekkur verður alfarið í heima- og sjálfsnámi með aðstoð kennara

Eindregin tilmæli eru um að þeir foreldrar sem eru heima yfir daginn og geta haft börn sín heima geri það. Það styrkir enn frekar sóttvarnir og auðveldar starfsfólki að halda uppi reglubundnu starfi.

Bestu þakkir fyrir ríkan skilning á stöðunni og það er gott að finna hvernig samtakamátturinn fleytir okkur áfram við aðstæður sem þessar.

Karl Frímannsson
sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar

Fréttir af skólastarfi

Skólastarfið hefur gengið vel í Oddeyrarskóla þrátt fyrir takmarkanir í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu og gerum við okkar besta til að  mæta nemendum með fjölbreyttum leiðum í námi. 

Allir nemendur skólans eru í námshópum sem ekki blandast á skólatíma. Í hverjum hópi eru að hámarki 20 nemendur. Nemendur 1. – 7. bekkjar fá útiveru á hverjum degi og lögð er áhersla á að hópar blandist ekki þar. Skóli byrjar 8:10 hjá þessum nemendum en skólinn opnar 7:50 og nemendur eru að koma inn á mismunandi tíma. Miðstigið hættir milli 12:00 og 12:30 en yngsta stigið kl. 13:00. Starfsmenn mæta fyrr en venjulega og fara beint inn í kennslustofur. Nemendur á unglingastigi mæta alla daga í skólann klukkan 12:45 og eru til 15:30 en stunda annað nám að morgni. Umsjónarkennari á fund með sínum nemendum á google meet klukkan 10 alla dag og þá eru nemendur klæddir og komnir á ról og tilbúnir að fara út í hreyfingu dagsins sem þeir gera grein fyrir. 

Aðstæður sem þessar reyna á og það sem er einna mest krefjandi er að vera á sama svæði mest allan skóladaginn með sama nemendahóp. Það er aðdáunarvert hvað allir standa sig vel í þessu, bæði nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn og verkefnin eru fjölbreytt þó ekki sé farið milli stofa. 

Nemendur í 1. – 7. bekk fá mat í hádeginu. Yngsta stigið fær mat inn í kennslustofur en matráður fer með hitaborð á staðinn og skólaliðar á svæðinu aðstoða við að útdeila mat og taka saman mataráhöld og afganga. Miðstigið fer í matsalinn, einn hópur í einu með ákveðnu millibili og þar fá nemendur að borða áður en þeir fara heim. 

Frístundin er aðeins opin fyrir 1. og 2. bekk sem eru á aðskildum svæðum. Nemendur í 3. og 4. bekk eiga kost á að vera í Frístund til klukkan 14:00

Þetta fyrirkomulag getur breyst með litlum fyrirvara og því er nauðsynlegt að fylgjast vel með. Allar upplýsingar til foreldra koma með tölvupósti og verða birtar á heimasíðu. Við vekjum athygli á því að ef aðgerðir Almannavarna til að minnka líkur á smiti verða hertar og skólinn þarf að skerða enn frekar þjónustu eða loka þurfa foreldrar á forgangslista að sækja sérstaklega um fyrir sín börn í 1. og 2. bekk en vinnuveitendur senda upplýsingar um það ferli. Athugið þó að það er neyðarráðstöfun og aðeins gripið til í brýnustu nauðsyn.

Við þökkum foreldrum og forráðamönnum fyrir ómetanlegan skilning og stuðning sem við höfum fundið fyrir undarfarna daga.