Í vikunni var undankeppni Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri. Þar lásu nemendur úr 7. bekk upphátt mismunandi texta. Allir keppendur stóðu sig mjög vel, en að lokum þurfti að velja tvo nemendur til að keppa fyrir hönd skólans í lokakeppninni sem haldin verður 7. mars næstkomandi í Hofi. Kirsta og Emma lásu best að mati dómnefndar. Við óskum þeim innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með þeim í lokakeppninni í næstu viku.
Author Archive: Skólastjóri
Starfamessa 29. febrúar
Fimmtudaginn 29. febrúar frá kl. 9:00 – 10:00 verður nemendum í 9. og 10. bekk Oddeyrarskóla boðið að koma á starfamessu í HA til þess að kynna sér fjölbreytt störf og fyrirtæki á svæðinu.
Sterk út lífið
Skólinn býður upp á fræðslu með yfirskriftina Sterk út í lífið! Hvað mótar sterkan einstakling og hvernig geta foreldrar/forráðamenn stuðlað að bættri sjálfsmynd barna sinna? Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur verður með erindið í fjarfundi þriðjudaginn 27. febrúar kl. 17:00-17:45. Við reiknum með um það bil hálftíma erindi og umræðum í 15 mínútur.
Fræðslan er liður í Velferðarverkefninu okkar Bætt líðan – aukin fræðsla og byggja efnistök m.a. á óskum foreldra frá því á haustfundi 2023.
Foreldrar og forráðamenn hafa nú þegar fengið sendan hlekk vegna fundarins.
Árshátíð 2024
Árshátíð Oddeyrarskóla er haldin dagana 24. og 25. janúar. Þann 24. janúar eru sýningar fyrir nemendur á skólatíma en 25. janúar eru sýningar fyrir foreldra, forráðamenn og aðra nákomna. Nemendur eru í umsjón kennara meðan á sýningum þeirra stendur.
- Fyrsta sýning kl. 14:00 2. 4. 7. og 10. bekkur.
- Önnur sýning kl. 15:30 1. 5. 8. og 10. bekkur.
- Þriðja sýning kl. 17:00 3. 6. 9. og 10. bekkur.
Ekkert kostar inn á árshátíð en foreldrar mega leggja inn frjáls framlög á reikning nemendafélags og ágóðinn nýtist í þágu nemenda s.s. vegna uppbrots eða rútuferða. 0302 – 13 – 000229, kennitala 450908-2580, nemendafélag Oddeyrarskóla söfnunarreikningur.
Við minnum á glæsilegt kaffihlaðborð foreldrafélagsins sem verður opið frá klukkan 14:00 – 17:00 og er hægt að njóta veitinga annað hvort fyrir eða eftir sýningar. Hér er bréf frá foreldrafélaginu.
Þrumugleði í fimleikahúsi
Um miðjan nóvember voru nemendur í 10. bekk búnir að safna sér fyrir þrumugleði, sem fæst þegar búið er að ná að safna þrumum sem nemur sexföldum fjölda nemenda í bekknum. Þrumur eru hrósmiðar og eru hluti af SMT skólafærni. Nemendur komu með hugmyndir um hvað væri gaman að gera saman og kusu það sem þeim leyst best á. Ákveðið var að fara í fimleikasalinn í Giljaskóla og sprella saman auk þess sem þau fengu að hafa frjálst nesti með sér.
Ferðin heppnaðist vel, allir fóru í einhverja hreyfingu og höfðu varla tíma til að taka hádegishlé svo gaman var hjá þeim.
Góð gjöf frá útskriftarnemum vorið 2023
Nemendur sem útskrifðust úr 10. bekk síðastliðið vor gáfu skólanum veglega gjöf á þeim tímamótum. Þetta var peningagjöf með þeim tilmælum að keyptur yrði þrívíddarprentari. Haustið var notað til að skoða og velta fyrir sér hvað heppilegast væri að gera. Fyrir valinu varð prentari sem pantaður var að utan en hann hefur þá kosti að vera einfaldur og notendavænn. Tölvuumsjónarmaður er um þessar mundir að prófa sig áfram og kynnast hugbúnaði og tæki. Þá fóru nokkrir kennarar á námskeið í Fablab í haust og fengu þjálfun í vinna með hugbúnað og prenta út á öðruvísi efni en pappír. Þegar starfsfólk hefur öðlast öryggi í að umgangast prentarann munu einhverjir nemendahópar fá að spreyta sig.
Sögur, verkefni í 5. bekk
Um þessar mundir er verið að vinna verkefni í íslensku í 5. bekk sem kallast sögusmiðja. Krakkarnir mega semja smásögu, stuttmyndahandrit, leikrit eða lag og lagatexta og vinna sína hugmynd frá grunni. Markmiðið er síðan að þeir nemendur sem vilja sendi verk sitt í samkeppni á vegum Krakkarúv sem heitir Sögur. Hér er linkur inn á vef þeirra fyrir þá sem vilja kynna sér þetta frábæra framtak Ríkissjónvarpsins. Það verður síðan uppskeruhátíð hér í skólanum þar sem við munum bjóða foreldrum að koma og sjá verk nemenda.
Farsæld barna
Kæru foreldrar / forráðamenn leik- og grunnskólanemenda á Akureyri
Eins og mörgum er kunnugt, þá stendur yfir innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, sem í daglegu tali eru kölluð farsældarlögin. Nú er kominn nýr og aðgengilegur vefur sem kallast Farsæld barna og þar má finna nánari upplýsingar um hvað löggjöfin felur í sér og hvert hlutverk tengiliða er. Einnig má sjá aðgengilegt myndband sem lýsir í stuttu máli því sem lögin innibera.
Samkvæmt lögunum eiga börn og foreldrar að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.
Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í skóla. Á heimasíðu skólans, https://oddeyrarskoli.is/tengilidir/ , má sjá hverjir hafa hlutverk sem tengiliðir í Oddeyrarsóla. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni. Foreldrar og börn geta leitað sjálf beint til tengiliðar eða sent beiðni í gegnum Þjónustugátt Akureyrarbæjar.
Með góðri farsældarkveðju,
Helga Vilhjálmsdóttir, innleiðingarstjóri farsældarlaga á fræðslu- og lýðheilsusviði
Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs
Anna Bergrós Arnarsdóttir, skólastjóri Oddeyrarskóla
Bækur að gjöf frá foreldrafélagi
Bókasafni skólans barst á dögunum vegleg bókagjöf frá foreldrafélaginu. Fulltrúi foreldrafélagsins fór ásamt skólasafnskennara á bókamarkaðinn sem nú stendur yfir hér fyrir norðan, og fundu talsvert af bókum sem vantaði á safnið sem og vinsælum bókum sem gott er að eiga í fleiri en einu eintaki.
Skólinn þakkar foreldrafélaginu kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.
Göngum í skólann
Oddeyrarskóli er heilsueflandi grunnskóli og við tökum þátt í þeim átaksverkefnum á landsvísu sem henta í skólastarfi. Göngum í skólann er eitt af þeim verkefnum og hefst á morgun. Við hvetjum alla, starfsmenn og nemendur til að ganga eða hjóla í skólann í stað þess að koma á einkabíl. Kennarar halda utan um skráningar en það er keppni um að fá sem flesta til að vera með. Af þessu tilefni munu allir nemendur og starfsmenn fá að gjöf endurskinsmerki sem við hvetjum foreldra til að hengja strax á yfirhafnir barnanna.