Útivist í dag 25. mars

Það er logn og smá snjókoma í Hlíðarfjalli í dag og við höldum okkar áætlun með útivistardaginn. Nauðsynlegt er að huga að hlýjum fatnaði, góðu nesti og njóta útiverunnar. Allir í Fjallið 🙂

Upphátt

Upplestarkeppnin „Upphátt“ um vandaðan upplestur og framburð fór fram í Kvosinni, sal Menntaskólans á Akureyri í gær. Áður hét keppnin Stóra upplestrarkeppnin en nú hefur sú breyting orðið á að keppnin er alfarið í höndum fræðsluskrifstofu og grunnskólanna á Akureyri hvað varðar skipulag og af því tilefni var ákveðið að breyta um nafn. Athöfnin var hátíðleg að vanda þar sem fimmtán nemendur úr 7. bekk grunnskólanna á Akureyri og Hrísey lásu texta eftir Hrund Hlöðversdóttur og ljóð eftir Sigmund Erni Rúnarsson ásamt því að velja og flytja ljóð að eigin vali. Flutt voru tónlistaratriði í umsjón Tónlistaskólans á Akureyri en flest þeirra voru flutt af nemendum 7. bekkjar. Oddeyrarskóli átti tvo fulltrúa, þá Olaf og Snjóka sem stóðu sig báðir með mikilli prýði en Snjóki vann keppnina í ár og er það einkar gleðilegt þar sem Oddeyrarskóli hefur aldrei átt sigurvegara fyrr í Stóru upplestrarkeppninni. Við erum afar stolt af nemendum okkar og ekki síður Leylu sem æft hefur af kappi með aðstoð umsjónarkennarans Dóra og Þórarins. Hér má sjá fleiri myndir frá keppninni.

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk

Í dag tóku nemendur í 7. bekk þátt í forvali fyrir stóru upplestrarkeppnina en lokakeppnin fer fram í húsnæði Menntaskólans á Akureyri miðvikudaginn 23. mars nk. Tveir fulltrúar voru valdir úr hópi lesenda til að taka þátt í lokakeppni, þeir Snjóki og Olaf en Leyla verður varafulltrúi.

Vinningshafi í eldvarnargetraun

Í vikunni fengum við heimsókn frá fulltrúum í slökkviliðinu sem afhentu verðlaun fyrir góða frammistöðu í eldvarnargetraun. Nemendur í 3. bekk hafa um árabil svarað spurningum sem tengist eldvörnum og skólinn sér um að áframsenda svörin. Tveir nemendur í 3. bekk á Akureyri fengu viðurkenningarskjal og gjafabréf og það er skemmtilegt að annar þeirra nemenda komi úr Oddeyrarskóla. Til hamingju Anton.

Nesti grunnskólanemenda

Það getur verið snúið að útbúa nesti fyrir skóladaginn. Margir eru í mjólkur- og/eða ávaxtaáskrift sem er nóg fyrir suma en aðrir þurfa meira eða kjósa að koma með allt nesti að heiman. Hér má sjá hugmyndir frá Landlæknisembættinu að hollu og góðu nesti.

Jólakveðja

Starfsfólk Oddeyrarskóla óskar nemendum, foreldrum og öðrum velunnurum skólans gleðilegar jólahátíðar og farsældar á komandi ár með þökk fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

UNICEF-Hreyfingin

Í byrjun júní fór fram áheitahlaup þar sem safnað var til styrktar börnum sem búa við skert lífsgæði. Samtals söfnuðust 220798 krónur sem ýmist voru lagðar inn á reikning söfnunarinnar eða komu í umslagi í skólann. Þessa fjármuni er hægt að nota t.d. til kaupa á leikföngum og námsgögnum og til auka aðgengi að hreinu vatni og næringu. Einnig til kaupa og varðveislu bóluefna og lyfja. Kærar þakkir allir sem tóku þátt.

Viðurkenning fræðsluráðs

Miðvikudaginn 2. júní voru viðurkenningar fræðsluráðs afhendar í Brekkuskóla. Að þessu sinni hlutu starfsmenn af unglingastigi, þau Sissa, Rakel, Þórarinn, Jónas og Sigrún viðurkenningu fyrir ÞEMA á unglingastigi en þar er um að ræða samþættingu kennslugreina í heildstæð þemaverkefni. Jói húsvörður hlaut viðurkenningu fyrir jákvæðni og vel unnin störf og hjá nemendum var það Arney í 7. bekk sem fékk viðurkenningu fyrir að vera góð fyrirmynd sinna jafnaldra.

Skóla lokað tímabundið

Kæru foreldrar,

Eins og fram kom í fréttum í dag verður grunnskólum landsins lokað frá og með morgundeginum og fram yfir páskafrí. Frístund verður einnig lokuð þennan sama tíma. Við munum láta vita hvernig skólastarfi verður háttað eftir páska þegar við vitum hvernig staðan verður.

Bestu kveðjur og hafið það gott um páskana, Anna, Fjóla og Magga