Úttekt á skólahúsnæði

Síðastliðið vor ákvað umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar að ráðast í úttekt á loftgæðum í skólamannvirkjum. Í sumar var gerð úttekt á húsnæði Oddeyrarskóla. Að mati sérfræðinga frá verkfræðistofunni Verkís var niðurstaðan sú að ástand skólans sé mjög gott og engin ástæða til að ætla að loftgæði geti á nokkurn hátt hamlað skólastarfi. Gildi myglu voru mæld bæði með loft- og snertisýnum. Ábendingar komu fram um lítils háttar úrbætur á afmörkuðum svæðum og var strax hafist handa við þær en þær fólust í sótthreinsun og staðbundnum viðgerðum. Þau gildi myglu sem þar mældust eru vel innan eðlilegra marka miðað við það sem almennt gerist í húsnæði á Íslandi. Loftræsting var bætt í þeim tveimur kennslustofum sem athugasemdir voru gerðar við. Ætlunin er að fylgja málinu eftir og mæla loftgæði í skólanum þegar starfsemi verður í húsinu en það verður gert þegar líða tekur á skólaárið.

Göngum í skólann

Þann 4. september hófst átakið göngum í skólann. Við hvetjum alla til að koma gangandi eða á hjólum. Einnig má nota almenningssamgöngur en reynum að forðast að nota einkabíl. Átakið stendur yfir í fjórar vikur eða til 2. október. Í skólanum hafa kennarar gert ýmislegt til að minna á átakið og skrá niður fararmáta.

Skólasetning

Oddeyrarskóli verður settur fimmtudaginn 22. ágúst. Allir nemendur í 2. – 10. bekk mæta á sal skólans kl. 9:00. Nemendur í 1. bekk eru einnig velkomnir. Þar verður stutt ávarp skólastjóra en nemendur fara síðan með sínum umsjónarkennara í heimastofur. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá föstudaginn 23. ágúst.