Skólahreysti og upplestrarkeppni

Fulltrúar skólans í Stóru upplestrarkeppninni stóðu sig með stakri prýði á lokahátíðinni síðastliðinn miðvikudag þó við næðum ekki verðlaunasæti. Það gerði hins vegar keppnisliðið okkar í Skólahreysti sem náði 3. sæti eftir undraverðan hraða í hraðabrautinni. Við getum verið stolt af þessu unga fólki og höldum áfram að hvetja nemendur okkar til dáða í leik og starfi.

Skoða fleiri myndir

FRÍTT Í SUND OG Á SKÍÐI Í VETRARFRÍI

Akureyrarbær býður grunn- og framhaldsskólanemum á Akureyri frítt í sund og á skíði.

Miðvikudaginn 26. febrúar, fimmtudaginn 27. febrúar og föstudaginn 28. febrúar geta grunn- og framhaldsskólanemar á Akureyri farið í skíðalyfturnar í Hlíðarfjalli og í sundlaugar Akureyrar án endurgjalds.

Grunnskólanemendur gefa upp kennitölu og nafn skóla í afgreiðslu og framhaldsskólanemar VMA og MA framvísa nemendaskírteinum.

Athugið að krakkarnir þurfa að eiga rafrænt kort eða kaupa slíkt á 1.000 kr. í skíðalyfturnar, kortin fást í afgreiðslu Hlíðarfjalls.

Skipulagsdagur, foreldraviðtöl og vetrarfrí vikuna 24. – 28. febrúar

Í næstu viku, 24. til 28. febrúar verður enginn hefðbundinn skóladagur. Þessa daga eru skipulagsdagur, viðtalsdagur og vetrarfrí. Nemendur mæta bara í foreldraviðtal með sínum foreldrum eða forráðamönnum á mánudag eða þriðjudag en foreldrar 1. – 7. b. bóka viðtalstíma á mentor.is og foreldrar unglinga bóka viðtöl eftir upplýsingum frá umsjónarkennurum en þeir hitta kennara á fundi í hádeginu fösudaginn 21. febrúar.

Frístund er opin frá 7:45-16:15 á mánudag og þriðjudag, en lokuð á miðvikudag, öskudag og aðeins opin frá kl. 13:00-16:15 í vetrarfríinu á fimmtudag og föstudag.

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk

Í gær voru valdir fulltrúar nemenda í 7. bekk sem taka þátt í stóru upplestrarkeppninni sem haldin verður í sal Menntaskólans á Akureyri þann 4. mars nk. Hér má sjá myndir af þeim sem lesa upp fyrir hönd Oddeyrarskóla ásamt dómnefndinni en þessir þrír nemendur munu æfa fram að keppni og tveir af þeim taka síðan þátt á lokahátíðinni.

Útivistardagur

Fimmtudaginn 13. febrúar var útivistardagur í Hlíðarfjalli. Veðrið var fallegt og færið eins og best verður á kosið. Nemendur og starfsfólk nutu útiverunnar en frostið var 12 gráður þennan dag og sumum varð heldur kalt. Flestir voru þó vel búnir og áttu dásamlegan dag.

Hér má sjá nokkrar myndir frá deginum.

Skólahald í dag

Skólahald verður með eðlilegum hætti í dag í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar og tónlistarskólanum. Veðurspá gerir ekki ráð fyrir mjög slæmu veðri hér á Akureyri. Þó er vissara að hafa varann á og fylgjast vel með viðvörunum og tilkynningum á heimasíðum skólanna og Akureyrarbæjar.

Útivistardagur í dag

Við höldum okkar striki og förum í Hlíðarfjall í dag. Það er mikið frost svo það er afar mikilvægt að allir séu vel klæddir en það má alltaf leita í skjól innan húss ef þarf. Skíðafæri er gott og veður milt fyrir utan kuldann.

Frístund opnar fyrr í dag og þar verður tekið á móti börnum sem þar eru skráð. Aðrir koma heim í fyrra fallinu en þetta er skertur skóladagur skv. skóladagatali.

Áætluð viðfera í fjallinu er eftirfarandi en ef breytinga verður þörf munu nemendur 1. – 7. bekkjar ljúka viðveru í skólanum skv. þessu tímaplani. Boðið verður upp á hádegismat við komu í skólann.

1. – 4. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:10. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08:15 og til baka kl.11:15.      

5. – 7. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:30. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08:45 og til baka kl. 12:00.

8. – 10. bekkur. Mæting í skóla kl. 8:45. Rútur í Hlíðarfjall kl. 9.00 og til baka kl.12:15.

Útivistardagur í Hlíðarfjalli fimmtudaginn 13. febrúar

Stefnan er tekin á útivistardag í Hlíðarfjalli fimmtudaginn 13. febrúar. Samkvæmt veðurspá verður talsvert frost þennan dag en úrkomulaust og mjög hægur vindur. Þar sem veður eru válynd munum við taka stöðuna snemma á fimmtudagsmorgni og setja upplýsingar á heimasíðuna eins fljótt og auðið er, um hvort farið verður í fjallið eða ekki. Færslunni verður deilt á facebooksíðu skólans og einnig verður sendur tölvupóstur til foreldra. Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og taka með gott nesti.

Árshátíð Oddeyrarskóla 2020

Árshátíð nemenda Oddeyrarskóla verður haldin í lok janúar. Undirbúningur er í fullum gangi en það hefur m.a. áhrif á íþróttakennslu en íþróttasalurinn er undirlagður fyrir æfingar vikuna fyrir árshátíð og þá þarf ekki að koma með íþróttaföt.

Föstudaginn 24. janúar er tvöfaldur skóladagur eins og fram kemur á skóladagatali. Nemendur mæta í skólann á venjulegum tíma en þennan dag verður kennsla ásamt því sem allir árgangar sýna sín árshátíðaratriði og allir fá að horfa á atriðin hjá hinum. Skóla lýkur klukkan 14:15 hjá öllum nemendum þennan dag en Frístund er að venju opin til kl. 16:15.

Á laugadag eru foreldrasýningar ásamt glæsilegu kaffihlaðborði foreldrafélagsins sem er í boði milli sýninga. Sýningarnar eru þrjár svo rýmra sé um gesti í salnum. Ekkert kostar inn á sýningarnar en það kostar 1000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn á skólaaldri á kaffihlaðborðið. Nemendur 10. bekkjar eru með stærsta atriðið eins og hefð er fyrir en leikstjóri er Ívar Helgason. Árshátíðaratriði bekkjar eru sem hér segir:

Klukkan 11:00 sýna 1., 3., 8. og 10. bekkur

Klukkan 13:00 sýna 2., 4., 6. og 10. bekkur

Klukkan 15:00 sýna 5., 7., 9. og 10. bekkur

Nemendur mæta til umsjónarkennara áður en sýning hefst (nánari upplýsingar hjá hverjum umsjónarkennara) og dvelja með kennara þar til sýningu lýkur. Eftir það eru þeir á ábyrgð foreldra. Við biðjum gesti um að sýna tillitsemi á sýningum og vera ekki með óþarfa ráp.

Mánudaginn 27. janúar er frí í skólanum vegna viðveru nemenda og starfsfólks á laugardeginum. Föstudaginn 31. janúar er árshátíðarball unglingastigs frá kl. 20:30-23:30.