Aðalnámskrá

adalnamskra-grunnskolaÍ framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um grunnskóla, nr. 91/2008 var unnið að nýrri menntastefnu sem er grunnur þeirrar aðalnámskrár sem kom út árið 2011.

Í aðalnámskránni eru skilgreindir sex grunnþættir í menntun sem eiga sér stoð í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, einnig um framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa. Þeim er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í öllu skólastarfi.

Grunnþættir í menntun eru: Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Grunnþættirnir eru skilgreindir í sameiginlegum inngangskafla í aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir tengjast öllum námsgreinum grunnskóla og eru leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum ásamt lögbundnum áhersluþáttum, m.a. sjálfsvitund, siðgæðisvitund, félagsvitund, borgaravitund og félagsfærni.

Ný aðalnámskrá grunnskóla skipar lögbundnum námsgreinum á námssvið sem hér segir: Erlend tungumál, list- og verkgreinar, náttúrugreinar, skólaíþróttir, samfélagsgreinar og upplýsinga- og tæknimennt.  Auk þess eru sérstakar ráðstöfunarstundir skóla í 1.−7. bekk og val nemenda í 8.−10. bekk. Því hefur ný viðmiðunarstundaskrá verið kynnt sem veitir skólum meiri sveigjanleika í skipulagi skólastarfs. Ein helsta breytingin er að val nemenda á unglingastigi verður í 8.-10. bekk verður allt að fimmtungur námstímans.

Í grunnskóla skal leggja mat á hæfni nemenda innan hvers námssviðs og á það við jafnt í bóklegu námi, verknámi og listnámi. Í aðalnámskránni er kynntur nýr matskvarði með fjórum flokkum, A−D. Matskvarðinn er tvískiptur, annars vegar kvarði fyrir mat á hæfni á hverju námssviði og hins vegar mat á lykilhæfni við lok grunnskóla. Viðmið í námsmati innan hvers námssviðs eða hverrar námsgreinar eru skilgreind nánar í námsgreinahlutanum. Matskvarðann ber að nota við brautskráningu nemenda úr grunnskóla. Einnig má nota hann við lok 4. og 7. bekkjar og almennt í námsmati grunnskóla. Kvarðann má laga að skólanámskrá hvers skóla og aðstæðum hverju sinni.

Hér fyrir neðan eru tenglar á efni tengt nýrri aðalnámskrá:

Aðalnámskrá grunnskóla með greinarnámskrám 2011

Þemahefti um grunnþætti menntunar:

 

Síðast uppfært 09.09 2013