Hvað er einelti?
Einelti er langvarandi ofbeldi, líkamlegt og/eða andlegt sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að ákveðnum einstaklingi eða einstaklingum. Atferlið er endurtekið og þolandinn er ekki fær um að verja sig. Í einelti er valdaójafnvægi þar sem gerandinn misbeitir valdi gegn þolandanum.
Sýnilegt einelti
Dæmi um sýnilegt einelti er barsmíðar, spörk og útilokun. Þolandi getur verið þvingaður til að gera eitthvað gegn vilja sínum eða eigur hans síendurtekið teknar traustataki, faldar eða skemmdar.
Dulið einelti
Útskúfun og útilokun sem ekki er sýnileg er dæmi um dulið einelti. Það er oft talið alvarlegasta eineltið og getur haft mikil áhrif á sjálfsmynd og líðan þolanda til lengri tíma.
Rafrænt einelti
Rafrænt einelti getur verið í formi SMS skilaboða í síma eða meiðandi og neikvæð umræða í netheimum, t.d. á Facebook. Tilviljanakennd stríðni, átök og ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis.
Við berum öll ábyrgð
Allir sem koma að uppeldi og vinnu með börnum og unglingum bera ábyrgð á því að þau finni til öryggis, hvort sem er á heimili, í skóla eða við félagsstörf. Allir þessir aðilar þurfa að vinna saman. Best er þegar þeir eru samstíga í því að skapa jákvæðan aga og setja skýr mörk um hegðun.
Hér má nálgast fræðsluáætlun skólans gegn einelti.
Einkunnarorð skólans eru ábyrgð, virðing og vinátta. Þau eiga að endurspegla gildi skólasamfélagsins, þar sem áhersla er lögð á það að við berum öll ábyrgð á hegðun okkar og framkomu, við sýnum hvert öðru virðingu og vinátta er í hávegum höfð.
Kennarar yngri bekkja geta notað Stöndum saman – forvarnir gegn einelti í heildstæðum stuðningi við jákvæða hegðun (sjá vefslóð hér aftar og SMT möppu / Bully prevention).
Í hverjum bekk eru bekkjarreglur þar sem nemendur taka þátt í að búa til viðmið um hvaða reglum allir eiga að hlíta í leik og starfi í skólanum. Í öllum bekkjum skal halda formlega bekkjarfundi. Þar gefst tækifæri til að taka til umræðu ýmis mál sem lúta t.d. að jafnrétti, fordómum, mannréttindum, skyldum okkar og ábyrgð í samfélaginu.
Kennarar ræða við nemendur um einelti, einkenni þess og áhrif og að það eigi aldrei Nemendur velja sig ekki í hópa í skólastarfi án ábyrgðar fullorðinna. Hið sama á við ef nemendur fá að velja sér sæti í skólastofu.
Gæsla og virkni nemenda í frímínútum er mikilvægur liður í því að vinna gegn einelti. Í frímínútum eru þrír fullorðnir úti með yngstu nemendum og styðja þá í leik og samveru. Slík vinna stuðlar að félagslegum tengslum og samkennd meðal nemenda.
Kennarar skrá athugasemdir um félagsleg samskipti nemenda í Mentor /dagbók eins og þörf krefur. Ritari skráir í Mentor fyrir starfsfólk sem ekki hefur aðgang að því. Kennarar eru hvattir til að kortleggja samskipti í bekknum sínum með því að gera tengslakannanir, a.m.k. einu sinni á vetri eða þegar ástæða þykir til.
Nemendur 1. bekkjar eru vinabekkur nemenda 8. bekkjar og hvert barn fær eldri nemanda sem sinn vin. Eldri nemendur aðstoða yngstu börnin í frímínútum fyrstu viku skólaársins og eru þannig fyrirmyndir sem umhyggjusamir einstaklingar sem bera hag og líðan þeirra yngri fyrir brjósti.
Traust og jákvæð samskipti heimila og skóla eru mikilvægur þáttur í forvörnum gegn einelti. Bæði foreldrar og kennarar geta átt frumkvæði af samvinnu sem varðar samskipti og félagatengsl barna. Með því að vinna saman getum við betur stutt við heilbrigð tengsl og eflt samkennd nemenda, bæði innan og utan skóla.
Nemendur
- Nemendur sýna hver öðrum virðingu og tillitssemi.
- Nemendur fylgja reglum skólans.
- Nemendur láta vita ef þeir eða aðrir verða fyrir einelti. Best er að ræða við foreldra eða einhvern úr starfsliði skólans sem nemandi treystir vel og kemur málinu áfram.
- Nemendur taka afstöðu gegn einelti og komi öðrum til hjálpar.
Starfsfólk skóla
- Allt starfsfólk rifjar upp verkferli við eineltismál á hverju hausti á sameiginlegum fundi.
- Allt starfsfólk skóla skal sýna árvekni gagnvart nemendum og líðan þeirra.
- Allir þurfa að skrá athugasemdir og óæskilega hegðun í Mentor
- Allt starfsfólk tekur ábendingum um einelti alvarlega og kemur þeim til umsjónarkennara viðkomandi nemanda.
- Starfsfólk skólans skal vera nemendum til fyrirmyndar, bæði til orðs og æðis og sýna öllum einstaklingum skólasamfélagsins umhyggju og virðingu.
Foreldrar
- Foreldrar þurfa að hlusta á barn sitt og veita því athygli ef breyting verður á framkomu, líðan eða svefnvenjum barnsins.
- Ef barnið ræðir einelti við foreldra sína láta þeir umsjónarkennara barnsins vita.
- Foreldrar stuðla að jákvæðum samskiptum nemenda, t.d. með því að skipuleggja samveru nemenda utan skóla.
- Foreldrar sjá til þess að einstakir nemendur bekkjar séu ekki útilokaðir, t.d. frá afmælisboðum.
- Foreldrar taka þátt í að byggja upp jákvæð og traust samskipti á milli heimila og skóla.
Bæði foreldrar og starfsfólk skóla þurfa að vera vakandi gagnvart breytingum á hegðun barna. Vísbendingar um einelti geta komið fram á ýmsan hátt:
Líkamleg vanlíðan:
- Barn kvartar oft yfir magaverk eða höfuðverk.
Tilfinningaleg vanlíðan:
- Grátur, skapsveiflur, óöryggi.
- Breytingar á svefnvenjum, kvíði.
- Lystarleysi, breytingar á matarvenjum.
Annað sem þarf að hafa í huga:
- Föt eða eigur barnsins hverfa ítrekað eða eru skemmd.
- Barn forðast vissar aðstæður, t.d. sturtuklefa, eða fara út í frímínútur.
- Breyting á námsgengi eða viðhorfi gagnvart skólanum.
- Barnið er félagalaust utan skólatíma, fer ekki í afmæli eða sækir ekki í neinn félagsskap.
- Lítið sjálfstraust, léleg sjálfsmynd
Eineltismál eru skráð á sérstakt eyðublað sem námsráðgjafi varðveitir. Það auðveldar okkur að halda utan um fjölda mála og hver þróunin er í skólanum frá ári til árs.
- Könnunarstig
- Grunur um einelti staðfestur
- Frekari vinnsla málsins
Alltaf er hægt að vísa málum til teymisins, sem þá fundar eftir þörfum. Í forvarnarteymi gegn einelti sitja skólastjórnendur, námsráðgjafi og kennari.
Forvarnarteymið kemur kennurum til aðstoðar við vinnslu eineltismála, fulltrúar þess aðstoða í viðtölum við börn og foreldra og fylgjast með gangi mála og úrvinnslu.
Hvers þarf að gæta í viðtölum við nemendur?
- Mikilvægt er að tala alltaf einslega við þá sem að málinu koma. Þannig er oftast hægt að ná meiri nálægð og einlægni í viðtölum.
- Varast skal að koma með beinar ásakanir, t.d. þegar rætt er við hugsanlega gerendur. Gott er að nota orðalag eins og „Ég hef heyrt að það séu erfið samskipti á milli þín og ... Er það rétt hjá mér?“
- Á sama hátt er hægt að leggja mál fyrir hugsanlegan þolanda: „Ég hef heyrt að það séu einhverjir nemendur sem hafa verið að áreita þig. Er það rétt?“
- Á sama hátt er rætt við foreldra án ásakana. Í þeim viðtölum er hægt að segja: „Það virðast vera vandamál í samskiptum barns þíns við … Þetta er mál sem við þurfum að leysa sameiginlega og ég þarf að biðja þig um að ræða við þitt barn.“
- Ef nemendur benda á aðra sem koma að málinu í viðtölum , þakkar kennari fyrir ábendingar en bendir á að nú sé aðeins verið að ræða við viðkomandi. Rætt verði við aðra síðar.
- Kennari lætur vita að haft verði samband við foreldra og að fylgst verði með gangi mála.
- Aldrei er látið vita um heimildamenn og gott að segja að fleiri en einn hafi bent á … Nemendur eru hvattir til góðra verka, þeim hrósað fyrir samvinnu ef hægt er og kennari segist treysta viðkomandi til að hegða sér þannig að ekki þurfi að aðhafast frekar í málinu.