Samstarf heimila og skóla

Mikilvægt er að hver skóli hafi stefnu um markvissa samvinnu heimila og skóla. Oddeyrarskóli leggur ríka áherslu á farsælt samstarf heimila og skóla, byggt á samvinnu og gagnkvæmri virðingu.  Til þess að nemendur njóti sín sem best er mikilvægt að skólinn og heimilin séu samstíga og vinni saman að velferð nemenda.

Á árunum 2002 – 2006 var unnið þróunarverkefnið í Oddeyrarskóla um bætt samstarf heimila og skóla.  Einn liður í þróunarverkefninu var að koma á fót heimsóknum á heimili nemenda. Markmið verkefnisins var að skapa umgjörð um jákvæð samskipti heimila og skóla til þess að efla námslega og félagslega færni nemenda. Ákveðið að skipuleggja náið samstaf umsjónarkennara við foreldra nemenda í 1. bekk og 8. bekk.  Þessar heimsóknir hafa fests í sessi og býðst foreldrum nemenda í 1. og 8. bekk að fá umsjónarkennara barna sinna í heimsókn til að ræða um skólastarfið og líðan nemenda. Heimsóknin til nemenda í 1. bekk er örstutt að vori áður en nemendur byrja. Umsjónarkennarar nemenda í 8. bekk heimsækja sína nemendur í upphafi skólaárs. Í heimsókninni er rætt það helsta sem fjölskyldunni liggur á hjarta varðandi komandi vetur. Ef foreldrar vilja ekki fá kennara heim má að sjálfsögðu hafa samtalið í skólanum.

Áhersla er á gagnkvæma upplýsingagjöf milli heimilis og ksóla um nám, kennslu og líðan. Á heimasíðu birtast almennar fréttir en fjölskylduvefurinn Mentor er nýttur til upplýsingajgafar um stöðu nemenda. Náms – og kennsluáætlanir eru aðgengilegar og niðurstöður prófa og kannana kynntar.

Áherslur í samstarfi eru ræddar á fundum með foreldrum, kennarar meta hverskonar samstarf skilar árangri og leita nýrra leiða til að efla það. Sérstök áhersla er á aukið samstarf þegar barn þarf sérstakan stuðning.

Lögð er áhersla á að foreldrar upplifi jákvætt viðmót og að starfsfólk sýni skilning og áhuga á að vinna með foreldrum.

Í Oddeyrarskóla starfar virkt foreldrafélag sem hvetur alla til þátttöku í leik og starfi og styður við skólastarfið á ýmsan hátt.

Síðast uppfært 02.07 2018