Mikilvægt er að á milli leik,- grunn,- og framhaldsskóla séu virk tengsl og miðlun upplýsinga sé góð. Til að tryggja samfellu og stuðla að velferð nemenda er nauðsynlegt að samræmi og samhengi sé í menntun. Í skólabænum Akureyri eru öll skólastig starfandi og mikilvægt að nýta þau tækifæri sem það hefur upp á að bjóða. Samstarf vinabekkja innan skóla og milli skóla stuðlar að jákvæðum skólabrag og meira öryggi og vellíðan nemenda. Samstarf milli skólastiga stuðlar einnig að víðsýni og auknum skilningi kennara á námi nemenda og starfi kennara á öllum skólastigum.
Í Oddeyrarskóla er leitast við að skapa samfellu í námi, koma til móts við þarfir nemenda og auka þannig vellíðan og öryggi þeirra þegar þeir flytjast milli skóla og skólastiga. Sérstök áhersla er lögð á að fylgja nemendum með sérþarfir vel eftir milli skólastiga. Kennarar leik- og grunnskóla hittast að hausti og gera áætlun um samstarf vetrarins þar sem fram koma allar heimsóknir milli skólanna og þau viðfangsefni sem tekin eru fyrir á hvorum stað. Nemendum í efstu bekkjum fá kynningar frá og fara í heimsóknir til framhaldsskólanna á Eyjafjarðarsvæðinu. Auk þess sem námsráðgjafi Oddeyrarskóla er í góðu samstarfi við námsráðgjafa framhaldsskólanna. Nemendur á unglingastigi eiga þess kost að velja valgreinar í VMA sem metnar eru til eininga á framhaldsskólastigi.
Um nokkurra ára skeið hefur verið virkt samstarf vinabekkja innan Oddeyrarskóla. Nemendur 1. bekkjar eru vinabekkur nemenda 8. bekkjar og hvert barn fær eldri nemanda sem sinn vin. Eldri nemendur aðstoða yngstu börnin í frímínútum fyrstu viku skólaársins og þegar unnin eru verkefni þvert á skólann er þess gætt að nemendur í 1. bekk séu í hóp með vini sínum í 8. bekk. Samstarf vinabekkja er einnig af ýmsum öðrum toga. Vinabekkjarpörin halda upp í 10. bekk þannig að nemandi í 3. bekk á vin í 10. bekk.
Sumir eldri nemendur eiga sér vinabekki í öðrum skólum sem þeir hitta 1-2 svar á ári og eiga saman góða stund í leik og starfi. Stefnt er að því að þessir vinabekkir verði fleiri. Tilangur þessa samstarfs er fyrst og fremst að efla félagsleg tengsl.
Á haustin hittast kennarar grunnskóla og skipuleggja samstarf og ræða faglegar áherslur. Það er síðan eftir hverjum kennarahóp komið hvort og hversu mikið kennarar hittast yfir veturinn.
Síðast uppfært 02.07 2018