Nám án aðgreiningar í Oddeyrarskóla

Í Aðalnámskrá grunnskóla, kafla 7.3 segir um nám í skóla án aðgreiningar: “Nemendahópur í grunnskóla er fjölbreyttur og þarfir þeirra mismunandi. Sveitarfélög skulu sjá til þess að skólaskyld börn, sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu eða eru vistuð hjá fósturforeldrum sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu, fái sérstakan stuðning í skólastarfi í samræmi við sérþarfir þeirra eins og þær eru metnar. Nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir. Bráðgerir nemendur og nemendur, sem búa yfir sérhæfileikum á vissum sviðum, eiga rétt á að fá námstækifæri við sitt hæfi. Þeir eiga að fá tækifæri til að þroska sérhæfileika sína og nýta tímann til hins ýtrasta með því að glíma við fleiri og flóknari markmið og krefjandi nám á eigin forsendum sem er þeim merkingarbært. Ef foreldrar og sérfræðingar skóla meta aðstæður nemandans þannig að honum sé fyrir bestu að stunda nám í sérskóla geta foreldrar óskað eftir skólavistun í sérskóla tímabundið eða að öllu leyti. Í þessum efnum ráða hagsmunir barnsins.”

Í Oddeyrarskóla starfa eingöngu fagmenntaðir kennarar sem margir hverjir hafa aflað sér viðbótarmenntunar til að mæta kröfum þessarar menntastefnu. Að auki starfa að jafnaði 1-3 stuðningsfulltrúar við skólann sem hafa sótt sér menntun á því sviði. Skólanum eru úthlutaðir tímar til stuðnings við nám barna með skilgreindar sérþarfir í samræmi við mat sérfræðinga Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar. Skólastjóri og deildarstjórar skipuleggja í samvinnu við kennara sérkennslu í skólanum.

Við í Oddeyrarskóla kjósum að tala um námsaðlögun frekar en sérkennslu því í henni felst meira en það að kennari sitji með barni og aðstoði við nám. Námsaðlögun tekur til allra nauðsynlegra þátta til að mæta barni, s.s. varðandi skipulag dagsins, námsefni og kennsluaðferða. Gert er ráð fyrir að kennsla fari að mestu leyti fram í kennslustofum bekkjanna en í minna mæli með einstaka nemendum utan hennar þó slíkt sé nauðsynlegt í einhverjum tilvikum. Í skólanum er einnig lögð áhersla á teymisvinnu. Hvert teymi fær úthlutað kennslutímum í samræmi við þarfir nemendahóps og þarf það að skipuleggja alla kennslu og stuðningsúrræði innan þess ramma.

Teymisvinna eykur möguleika á sveigjanlegum starfsháttum sem við teljum mikilvægt í öllu skólastarfi. Áherslur í kennslu einstakra nemenda geta breyst yfir skólaárið og er mikilvægt að geta brugðist við þörfum barna hverju sinni.

Kennarar, í samvinnu við deildarstjóra, bera ábyrgð á gerð einstaklingsnámskráa þar sem þess er þörf. Einstaklingsnámskrám er fylgt er eftir á teymisfundum með foreldrum eða forráðamönnum barns. Kennarateymi og deildarstjóri bera ábyrgð á framkvæmd einstaklingsnámskrár.

 

Skólaárið 2016 – 2017

Þennan vetur eru 28 börn í skólanum sem hafa ríkar þarfir fyrir einstaklingsnámskrá og mikla námsaðlögun að mati Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar. Þau eru jafnt á öllum stigum skólans og hefur því sérkennslutímum verið skipt nokkuð jafnt milli þeirra. Kennarar stiga eða teyma sjá síðan um að skipuleggja kennslu í samræmi við þessar þarfir. Á yngsta stigi eru að auki tveir stuðningsfulltrúar. Þeir sjá um að fylgja eftir skipulagi sem þeir vinna í samstarfi við kennara og styðja þannig við nám og hegðun þeirra sem á þurfa að halda. Einnig er oft þörf á að fylgja yngstu börnunum eftir í sund, íþróttir og frímínútur. Á miðstigi er einnig stuðningsfulltrúi enda mikil þörf þar á eftirfylgni við nám einstakra nemenda og aðstoð við ýmsar daglegar athafnir.

Auk þessara barna sem hér voru talin eru í skólanum til viðbótar 14 börn með greinda dyslexiu og 20 börn með annað móðurmál en íslensku. Einhver þessara barna eru með samþættan vanda fatlana, ADHD og / eða dyslexiu. Öll þurfa þessi börn þjónustu sem miðar að því að þau nái hámarksárangri með réttu námsefni og leiðum í námi. Leiðsagnarmat kennara sem fram fer í skólastofunni er þarna lykilatriði og því mikilvægt að vel takist til við að skipuleggja nám og kennslu. Stjórnendur gegna einnig stóru hlutverki í að skapa aðstæður og styðja við þetta mikilvæga starf kennarans.

Hluti sérkennslukvóta fer einnig til að auka við stöðu námsráðgjafa. Hann hefur tekið að sér mörg verkefni sem lúta að kennslu og skipulagi þessara barna m.a. við félagsfærnivinnu fyrir börn með einhverfu eða ADHD, námstækni fyrir börn með ADHD og dyslexiu og persónuleg viðtöl fyrir þá sem þurfa vegna persónulegra mála.

Síðast uppfært 23.06 2018