Iðjuþjálfun

Iðja er allar þær athafnir sem fólk tekur sér fyrir hendur. Allt frá verkefnum í daglegu lífi, stunda vinnu og nám og sinna áhugamálum og heimilislífi. Iðjuþjálfi styður við iðju fólks m.a. svo það geti annast sjálft sig, orðið virkir aðilar í samfélaginu og geti notið áhugamála sinna.

Hlutverk iðjuþjálfa í skóla er til dæmis að efla félagsfærni og sjálfstæði, aðlaga námsumhverfi og iðju, virkja nemendur til þátttöku, efla trú þeirra á eigin áhrifamátt og nýta styrkleika og áhugasvið þeirra til þess að efla iðju. Iðjuþjálfun í skóla snýst fyrst og fremst um að efla færni nemendans svo hann verði virkur þátttakandi í náminu en ekki áhorfandi. Iðjuþjálfar efla færni til þess að fá fram jákvæðari og virkari nemendur, sjálfstæðari nemendur, nemendur sem ná betri einbeitingu og úthaldi en áður, nemendur sem eflast í samskiptum og öðlast trú á eigin getu.

Einnig vinna iðjuþjálfar að því að styrkja sálfélagslega þætti nemandans með því að vinna m.a. með sjálfsmynd, tilfinningar, gildi, sjálfstjórn, hátterni og tjáningu. Félagsleg tengsl og líðan nemandans getur haft áhrif á iðju hans og virkni í skólanum.

Iðjuþjálfi vinnur í samstarfi við stjórnendur og kennara vegna einstakra nemenda sem eiga í erfiðleikum við skólatengda iðju og félagsfærni. Iðjuþjálfi metur iðju nemenda með mismunandi matsaðferðum og skipuleggur þjálfun í samræmi við þarfir nemenda í samvinnu við hann, forráðamenn og kennara. Iðjuþjálfi í Oddeyrarskóla er Iris Rún Andersen

Síðast uppfært 20.03 2025