Blár 2. apríl – alþjóðadagur einhverfunnar

large_autismdayVið ætlum að hafa bláan dag á morgun, miðvikudaginn 2. apríl n.k. í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfu. Um heim allan er fólk hvatt til að klæðast bláum fötum þennan ágæta dag til að vekja athygli á málefninu og í ár ætlum við að taka þátt. Því hvetjum við ykkur til að senda börnin bláklædd í skólann á morgun.

Athyglisverðar staðreyndir um einhverfu:

  • 1 af hverju 88 barni fæðist með röskun á einhverfurófi
  • Hjá drengjum eru líkurnar 1 á móti 54 – fimm sinnum meiri en hjá stúlkum
  • einhverfa er fötlun – ekki sjúkdómur (algengur misskilningur) og því ólæknandi
  • Það skiptir sköpum fyrir einhverfa að fá viðeigandi þjálfun eins fljótt og hægt er

Einhverfa er röskun á taugaþroska barna. Röskunin hefur áhrif á félagslega færni, tjáskipti og getur komið fram í áráttukenndri hegðun svo dæmi séu nefnd. Börn með einhverfu skynja veröldina á annan hátt en aðrir og mæta áskorunum á degi hverjum. Með því að vera meðvituð um vanda barnanna getum við haft áhrif á umhverfi þeirra og hjálpað þeim að takast á við hindranir sem okkur sjálfum gætu þótt lítilvægar en geta reynst þeim mikil þraut. Hafa ber í huga að einhverfa er mjög persónubundin og brýst út með ólíkum hætti. Þeir sem greindir eru með röskun á einhverfurófi eru jafn ólíkir og þeir eru margir – alveg eins og við hin.

Fögnum fjölbreytileikanum og mætum í bláu á miðvikudag!

Nánari upplýsingar um einhverfu er að finna á www.einhverfa.is og www.greining.is.

Þeim sem vilja fræða börnin sín um einhverfu er jafnframt bent á skemmtilegt YouTube myndband eftir Jóhönnu Ýr Jónsdóttur sem kallast „Introvert“ sem ætlað er að útskýra einhverfu á einfaldan hátt. Hægt er að nálgast myndbandið á eftirfaraandi vefslóð: http://www.youtube.com/watch?v=ZFjsW2bozmM

Síðast uppfært 01.04 2014