Glæsileg árshátíð í Oddeyrarskóla

Árshátíð Oddeyrarskóla fór fram þann 30. janúar síðastliðinn og tókst einstaklega vel til. Gleði og hamingja skein úr andlitum nemenda og starfsfólks á þessum skemmtilega degi þar sem jákvæður skólabragur var í hámarki.

Sérstakt tilefni var til að fagna þennan dag, því nemendur skólans höfðu náð þeim frábæra árangri að safna 5000 þrumum. Fyrir þennan glæsilega árangur var öllum nemendum boðið upp á girnilega pizzuveislu sem vakti mikla lukku.

Foreldrafélag skólans átti stóran þátt í því að gera þennan dag ógleymanlegan. Við viljum koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra foreldra og ekki síst stjórnar foreldrafélagsins fyrir þeirra ómetanlega framlag og stuðning. Samstarf heimilis og skóla er einstaklega dýrmætt og skilar sér í ánægjulegri skólagöngu barnanna okkar.

Árshátíðin er góð áminning um þann sterka skólabrag sem ríkir í Oddeyrarskóla og þá samstöðu sem einkennir skólasamfélagið okkar. Við hlökkum til að halda áfram að byggja upp jákvætt og uppbyggilegt skólastarf með stuðningi allra sem að skólanum koma.

Síðast uppfært 03.02 2025

Árshátíð 2025

Árshátíð Oddeyrarskóla verður haldin fimmtudaginn 30. janúar. Að morgni eru sýningar fyrir alla nemendur skólans en eftir hádegi eru foreldrasýningar. Að þessu sinni verða sýningar tvær. Ekkert kostar inn á sjálfar sýningarnar en frjáls framlög á reikning nemendafélagsins eru vel þegin, 0302-13-000229, kt. 4509082580.

Fyrri sýning klukkan 15:00

1.bekkur, 2. bekkur, 5. bekkur, 7. bekkur, 9. bekkur og 10. bekkur

Seinni sýning kl. 16:30

3. bekkur, 4. bekkur, 6. bekkur, 8. bekkur og 10. bekkur

Kaffisala foreldrafélagsins er eftir báðar sýningar. Við hvetjum alla til að staldra við og gæða sér á glæsilegum veitingum og styrkja þar með foreldrafélagið. Verð er krónur 1500 fyrir fullorðna og 500 fyrir börn. Hægt er að kaupa miða í kaffihlaðborðið fyrirfram hjá ritara, best að hafa samband við sunneva@oddeyrarskoli.is ef menn vilja forðast raðir og einnig verða seldir „kaffimiðar“ fyrir sýningu. Posi á staðnum.

Síðast uppfært 17.01 2025

Smiðjur á unglingastigi – bætt námsmenning

Fyrsta vika vorannar hófst á skemmtilegan og óhefðbundinn hátt á unglingastigi. Kennsla samkvæmt stundaskrá var felld niður og í staðinn haldin smiðja sem lagði áherslu á að efla námsvitund nemenda og stuðla að bættri námsmenningu.

Á mánudaginn fengu nemendur tækifæri til að ígrunda eigin sjálfsmynd, byggja upp sjálfstraust og velta fyrir sér eigin gildum, hlutverki og framtíðardraumum. Þeir voru hvattir til að skoða hvert þeir vilja stefna og hverju þeir vilja ná fram í lífinu. 

Á þriðjudaginn var farið yfir mikilvægi markmiðasetningar þar sem nemendur lærðu að setja sér SMART markmið fyrir bæði námið og daglegt líf. Að auki var haldið nemendaþing þar sem þau ræddu saman í hópum um ýmis málefni tengd náminu, svo sem metnað, mikilvægasta fagið að þeirra mati, samskipti kennara og nemenda og fleira. Þetta gaf nemendum gott tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós og læra hver af öðrum. 

Miðvikudagurinn var tileinkaður fjölbreyttum leikjum og æfingum sem miðuðu að því að efla jákvæð samskipti og byggja upp traust milli nemenda. Þeir fengu tækifæri til að stíga út fyrir þægindarammann, æfa sig í að treysta félögum sínum og leggja áherslu á að sýna virðingu, styðja hvert annað og vinna saman. 

Á fimmtudaginn var fjallað um hugarfar og starfsemi heilans. Nemendur lærðu hvernig þeir geta tileinkað sér vaxandi hugarfar, bæði í námi og lífinu almennt. Einnig var lögð áhersla á mikilvægi seiglu og þrautseigju við að takast á við erfið verkefni og áskoranir. Að auki fengu nemendur innsýn í starfsemi heilans, þar sem þau kynntust mismunandi hlutum hans og hlutverkum þeirra. Þetta veitti nemendum betri skilning á því hvernig hugarfar getur haft áhrif á hegðun og tilfinningar þeirra.

Smiðjan endaði svo á uppskeruhátíð á föstudeginum þar sem niðurstöður úr verkefnum vikunnar voru kynntar áður en farið var í Skautahöllina. Hér má sjá fleiri myndir.

Síðast uppfært 14.01 2025

Bingó – fjáröflun 10. bekkjar

10. bekkur Oddeyrarskóla ætlar að skella í eitt gott nýársbingó næstkomandi sunnudag, 12. janúar. Fullt af góðum vinningum og vöfflusala í hléi.
Við mælum með að fólk mæti snemma, því það hefur gerst að færri hafa komist að en vilja.
Húsið opnar kl 13:30 og mun spjaldið kosta 1000.-
Hlökkum til að sjá ykkur,
Nemendur 10. bekkjar Oddeyrarskóla

Síðast uppfært 08.01 2025