Skólastarfið hefur gengið vel í Oddeyrarskóla þrátt fyrir takmarkanir í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu og gerum við okkar besta til að mæta nemendum með fjölbreyttum leiðum í námi.
Allir nemendur skólans eru í námshópum sem ekki blandast á skólatíma. Í hverjum hópi eru að hámarki 20 nemendur. Nemendur 1. – 7. bekkjar fá útiveru á hverjum degi og lögð er áhersla á að hópar blandist ekki þar. Skóli byrjar 8:10 hjá þessum nemendum en skólinn opnar 7:50 og nemendur eru að koma inn á mismunandi tíma. Miðstigið hættir milli 12:00 og 12:30 en yngsta stigið kl. 13:00. Starfsmenn mæta fyrr en venjulega og fara beint inn í kennslustofur. Nemendur á unglingastigi mæta alla daga í skólann klukkan 12:45 og eru til 15:30 en stunda annað nám að morgni. Umsjónarkennari á fund með sínum nemendum á google meet klukkan 10 alla dag og þá eru nemendur klæddir og komnir á ról og tilbúnir að fara út í hreyfingu dagsins sem þeir gera grein fyrir.
Aðstæður sem þessar reyna á og það sem er einna mest krefjandi er að vera á sama svæði mest allan skóladaginn með sama nemendahóp. Það er aðdáunarvert hvað allir standa sig vel í þessu, bæði nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn og verkefnin eru fjölbreytt þó ekki sé farið milli stofa.
Nemendur í 1. – 7. bekk fá mat í hádeginu. Yngsta stigið fær mat inn í kennslustofur en matráður fer með hitaborð á staðinn og skólaliðar á svæðinu aðstoða við að útdeila mat og taka saman mataráhöld og afganga. Miðstigið fer í matsalinn, einn hópur í einu með ákveðnu millibili og þar fá nemendur að borða áður en þeir fara heim.
Frístundin er aðeins opin fyrir 1. og 2. bekk sem eru á aðskildum svæðum. Nemendur í 3. og 4. bekk eiga kost á að vera í Frístund til klukkan 14:00
Þetta fyrirkomulag getur breyst með litlum fyrirvara og því er nauðsynlegt að fylgjast vel með. Allar upplýsingar til foreldra koma með tölvupósti og verða birtar á heimasíðu. Við vekjum athygli á því að ef aðgerðir Almannavarna til að minnka líkur á smiti verða hertar og skólinn þarf að skerða enn frekar þjónustu eða loka þurfa foreldrar á forgangslista að sækja sérstaklega um fyrir sín börn í 1. og 2. bekk en vinnuveitendur senda upplýsingar um það ferli. Athugið þó að það er neyðarráðstöfun og aðeins gripið til í brýnustu nauðsyn.
Við þökkum foreldrum og forráðamönnum fyrir ómetanlegan skilning og stuðning sem við höfum fundið fyrir undarfarna daga.
Síðast uppfært 20.03 2020