Nemendur í sjónlistum í Oddeyrarskóla fengu á dögunum heimsókn frá Kat Owens, listamanneskju, aktívista og kennara við Hartford háskóla í Connecticut í Bandaríkjunum. Kat rannsakar áhrif plastsmengunar á umhverfið og hefur skapað athyglisverð listaverk í þeim tilgangi að vekja athygli á málefninu.
Hún hefur unnið að því að búa til verk í fullri stærð af dýrum sem verða fyrir mestum skaða af völdum plastmengunar. Verkin eru unnin með þeirri tækni að sauma plast á striga. Núna vinnur Kat að mynd af langreyði sem mun verða rúmlega 25 metrar að lengd.
Í tengslum við þetta verkefni heimsótti hún nokkra skóla á Akureyri til að fá aðstoð nemenda. Nemendur Oddeyrarskóla tóku virkan þátt í verkefninu og höfðu gaman af þessari óvenjulegu listrænu upplifun.
Áhugasömum er bent á að nánari upplýsingar um verkefnið og önnur verk Kat Owens er að finna á vefsíðunni www.katowens.com. Hér má sjá fleiri myndir.

Síðast uppfært 24.09 2025