Smiðjur á unglingastigi – bætt námsmenning

Fyrsta vika vorannar hófst á skemmtilegan og óhefðbundinn hátt á unglingastigi. Kennsla samkvæmt stundaskrá var felld niður og í staðinn haldin smiðja sem lagði áherslu á að efla námsvitund nemenda og stuðla að bættri námsmenningu.

Á mánudaginn fengu nemendur tækifæri til að ígrunda eigin sjálfsmynd, byggja upp sjálfstraust og velta fyrir sér eigin gildum, hlutverki og framtíðardraumum. Þeir voru hvattir til að skoða hvert þeir vilja stefna og hverju þeir vilja ná fram í lífinu. 

Á þriðjudaginn var farið yfir mikilvægi markmiðasetningar þar sem nemendur lærðu að setja sér SMART markmið fyrir bæði námið og daglegt líf. Að auki var haldið nemendaþing þar sem þau ræddu saman í hópum um ýmis málefni tengd náminu, svo sem metnað, mikilvægasta fagið að þeirra mati, samskipti kennara og nemenda og fleira. Þetta gaf nemendum gott tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós og læra hver af öðrum. 

Miðvikudagurinn var tileinkaður fjölbreyttum leikjum og æfingum sem miðuðu að því að efla jákvæð samskipti og byggja upp traust milli nemenda. Þeir fengu tækifæri til að stíga út fyrir þægindarammann, æfa sig í að treysta félögum sínum og leggja áherslu á að sýna virðingu, styðja hvert annað og vinna saman. 

Á fimmtudaginn var fjallað um hugarfar og starfsemi heilans. Nemendur lærðu hvernig þeir geta tileinkað sér vaxandi hugarfar, bæði í námi og lífinu almennt. Einnig var lögð áhersla á mikilvægi seiglu og þrautseigju við að takast á við erfið verkefni og áskoranir. Að auki fengu nemendur innsýn í starfsemi heilans, þar sem þau kynntust mismunandi hlutum hans og hlutverkum þeirra. Þetta veitti nemendum betri skilning á því hvernig hugarfar getur haft áhrif á hegðun og tilfinningar þeirra.

Smiðjan endaði svo á uppskeruhátíð á föstudeginum þar sem niðurstöður úr verkefnum vikunnar voru kynntar áður en farið var í Skautahöllina. Hér má sjá fleiri myndir.

Síðast uppfært 14.01 2025