Nemendur í Oddeyrarskóla hafa ánægju af lestri, það sést vel í könnunum Skólapúlsins, sem lagðar hafa verið fyrir frá hausti 2011. Síðastliðinn vetur jókst þó ánægja nemenda skólans af lestri umtalsvert, svo mjög að starfsmaður frá Skólapúlsinum hafði samband við skólann og spurði hvort eitthvað sérstakt hefði verið gert sem hefði þessi jákvæðu áhrif.
Sex spurningar liggja að baki mælingunni:
- Ég les bara þegar ég verð að gera það.
- Lestur er eitt af uppáhaldsáhugamálum mínum.
- Mér finnst gaman að tala um bækur við aðra.
- Ég verð ánægð(ur) þegar ég fæ bók að gjöf.
- Lestur er tímasóun fyrir mig.
- Mér finnst gaman að fara í bókabúð eða á bókasafn.
Sem dæmi má nefna að þegar nemendur Oddeyrarskóla eru spurðir að því hvort lestur sé eitt af uppáhaldsáhugamálum þeirra svara 52% nemenda í Oddeyrarskóla því að þeir séu sammála eða mjög sammála því en 33% nemenda á landinu í heild. 56% nemenda í Oddeyrarskóla eru sammála eða mjög sammála því að þeim finnist gaman að tala um bækur við aðra en 37% nemenda á landinu í heild.
Þegar við fórum að velta fyrir okkur hver skýringin gæti verið datt okkur fyrst í hug uppsetning LESTU hillanna á Degi íslenskrar tungu í nóvember 2016 og sú mikla umræða sem varð um lestur í kjölfarið. Sýnileiki hillanna hefur líka áhrif, þar sem allir nemendur 5. – 10. bekkjar ganga fram hjá þeim daglega og aðrir nemendur talsvert oft. Þessi skýring passar vel við niðurstöður Skólapúlsins því mælingin sem gerð var í október var einungis rétt yfir landsmeðaltali en mælingar í janúar og apríl langt yfir.
LESTU hillurnar virðast svo sannarlega hafa sannað gildi sitt.
Síðast uppfært 25.08 2017