Starfsmenn og nemandi við Oddeyrarskóla hljóta viðurkenningu Fræðsluráðs Akureyrarbæjar

20170823_172248

Viðurkenningar Fræðsluráðs Akureyrarbæjar voru afhentar í Hofi síðastliðinn miðvikudag, en þar fengu Vala Alvilde Berg, nemandi við 9. bekk Oddeyrarskóla og kennararnir Hafdís og Linda viðurkenningar.

Vala hlaut viðurkenningu fyrir að vera ábyrgur námsmaður og góður skólaþegn. Hún er ábyrgur námsmaður sem nær framúrskarandi árangri. Hún er sterkur leiðtogi sem tekst að virkja hópa til góðra verka. Vala er nemandi sem hikar ekki við að vinna krefjandi verkefni og er dugleg að spyrja og velta hlutunum fyrir sér. Hún hefur góða nærveru og er góður skólaþegn. Hún er skapandi og kemur hugmyndum sínum í framkvæmd.  

Hafdís Bjarnadóttir og Linda Óladóttir, kennarar við Oddeyrarskóla, hlutu í gær viðurkenningu Fræðsluráðs Akureyrarbæjar fyrir framlag sitt til bætts skólasamfélags í Oddeyrarskóla. Viðurkenningar Fræðsluráðs voru afhentar í Hofi í gær, miðvikudaginn 23. ágúst.

Hafdís og Linda gegna gríðarmiklu hlutverki í að efla og viðhalda góðum skólabrag í Oddeyrarskóla. Þær hafa sýnt einmuna frumkvæði að því að gera skólann okkar betri, fallegri og heilsusamlegri.

Fyrst ber að nefna framtakssemi þeirra við að koma upp LESTU hillunni í anddyri skólans. Þær létu draum okkar margra verða að veruleika eftir að hafa gengið á milli fyrirtækja til að fá gott tilboð í smíðina og söfnuðu peningum til að þessi frábæra hugmynd yrði að veruleika. 

Hafdís og Linda tóku sig til í vetur og prjónuðu húfur til að gefa öllum nemendum 1. bekkjar. Húfurnar bera mikilvæg skilaboð, en á þeim stendur GEGN EINELTI. Nemendur 1. bekkjar fengu húfurnar afhentar þegar þeir höfðu lokið við að lesa og vinna með bókina um Litlu lifruna ljótu, en sú bók gefur gott tilefni til að læra um samskipti og einelti. 

Þær stöllur eru mjög öflugir leiðtogar í stýrihópi um heilsueflandi grunnskóla. Þær hafa unnið ötullega að innleiðingu heilsueflandi grunnskóla, en innleiðing hófst á nýliðnu skólaári. Þær eru gríðarlega hvetjandi og kappsamar og þegar starfsfólk og nemendur tóku þátt í Lífshlaupinu í febrúar áttu þær stóran þátt í að hvetja nemendur til sigurs og starfsmenn í 2. sætið í sínum flokkum.

Hafdís og Linda hafa einstakan metnað og bera hag nemenda og skólans alls fyrir brjósti.

Síðast uppfært 25.08 2017