Forvarnardagur gegn einelti

Þann 8. nóvember er forvarnardagur gegn einelti. Í Oddeyrarskóla er komin áralöng hefð á að gefa nemendum í 1. bekk húfur sem á stendur „GEGN EINELTI“. Húfurnar eru síðan merktar hverju barni. Starfsmenn skólans, foreldrar og aðrir velunnarar prjóna húfurnar fyrir skólann og við erum nú þegar byrjuð að safna húfum fyrir 1. bekk á næsta skólaári. Að þessu sinni fengu líka tveir nemendur í 2. bekk húfur en þeir byrjuðu í skólanum eftir að fyrsti bekkur í fyrra fékk sínar húfur.

Söngsalur 9. október

Í síðustu viku var söngsalur í Oddeyrarskóla þar sem allir nemendur komu saman inni í íþróttasal. Í upphafi var veitt viðurkenning fyrir „Göngum í skólann“ en það var 2. bekkur sem stóð sig hlutfallslega best og fékk viðurkenningarskjal frá heilsueflingarnefnd. Þá var veitt viðurkenning á yngsta stigi, miðstigi og unglingastigi fyrir Skólahlaup ÍSÍ.

Á þessari söngstund voru sungin óskalög nemenda en nemendur í öllum árgöngum máttu velja sér eitt lag og texti var birtur á skjá. Þetta var skemmtilegt uppbrot í samstarfi við Tónlistaskólann en við reiknum með að hafa fjóra söngsali á skólaárinu.