Í dag, 8. september, er haldið upp á alþjóðlegan dag læsis. Af því tilefni gerum við ýmislegt í skólanum sem tengist bókmenntum og lestri. Við áttum hér sameiginlega lestrarstund kl. 9:00-9:15 í morgun. Starfsmenn munu kynna uppáhalds bækurnar sínar, við skrifum öll saman sögur og svo verður getraun á skólasafninu þar sem nemendur giska á úr hvaða bók ákveðin mynd eða tilvitnun er.
Í læsi felst margt, m.a. að öðlast orðaforða og skilja málið. Eitt af því sem foreldrar og kennarar geta gert til að styrkja læsi barna er að lesa fyrir þau, jafnvel þótt þau séu sjálf farin að lesa. Hér á eftir kemur smá lesning með upplýsingum af lestrarvefnum, en hann geymir margar góðar ábendingar varðandi lestur.
Rannsóknir hafa sýnt að lestur fyrir börn hefur áhrif á lestraráhuga þeirra, eflir læsi og leggur grunn að því að börnin njóti þess að lesa sjálf síðar meir.
Lestrarmenning á heimilum hefur mikil áhrif á viðhorf barna til lesturs. Lestrarmenning endurspeglar þau viðhorf sem ríkja á heimilinu til læsis, hversu mikið börn sjá aðra á heimilinu lesa og skrifa og hversu gott aðgengi að lesefni er á heimilinu.
Mikilvægt er að eiga samræður um efni bóka. Þær gefa börnum tækifæri til þess að spyrja og fá svör, segja álit sitt, álykta og gefa hugarfluginu lausan tauminn. Þetta leiðir til dýpri hugsunar barnsins og til aukins skilnings á ýmsum þáttum læsis. Margar rannsóknir hafa leitt í ljós að lestur og samræður um efnið sé aðferð sem eflir orðaforða barna hvað mest.
Orðaforði skiptir miklu máli fyrir læsi. Gera má ráð fyrir því að barn sem hefur mikinn orðaforða hafi meiri færni til djúpstæðrar hugsunar og eigi auðveldara með tjáskipti en börn með lítinn orðaforða. Börn með mikinn orðaforða eiga þannig auðveldara með að bæta við orðaforða sinn í gefandi lestrar- og samræðustundum. Þess vegna þarf að leggja áherslu á að efla orðaforða barna með lestri og samræðum frá fyrstu tíð.
Hlutverk foreldra í lestrarstund getur verið að stýra samræðum og styðja barnið til að halda samtalinu gangandi; skýra innihald textans, spyrja spurninga um efnið og tengja það við reynslu og aðstæður barnsins. Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir máli að lesa oft fyrir börn. Það eykur orðaforða og eflir bernskulæsi. Gæði lestrarstunda skipta einnig miklu máli. Lestrarstund á að vera skemmtileg stund þar sem bæði foreldri og barn njóta þess að lesa og spjalla saman um efnið.
Heimild: lesvefurinn (http://lesvefurinn.hi.is/node/212 )
Síðast uppfært 08.09 2014