Fengum góða heimsókn í Oddeyrarskóla í dag

toptotopÍ dag fengum við góða heimsókn frá svissneskri fjölskyldu sem býr í skútu og dvelur hér á Akureyri um þessar mundir.

Dario, fjölskyldufaðirinn, var með flotta kynningu fyrir nemendur 5. – 10. bekkjar. Þar sagði hann í máli og myndum frá ferðum fjölskyldunnar um öll heimsins höf síðustu 18 árin meðan fjölskyldan hefur stækkað. Yngsta barnið í fjölskyldunni fæddist hér á Akureyri í síðustu viku. Dario sagði frá því hvernig þau hafa lifað umhverfisvænum lífsstíl með því að sigla, hjóla eða ganga hvert sem þau fara. Hann vakti athygli nemenda á umhverfismálum og ábyrgð þeirra í þeim efnum.

Í lok kynningarinnar fóru allir nemendur út og kepptust bekkir um að safna sem mestu rusli á 5 mínútum.

Heimsókn þeirra vakti bæði nemendur og starfsfólk til umhugsunar um þann lífsmáta sem við tileinkum okkur. Áhugasamir geta skoðað þetta myndband til að fá skýrari sýn á það sem fjölskyldan hefur verið að gera og hér er heimasíða verkefnisins.

 

 

Síðast uppfært 01.09 2017