Síðastliðinn föstudag var starfsdagur hjá kennurum Oddeyrarskóla. Sá dagur var vel nýttur þar sem haldið var innanhússþing um samræður í kennslu í tengslum við þróunarverkefnið okkar Tölum saman – lærum saman. Skólinn hlaut styrk úr Sprotasjóði til að fá til liðs við sig þau Hafþór Guðjónsson dósent við Menntavísindasvið HÍ og Brynhildi Sigurðardóttur skólastjóra í Garðaskóla, en þau hafa bæði mikla þekkingu og reynslu af því að nota samræður í skólastarfi. Brynhildur og Hafþór komu bæði á innanhússþingið, þar sem kennarar voru með innlegg um það sem þeir hafa verið að gera í vetur. Kennarar kynntu m.a. hvernig samræður eru notaðar við að leysa klípusögur, stærðfræðiverkefni, náttúrufræðiverkefni og fleira. Fjallað var um nemendaþingið og hvernig það hjálpaði nemendum að hafa lært ýmsar samræðureglur þegar þeir undirbjuggu smiðjudagana. Kennarar skólans hafa verið duglegir að prófa ýmsar leiðir við samræður í skólastofunni og eru með tímanum að ná æ betri tökum á aðferðinni.
Seinni hluta dagsins voru smiðjur hjá Brynhildi og Hafþóri þar sem kennarar annars vegar æfðu samræðuaðferðir og hins vegar ræddu verkefnið og hvernig þeir sjái fyrir sér framhaldið.
Síðast uppfært 24.04 2016