Nemendaþing haldið til að undirbúa smiðjudaga

Nemendaþing3 Nemendaþing1Þriðjudaginn 12. apríl var haldið nemendaþing í Oddeyrarskóla. Tilgangur þess var að fá nemendur til að skiptast á skoðunum um það hvað þau vilja taka sér fyrir hendur á smiðjudögum 19. og 20.apríl. Nemendum skólans var skipt í 18 hópa, þvert á alla bekki. Þessir hópar koma til með að vinna saman á smiðjudögunum. Þema smiðjudaganna er fjölmenning og á það mjög vel við hjá okkur í Oddeyrarskóla, þar sem nemendur skólans eru af mörgum þjóðernum.

Hver hópur ræddi hugmyndir að verkefnum sem upp höfðu komið og völdu sér síðan þau verkefni sem þau höfðu áhuga á. Þetta var kjörið tækifæri til að æfa samræðu og samræðureglur, þar sem skólinn vinnur nú þróunarverkefni um samræður í námi. Á sama tíma er nemendalýðræðið virkt.

Þingið gekk mjög vel og sköpuðust góðar og skemmtilegar umræður í hópunum. Krakkarnir voru ánægðir að hafa áhrif á það sem þau koma til með að vinna og gerir þetta spennuna fyrir smiðjudögum jafnvel enn meiri. Elstu nemendurnir héldu utanum hópaumræðuna og voru kennarar þeim til stuðnings.

Síðast uppfært 14.04 2016