Læsissáttmáli

læsiMennta- og menningarmálaráðuneytið og Heimili og skóli – landssamtök foreldra innsigluðu með samningi í janúar sl. samkomulag um læsissáttmála fyrir foreldra. Áður hafði Þjóðarsáttmáli um læsi verið undirritaður af mennta- og menningarmálaráðherra, fulltrúum sveitarfélaga og Heimilis og skóla í öllum sveitarfélögum landsins. Með undirrituninni staðfestu þeir sameiginlegan skilning á mikilvægi læsis til virkrar þátttöku í samfélaginu þannig að hver og einn geti nýtt hæfileika sína samfélaginu öllu til velferðar.

Meginmarkmið samkomulags ráðuneytisins og Heimilis og skóla eru að:

  • Stuðla að aukinni lestrarfærni barna og unglinga með þátttöku og stuðningi foreldra við framkvæmd þjóðarsáttmála um læsi.
  • Útbúa læsissáttmála fyrir foreldra og innleiða hann í skólum landsins.
  • Auka vitund foreldra um ábyrgð þeirra gagnvart læsi barna sinna.
  • Virkja foreldra í að styðja við læsi og lestrarþjálfun barna sinna.
  • Auka samstarf skóla og foreldra um læsisnám barna.
  • Koma á framfæri kynningarefni um áherslur og samstarf frjálsra félagasamtaka og stjórnvalda við að efla læsi barna.

Með innleiðingu læsissáttmála er höfðað til samtakamáttar og samábyrgðar foreldra. Sáttmálanum svipar til foreldrasáttmála Heimilis og skóla sem notið hefur mikilla vinsælda meðal foreldra (nánar á http://www.heimiliogskoli.is/utgefid-efni/foreldrasattmali/).

Á haustmánuðum munu sérfræðingar Heimilis og skóla ferðast um landið og kynna læsissáttmálann fyrir skólastjórnendum, kennurum og foreldrum.

Nánari upplýsingar er að finna hér.

Síðast uppfært 02.06 2016