Eftirfarandi upplýsingar hafa farið heim í tölvupósti til foreldra/forráðamanna varðandi ferð nemenda í Hlíðarfjall 24. mars.
______________________________________
Oddeyrarskóli 20. mars 2015
Ágætu foreldrar/ forráðamenn
Þriðjudaginn 24. mars er nemendum í Oddeyrarskóla boðið í Hlíðarfjall. Einhverjir nemendur gætu komið örlítið fyrr heim úr skólanum þennan dag. Valgreinar á unglingastigi verða kenndar óbreyttar eftir hádegi og þarf að mæta í þær nema nemendur hafi leyfi til að vera lengur í fjallinu, þá fá þeir leyfi í valgreininni. Nemendur sem skráðir eru í mat fá að borða um leið og heim er komið.
Nemendur í 1. – 3. bekk sem eru sjálfbjarga á skíðasvæðinu geta komið með eigin skíðabúnað. Ekki verður hægt að lána þeim búnað, en þeir geta komið með sleða eða þotur. Nemendur í 4. – 10. bekk sem ekki eiga búnað geta fengið hann lánaðan í Hlíðarfjalli sér að kostnaðarlausu. Ekki er hægt að skipta um búnað þegar búið er að velja.
Ef nemendur í 5. – 10. bekk ætla að verða eftir í Hlíðarfjalli verða þeir að koma með samþykki frá foreldrum sínum. Fylla má í neðsta hluta þessa blaðs, skrifa miða eða senda tölvupóst til umsjónarkennara til að staðfesta að barn megi vera lengur í fjallinu.
Að lokinni skipulagðri dagskrá eru nemendur á eigin vegum. Þeir nemendur sem ætla að vera lengur en eiga ekki árskort geta fengið lánað rafrænt kort sem þeir verða að sækja milli kl. 12.00- 12.30. Þeim kortum þarf að skila í lok dags og ef þeim er ekki skilað þarf að greiða fyrir kortin eftir á. Þeir nemendur sem hafa búnað að láni geta haft hann allan daginn.
Þó margt starfsfólk fari með og verði nemendum til halds og trausts í fjallinu er áríðandi að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að þau gæti að sér hvar sem þau eru og reyni ekki að fara í lyftur og skíðabrautir sem þau ráða ekki við. Sérstaklega beinum við þessum tilmælum til þeirra sem eru óvanir að vera á skíðum eða nota lyftur.
Munið eftir góðu nesti (þennan dag má vera með drykki í fernum og frjálslegt brauð s.s. kringlur eða kleinur), hjálmi og góða skapinu. Mikilvægt er að vera klæddur til útivistar, merkja vel föt og allan búnað. Þeir sem ekki eiga hjálm fá hann lánaðan að kostnaðarlausu.
Foreldrum er velkomið að koma með og fylgjast með nemendum þennan dag. Athugið að hjálmurinn skiptir höfuðmáli hvort sem barnið er á bretti, sleða eða skíðum.
Sólin er farin að hækka á lofti og endurkastið frá snjónum er mikið því er gott að bera á sig sólvörn.
Mætingar:
8. – 10. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:00. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08.15 og til baka kl.12:45
5. – 7. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:00. Rútur í Hlíðarfjall kl. 08:40 og til baka kl.12:45
1. – 4. bekkur. Mæting í skóla kl. 08:00. Rútur í Hlíðarfjall kl. 09:00 og til baka kl.12:00
Með von um góða skemmtun í Hlíðarfjalli
Starfsfólk Oddeyrarskóla
—————————————————————————————————————————————-
Ég undirrituð/aður staðfesti að
Nafn nemanda ________________________________________________ bekkur _______
má vera lengur í Hlíðarfjalli. Ég geri mér grein fyrir að barnið er á mína ábyrgð eftir að
skipulagðri dagskrá Oddeyrarskóla lýkur í fjallinu (berist til umsjónarkennara).
Nafn foreldris/forráðamanns: __________________________________________________
Síðast uppfært 23.03 2015