Dagana 25.-29. ágúst var 7. bekkur í Oddeyrarskóla í skólabúðum að Reykjum í Hrútafirði ásamt nemendum frá Patreksfirði, Bolungarvík, Ísafirði, Flateyri og Súðavík.
Hópnum var skipt í þrennt og voru hóparnir saman í dagskrá megnið af deginum. Margt skemmtilegt var í boði fyrir krakkana. Þeir fóru m.a. á byggðasafnið, í náttúruskoðun, lærðu eitt og annað um fjármál og fóru í íþróttir og sund auk þess að fara í heimsókn á sveitabæ og fræðast um Grettissögu. Haldin voru alls konar mót og átti Oddeyrarskóli þrjú efstu sætin í borðtenniskeppninni en það var Róbert Máni Hafberg sem hampaði sigrinum, í öðru sæti var Lárus Ingi Antonsson og Heiðar Gauti Jóhannsson í því þriðja. Einnig áttum við sigurvegara í hárgreiðslukeppninni, en það var Hinrik Örn Halldórsson sem var valinn með flottustu hárgreiðslu vikunnar. Á kvöldin voru kvöldvökur þar sem börnin stýrðu sjálf skemmtiatriðum og tókst það mjög vel hjá þeim. Einnig voru kennarar með söngatriði og komu raddlausir heim 🙂
Ferðin gekk vel í alla staði og fengu nemendur Oddeyrarskóla mikið hrós fyrir dugnað, kurteisi og góða umgengni. Þetta var dýrmæt reynsla fyrir okkur öll. Börnin lærðu margt og kynntust hvert öðru betur og allir eignuðust nýja vini. Þessir dagar munu án efa lifa lengi í minningunni.
Síðast uppfært 01.09 2014