Nemendur Oddeyrarskóla sigruðu Lífshlaupið – uppskeruhátíð!

Verðlaunahafar í nestisverkefni á unglingstigi

Lárus og Lilja Katrín, fulltrúar úr nemendaráði tóku á móti verðlaunum

KÁ-AKÁ sló í gegn

Listamenn Oddeyrarskóla ræðast við

Í febrúar tóku nemendur Oddeyrarskóla þátt í grunnskólakeppni Lífshlaupsins. Starfsfólk tók einnig þátt og keppti í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins í flokki vinnstaða með 30-69 starfsmenn.

Nemendur Oddeyrarskóla gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Lífshlaupið í flokki skóla með 90-299 nemendur annað árið í röð. Þetta er frábær árangur og óskum við þeim innilega til hamingju!

Mikil stemning skapaðist í skólanum meðan Lífshlaupið stóð yfir, bæði meðal nemenda og starfsfólks.

Heilsueflningarnefnd skólan hélt utan um verkefnið, hvatti nemendur og starfsfólk til dáða og stóð fyrir nokkrum hreyfitengdum viðburðum. Hist var á sameginlegri dansstund á sal og farið í  sameiginlega gönguferð. Nemendur sýndu líka frumkvæði að því að hittast og hreyfa sig, þeir hittust í sundi og skautadiskói auk þess sem tveir nemendur buðu bekkjum sínum í hreyfipartý!

Þegar góður árangur næst er nauðsynlegt að fagna honum. Heilsueflingarnefnd stóð fyrir uppskeruhátíð á sal skólans í gær, föstudaginn 2. mars. Þar fengu nemendur afhentan verðlaunaskjöld frá ÍSÍ og starfsmenn fengu sín verðlaun fyrir að lenda í 3. sæti í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins. Auk þess sigruðu starfsmenn vinnustaðakeppni Akureyrarbæjar, eða þann hluta sem snýr að hreyfidögum. Fræðslusvið var með flestar hreyfimínútur og fékk verðlaun fyrir það.

Nemendur af unglingastigi fengu viðurkenningu fyrir heilsutengd verkefni sem þau hafa verið að vinna í þematímum. Blásið hafði verið til samkeppni um bestu heilsuverkefnin til að kynna fyrir yngri nemendum heilsusamlegt mataræði og nesti. Þeir fimm hópar sem sigruðu munu þeir heimsækja 1. – 7. bekk skólans til að kynna fyrir þeim heilsusamlegt mataræði.

Loks fengum við rapparann KÁ-AKÁ í heimsókn úr varð hin mesta skemmtun, en hann var einmitt eitt sinn nemandi Oddeyrarskóla. Að fjörinu loknu gæddu nemendur sér á íspinna. Starfsfólk fagnaði árangrinum á kaffistofunni með heilsubita og tertu.

Síðast uppfært 03.03 2018